Úttekt á áhrifum Efnahags- og myntbandalags Evrópu

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 15:40:32 (4068)

1997-02-27 15:40:32# 121. lþ. 81.7 fundur 300. mál: #A úttekt á áhrifum Efnahags- og myntbandalags Evrópu# þál., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[15:40]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir efni þessarar tillögu og það ræðst af því að ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að við á Íslandi og kannski sérstaklega hér á hinu háa Alþingi fylgjumst alls ekki nógu vel með þeirri þróun sem nú á sér stað í Evrópu og snýr það bæði að umræðunum á ríkjaráðstefnunni og hvert hún stefnir og einnig að Myntbandalaginu og hvaða áhrif og afleiðingar það mun hafa á Íslandi.

Það er rétt sem fram kom í máli 1. flm. að mjög mikið er um þetta fjallað í Evrópu, bæði um kosti og galla þess að koma á Myntbandalaginu og einnig því hvaða áhrif það muni hafa á efnahagslíf í Evrópu. Ég get nefnt sem dæmi að fylgst er með þessu annars staðar að sjálfsögðu og fyrir líklega um tveimur til þremur vikum var mikil umfjöllun um Myntbandalagið í bandaríska tímaritinu Newsweek þannig að mjög mikið er spáð í það hvað þetta þýðir. Og það þurfum við Íslendingar að sjálfsögðu að gera.

Þó að Seðlabankinn sé að skoða þetta mál og hugsanlega aðrir aðilar, eins og fram kemur í grg., finnst mér að við hér á Alþingi eigum að skoða þessi mál sérstaklega. Þó að skipuð yrði sérstök nefnd, eins og tillagan gerir ráð fyrir, af hálfu forsrh. finnst mér vera mjög athugandi hvort þingið ætti ekki að fara aftur þá leið sem farin var undir lok síðasta áratugar þegar sett var á fót sérstök Evrópustefnunefnd, held ég að hún hafi verið kölluð, þar sem allir þingflokkar komu að. Sú nefnd tók saman heilmiklar skýrslur um þróunina í Evrópu og kynningu á því öllu saman. Ég held að full þörf væri á því að þingið sinnti því miklu betur að kynna sér þessi mál, bæði Myntbandalagið og einnig þá umræðu sem á sér stað á ríkjaráðstefnunni.

Ég átti þess kost fyrir um það bil hálfum mánuði að sækja ráðstefnu Norðurlandaráðs þar sem verið var að gera þingmönnum á Norðurlöndunum og þeim þingmönnum þeirra Norðurlandanna sem eru í Evrópusambandinu grein fyrir hvar umræðan stæði. Það var mjög fróðlegt þó að það kæmi auðvitað berlega í ljós að ekki var búið að taka neinar ákvarðanir en það er að skýrast hvert stefnir. Og hvaða skoðun sem við höfum á aðild Íslands að Evrópusambandinu þá hljótum við að vera sammála um að við eigum og þurfum að fylgjast mjög vel með þessum málum vegna þess að við vitum að þetta hefur allt saman áhrif. Að því leytinu er ég sammála hv. flm.

Hann vitnaði til örstuttrar umræðu sem varð í fyrirspurnatíma á hinu háa Alþingi þar sem ég spurði hæstv. forsrh. um hvort eitthvað væri verið að vinna í þessum málum og hann upplýsti þá að þessi nefnd Seðlabankans væri að störfum. Ég lét þá skoðun í ljós að ég taldi að við ættum ekki mikið erindi inn í þetta battarí og þá meina ég Evrópusambandið sem heild því að mér er það ákaflega vel ljóst að Myntbandalagið nær eingöngu til þeirra ríkja sem eru aðilar að Evrópusambandinu. En eins og fram kom í máli hv. ræðumanns er auðvitað möguleiki á því að aðlaga sig á ýmsan hátt að þessum breytingum.

[15:45]

En fyrst og fremst þurfa menn auðvitað að gera sér grein fyrir því hvaða breytingar eru líklegar og hvernig á að bregðast við þeim og þær kunna að verða margvíslegar. Hitt er svo annað mál að hve miklu leyti og hvort þessi áform ná fram að ganga. Það er stefnt að því jafnt og þétt, en þetta er líka mjög umdeilt mál og m.a. Bretar, Svíar, Grikkir og fleiri þjóðir ýmist vilja ekki ganga þarna inn eða uppfylla ekki þau skilyrði sem sett eru fyrir því að þetta myntbandalag geti virkað. Það á því eftir að koma í ljós hvað úr verður.

En mergurinn málsins er sá, hæstv. forseti, að við þurfum að átta okkur á þessu og fylgjast mjög vel með þessari þróun allri saman. Ég held að það sé í sjálfu sér ágætt að setja upp faglega nefnd sem gerir úttekt á þessum málum, en ég held að við á Alþingi ættum að taka okkur tak og reyna að fylgjast miklu betur með þessum málum en við gerum. Sting ég upp á því til umræðu hvort ekki væri ástæða til þess að fara aftur þá leið sem farin var fyrir nokkrum árum að setja hreinlega sérstaka nefnd á laggir til þess að skoða þessi mál. Við gerum allt of lítið af því hér að taka upp ákveðin mál til sérstakrar skoðunar þannig að þingið komi að því og átti sig á þróun mála óháð vilja og stefnu framkvæmdarvaldsins.