Orkusala Landsvirkjunar til stóriðju

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 15:06:16 (4080)

1997-03-03 15:06:16# 121. lþ. 82.1 fundur 218#B orkusala Landsvirkjunar til stóriðju# (óundirbúin fsp.), HG
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[15:06]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Eins og menn rekur minni til lágu hér fyrir við fjárlagaafgreiðslu hugmyndir ríkisstjórnar um stórframkvæmdir í landinu, fyrst og fremst stækkun járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði og um nýja álbræðslu á Grundartanga og miklar fjárfestingar og umsvif sem þessu áttu að tengjast. Önnur þessara framkvæmda er fallin ef marka má yfirlýsingar rétt fyrir helgina af hálfu ráðamanna Íslenska járnblendifélagsins sem staðfest var af hæstv. iðnrh. Af því tilefni voru umræður í fjölmiðlum um breytingar á virkjanaáformum þar sem stjórnarformaður Landsvirkjunar og forstjóri m.a. komu fram. Í máli þeirra kom fram að mikil óvissa væri um hvernig framhaldið yrði hjá Landsvirkjun í sambandi við virkjanaáform. Sumt af því hefur raunar þegar verið boðið út með fyrirvörum eins og tveir af þremur þáttum Sultartangavirkjunar sem mér skilst að hafi tengst stækkun járnblendiverksmiðjunnar sérstaklega. En um leið og þetta liggur fyrir sögðust þessir talsmenn þegar búnir að setja sig í samband við aðra aðila vegna orkukaupa, þar á meðal hugsanlega 50% stækkun álbræðslu á Grundartanga. Það gerist sama daginn að við fréttum af því í hádegisfréttum, fyrstu fréttir sögðu: ,,Stækkun járnblendiverksmiðjunnar úr sögunni í bili að minnsta kosti.`` --- svo var hringt í forstjóra Columbia álfyrirtækisins og spurt: Viltu ekki stækka um 50% í viðbót? Þetta minnir dálítið á fjárhættuspil, virðulegur forseti, það sem hér fer fram. Ég er dálítið undrandi á (Forseti hringir.) hvernig haldið er á þessum málum af hálfu Landsvirkjunar og iðnrn., sem er jú ábyrgðaraðili, og óttast að þetta geti skaðað hagsmuni aðila og þar með íslensku þjóðarinnar ef svona er haldið á málum.