Úttekt á áhrifum Efnahags- og myntbandalags Evrópu

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 15:47:20 (4069)

1997-02-27 15:47:20# 121. lþ. 81.7 fundur 300. mál: #A úttekt á áhrifum Efnahags- og myntbandalags Evrópu# þál., HG
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[15:47]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég vildi segja okkur orð vegna þessarar fram komnu tillögu sem hv. þm. Ágúst Einarsson hefur mælt fyrir um úttekt á áhrifum Efnahags- og myntbandalags Evrópu á íslenskt efnahagslíf.

Það er að sjálfsögðu ekki hægt að hafa á móti því að athugun fari fram á hugsanlegum áhrifum þess sem stefnt er að innan Evrópusambandsins að koma þar á myntbandalagi og nýjum gjaldmiðli á grundvelli samþykktanna frá Maastricht 1991. Það er rétt sem hv. þm. mælti að um fátt meira er rætt varðandi efnahagsmál og þá um leið pólitísk efni í Evrópusambandinu um þessar mundir en einmitt spurninguna um tilkomu þessa myntbandalags, kosti þess og ókosti, spurninguna um hvort einstök ríki eða lönd Evrópusambandsins smjúgi í gegnum það nálarauga sem samþykktirnar frá Maastricht gera ráð fyrir. En á það var minnt af hv. flm. hver þau atriði eru sem uppfylla þarf til þess að lúta þeim skilyrðum. Og það er raunar svolítið kaldhæðnislegt að það ríki sem mestu veldur í efnahagspólitík Evrópusambandsins, sjálft Þýskaland, hefur verið í óvissu um hvort það stæðist þær kröfur sem þarna eru gerðar til inngöngu og á fátt meira horft heldur en efnahagsvogir í Þýskalandi þessa mánuðina hvað þetta snertir. Ég ætla ekki neinum getum að því að leiða hvað verður í þeim efnum, en það skiptir auðvitað ekki öllu hvort þessi skilyrði eru uppfyllt af Þjóðverja hálfu missirinu fyrr eða seinna. Það er alveg ljóst að Þýskaland og Frakkland eru þau ríki sem mynda uppistöðuna í sambandi við þetta myntbandalag, ef af verður, því að ég held að enn sé ástæða til þess að setja fram spurninguna ef eða fyrirvarann ef.

Það er alveg ljóst að það er geysilega þung pólitísk undiralda í sambandi við þetta mál og mörgum spurningum ósvarað í því efni. Vissulega er það svo að líkurnar á því að þetta verði keyrt saman eru meiri heldur en minni. En hitt er jafnóljóst hvaða ríki það verða sem koma þarna með til að byrja með og enn óvissara og óljósara hvaða áhrif þetta myntbandalag mun hafa á þróun Evrópusambandsins. Þau skilyrði sem koma til við að aðeins hluti Evrópusambandsríkja gengur inn í upphafi geta haft djúptæk áhrif á Evrópusambandið sem slíkt og hugsanlega orðið til þess að veikja samstöðuna innan þess og innviðina. Síðan er það auðvitað skoðunarmál út af fyrir sig, og eitt af því sem hugmyndin er að athuga samkvæmt tillögunni, og það eru áhrifin sem þetta mun hafa í einstökum atriðum og þar er auðvitað af mörgu að taka.

Það er hins vegar alveg ljóst að hér er komin spennitreyja, meiri spennitreyja heldur en menn hafa séð í Evrópulöndum fram til þessa sem mjög erfitt verður að komast úr ef menn einu sinni eru þar í komnir. Og það er auðvitað sérstakt fagnaðarefni fyrir okkur á Alþingi Íslendinga að við erum ekki í þeim hópi sem stendur frammi fyrir spurningunni hvort eigi að gerast þarna meðreiðarsveinar, hvort við eigum að reyna að komast þarna að eða ekki því að réttilega var á það minnt af hv. flm. að Ísland utan Evrópusambandsins er ekki gjaldgengur aðili í þessum klúbbi sem verið er að stofna.

Ég vil líka slá varnagla við það sem hv. þm. sagði um afstöðu þeirra sem ekki vilja einblína á það sem er að gerast innan Evrópusambandsins. Mér fannst kannski ekki vera alveg rétt að vega að hæstv. forsrh. með þeim hætti sem hv. þm. gerði í þessu sambandi, hann vitnaði til áramótagreinar hæstv. forsrh. í þessum efnum en hann kvað mjög ákveðið að orði um þetta í áramótagrein. Það er kannski rétt að rifja upp, með leyfi forseta, það sem hann sagði:

,,Fáum blandast hugur um að Íslendingum væri ógerlegt að gerast aðilar að sameiginlegri mynt Evrópu. Þeir misstu þá umsvifalaust forræði á mikilvægustu þáttum íslensks efnahagslífs. Sveiflum á verði og magni á okkar meginafurðum yrði ekki lengur mætt með því að laga íslenskan veruleika að nýrri stöðu. Til yrðu að koma sérstakir sveiflujöfnunarsjóðir í Brussel, sem sæju á okkur aumur, þegar illa gengi.``

Þetta er úr áramótagrein hæstv. forsrh. Ég held að þessi orð séu ekki mælt af neinum misskilningi um að Íslendingar ættu þess ekki kost þótt einhverjir vildu að gerast formlegir aðilar að þessu, heldur einfaldlega lýsa þau hvaða aðstaða okkur væri sköpuð ef við ætluðum að fara þarna inn. Þetta tengist auðvitað spurningunni til Evrópusambandsins, spurningunni um hvort menn telja að Íslendingar eigi að gerast þar aðilar eða ekki og það er sú spurning sem ég taldi að hæstv. forsrh. væri að svara, ítreka og undirstrika, og ég fagnaði því að sjá þessi orð, eins og fleiri sem lúta að því hvaðan sem þau koma, sem vara eindregið við því að Íslendingar leiði hugann að því að fara þarna inn af pólitískum ástæðum alveg sérstaklega.

Kem ég þá að því sem ég vildi gera smáathugasemd við varðandi efni tillögunnar. Ég hef sem sagt ekkert á móti því að fram fari athugun á hugsanlegum áhrifum þessa myntbandalags innan Evrópusambandsins á okkar aðstæður. En að í þeirri nefnd eigi fyrst og fremst, og eingöngu eins og gert er ráð fyrir, að sitja sérfræðingar á sviði hagstjórnar, það er ég ekki viss um að sé alveg rétt hugsað. Hér er um að ræða mál sem auðvitað er efnahagslegs eðlis en vitaskuld hápólitískt um leið og ég held að menn verði að líta á báða þættina samtímis. Það eru auðvitað ákveðnir hagtæknilegir, ef svo má orða það, hagtæknilegir þættir, hagstjórnarlegir þættir (Forseti hringir.) sem þarna er um að ræða, en þarna er líka um að ræða, og ekki síst, pólitíska þætti sem þarf að taka með í skoðun þessara mála. Því hefði ég gjarnan viljað sjá að meiri breidd væri í skipun hóps sem væri settur til þess að gera úttekt á þessum efnum fyrir þjóðina, fyrir Alþingi, fyrir stjórnmálaflokkana og átta sig á þeim aðstæðum. En við megum síst einangra okkur við að skoða þetta. Við þurfum að líta víðar þegar við horfum á efnahagsaðstæður í umhverfi okkar (Forseti hringir.) þannig að þetta er aðeins einn liður í því að glöggva þá mynd.