Meirapróf ökutækja

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 15:33:28 (4099)

1997-03-03 15:33:28# 121. lþ. 82.1 fundur 222#B meirapróf ökutækja# (óundirbúin fsp.), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[15:33]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. Hún varðar réttindi til svokallaðs meiraprófs ökutækja. Eins og allir vita er það námskeið sem stendur í um það bil sex vikur og er dýrt fyrir þá nemendur sem það sækja. Að auki bætist svo 18 þús. kr. próftökugjald ofan á námskeiðskostnað og það eitt í sjálfu sér vekur upp spurningar. En, herra forseti, um þá staðreynd að hluti af prófinu til þessa svonefnda meiraprófs fer einungis fram á Akureyri og í Reykjavík vildi ég gera örstutta athugasemd. Ég tel að í því felist ákveðinn ójöfnuður þar sem búseta hefur greinilega mikið að segja hvað varðar kostnað við að afla sér þessara mikilvægu réttinda.

Herra forseti. Þegar ákvörðun er tekin um hvar próf skuli halda þá þurfa að sjálfsögðu að liggja fyrir því ýmis fagleg rök en ég fæ ekki séð að fyrir þessari ákvörðun, sem mun vera nokkuð nýleg, séu efnisleg rök. Ég fæ ekki séð, herra forseti, að í stærri sveitarfélögum, t.d. á Vesturlandi, Suðurnesjum og víðar um landið, geti nemendur ekki sannað kunnáttu sína í að aka stærri bílum. Og að það geti aðeins gerst í Reykjavík eða á Akureyri er í rauninni dálítið óskiljanlegt. Það eru með öðrum orðum ekki fagleg rök. Ég fæ ekki séð hvernig hægt er að prófa á Akureyri, en ekki t.d. á Suðurnesjum. Það felst í þessu verulegur kostnaðarauki fyrir nemendur. Þeir þurfa að taka sér leyfi frá vinnu. Ég sé þetta sem kerfislegt vandamál og af því að ég veit að hæstv. dómsmrh. er maður réttsýnn, þá leyfi ég mér að beina þeirri spurningu, og um leið áskorun, til hans hvort hann muni breyta þessu fyrirkomulagi.