Verðbólgureikningsskil

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 16:32:23 (4076)

1997-02-27 16:32:23# 121. lþ. 81.9 fundur 314. mál: #A verðbólgureikningsskil# þál., Flm. ÁE
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[16:32]

Flm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Á þskj. 575 flyt ég ásamt hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni till. til þál. um verðbólgureikningsskil. Tillagan fjallar um að fela viðskrh. að skipa nefnd sérfróðra aðila til að kanna hvort hverfa eigi frá verðbólgureikningsskilum hérlendis. Nefndin þarf að skoða lög um bókhald, lög um ársreikninga, lög um tekju- og eignarskatt og hún þarf einnig að skoða fyrirkomulag um fjárreiður ríkisins.

Í tillögunni er kveðið á um að nefndina skipi m.a. endurskoðendur, kennarar í reikningshaldi og endurskoðun við Háskóla Íslands, sérfræðingar úr ráðuneytum viðskipta- og fjármála, aðrir sem starfa á fjármagnsmarkaði hérlendis og búa yfir víðtækri þekkingu á þessu sviði. Það er augljóst á þessu, herra forseti, að hér er sett upp vönduð nefnd til að skoða mjög mikilvægt mál.

Það er gert ráð fyrir, ef tillagan verður samþykkt, að nefndin ljúki störfum í apríl 1998, þ.e. gert er ráð fyrir að nefndarstarfið taki um eitt ár og hún muni gera tillögur til lagabreytingar ef hún telur nauðsyn á því. Jafnframt er kveðið á um að viðskrh. leggi í kjölfar þess fram frv. til laga um breytingar á lagaákvæðum um verðbólgureikningsskil til kynningar á vorþingi 1998, þ.e. eftir eitt ár.

Þetta er brýnt mál sem hér er til umræðu. Ég vil hins vegar strax í upphafi taka fram að það getur verið álitamál hvaða ráðherra á að skipa slíka nefnd, hvort það eigi að vera viðskrh. sem er með ábyrgð á flestum þáttum í viðskiptalífinu eða fjmrh. en einmitt skattalög og ýmis af þeim lögum sem ég vitnaði til falla undir fjmrn. og þar á meðal lög um endurskoðun. Þetta er vitaskuld álitaefni sem hv. efh.- og viðskn. verður að skoða en það verður gerð tillaga um að vísa málinu þangað.

Verðbólgureikningsskil eru að nokkru leyti barn síns tíma hér á landi og voru eðlileg þegar verðbólga var hér miklu meiri en í nágrannalöndunum. Það þarf hins vegar að taka mjög skýrt fram að þó svo hætt verði við verðbólgureikningsskil þýðir það ekki að horfið verði frá verðtryggingu fjárskuldbindinga. Það er annað mál og kemur ekki inn á þá vinnu sem samþykkt þessarar tillögu hefði í för með sér.

Eitt mikilvægasta atriði í verðbólgureikningsskilum er svokölluð verðbreytingafærsla en með henni eru áhrif verðlagsbreytinga á peningalegar eignir og skuldir reiknaðar og færðar í ársreikning. Það þarf einnig að hafa í huga að ársreikningur og skattframtöl þurfa ekki að vera samhljóða hjá einstökum fyrirtækjum. Skattframtöl taka mið af lögum um tekju- og eignarskatt og þau geta verið frábrugðin ársreikningi sem settur er upp til framsetningar á rekstrar- og efnahagsreikningi auk annarra þátta sem koma fyrst og fremst að gagni til að upplýsa hluthafa og aðra aðila um stöðu viðkomandi fyrirtækis.

