Orkusala Landsvirkjunar til stóriðju

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 15:12:39 (4083)

1997-03-03 15:12:39# 121. lþ. 82.1 fundur 218#B orkusala Landsvirkjunar til stóriðju# (óundirbúin fsp.), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[15:12]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Þegar það lá fyrir strax á föstudag að sennilega yrði ekki af þessum samningum þá voru þetta eins og ég sagði áðan hárrétt viðbrögð hjá stjórnendum Landsvirkjunar vegna þess að tíminn er mjög knappur. Þau útboð sem fóru fram á vegum Landsvirkjunar í Sultartangavirkjun --- þeir samningar þurfa að hafa verið undirritaðir fyrir miðjan mars. Landsvirkjun hefur því tiltölulega stuttan tíma til að ákveða hvort ráðast eigi í Sultartangavirkjun eða ekki. Það hlýtur að byggjast á því hver er möguleg orkusala. Af þessum stutta tíma réðust þessi viðbrögð.

Varðandi Hitaveitu Suðurnesja þá er það allt annað sem Landsvirkjun er að hugsa um og hv. þm. verður að gera greinarmun þar á. Hitaveita Suðurnesja kæmi aðeins til ef Landsvirkjun félli frá því að ráðast í Sultartangavirkjun vegna þess að það er mun minni orka sem kæmi þaðan og eftir að járnblendifélagið hefur hætt við kaupin. (Forseti hringir.) Stjórnendur Landsvirkjunar voru því með þessum hætti að reyna að raða upp skynsamlegum orkukostum með tilliti til þeirrar eftirspurnar sem yrði frá nýjum kaupendum.