Það er mikilvægt, herra forseti, í þessu sambandi að skoðaðar verði sérstaklega uppgjörsaðferðir ríkisins. Vel gæti komið til greina að ríkið mundi ganga á undan að hverfa frá verðbólgureikningsskilum ef menn kysu að gera það, en það er ekki fullyrt í þessari tillögu að reynt sé að hverfa frá verðbólgureikningsskilum, heldur fyrst og fremst talað um vandaða nefndarskipun til að skoða allar hliðar þessa máls. Nú færir ríkið fjármagnskostnað þannig að raunvextir verðtryggðra lána og nafnvextir óverðtryggðra og gengistryggðra lána eru færðir til gjalda en verðbótaþáttur verðtryggðra lána og gengisbreyting gengistryggðra lána eru færð um endurmatsreikning, þ.e. yfir efnahagsreikning en ekki rekstrarreikning. Vitaskuld væri hægt að færa alla vexti hjá ríkinu og verðbætur til gjalda eins og er hjá fyrirtækjum en falla frá verðbreytingarfærslunni. Það gæti verið tiltölulega einfaldari útfærsla að byrja á þessum þætti vegna þess hvernig uppgjör ríkisins er.

Þetta var rætt nokkuð í fyrra í sérnefnd á hinu háa Alþingi þegar frv. um fjárreiður ríkisins var hér til umræðu, það mál er nú reyndar aftur til umræðu hér á Alþingi, og niðurstaðan var þá og verður væntanlega aftur að leggja ekki til að hætt verði eða að ríkið hafi forgöngu um að hætta við verðbólgureikningsskil, heldur komst sérnefndin að þeirri niðurstöðu í fyrra að rétt væri að fylgjast mjög vel með þróun mála erlendis og athuga hvort aðstæður breyttust á þann hátt.

Í greinargerð með tillögunni er sömuleiðis vitnað til umsagnar Stefáns Svavarssonar, dósents í reikningshaldi og endurskoðun við Háskóla Íslands, formanns reikningsskilaráðs og eins helsta einstaklings hér á landi á sviði endurskoðunarmála. Þar veltir hann upp möguleikum þess að skynsamlegt gæti verið að skoða nákvæmlega hvort hætta ætti verðbólgureikningsskilum. Það er ýmislegt sem mælir með því að það verði gert, sérstaklega með tilliti til þess að nú er verðbólgan miklu minni og svipuð og hún er í öðrum nágrannalöndum, en verðbólgureikningsskil þekkjast sáralítið annars staðar. Þó má geta þess að fræðilega er vitaskuld hægt að sýna fram á að verðbólgureikningsskil, þ.e. að taka tillit til verðbólgu, geta verið mjög hagkvæm og í sjálfu sér réttara að gera í reikningsskilum. Hins vegar lúta rökin fyrir því að hætta við þetta e.t.v. fyrst og fremst að því að gæta að samræmingu í samanburði milli ríkja, t.d. innan OECD-ríkjanna. Það eru því rök með því að láta af verðbólgureikningsskilum, sterk rök til samræmingar við það sem gengur og gerist í öðrum ríkjum og einmitt vegna þess að við erum horfin út úr þessari miklu verðbólgu sem var hér, en það eru hins vegar rök með því að halda þessu áfram vegna þess að það að taka tillit til verðbólgu þó að hún sé lítil gefur í sjálfu sér réttari mynd af þróun í rekstri fyrirtækja.

Það er augljóst að nefndin sem hér gert er ráð fyrir að sé skipuð verður að afla sér upplýsinga erlendis frá og meta aðstæður hérlendis hvað varðar verðbólguþróun.

Við flutningsmenn eigum báðir sæti í efh.- og viðskn. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson er formaður efh.- og viðskn. og ég er varaformaður hennar þannig að við komum til með að fjalla um málið í nefnd. Við erum þeirrar skoðunar að það sé rétt að setja þessa athugun af stað, en við segjum alveg skilmerkilega varðandi þetta mál að við höfum ekki myndað okkur skoðun fyrir fram hvort hætta eigi verðbólgureikningsskilum, en við viljum benda á að alþjóðlegur samanburður verður mun auðveldari, bæði milli fyrirtækja og opinberra aðila ef uppgjörsaðferðir eru sambærilegar.

Að svo mæltu, herra forseti, legg ég til að tillögunni verði vísað til síðari umr. og hv. efh.- og viðskn.