Meirapróf ökutækja

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 15:35:45 (4100)

1997-03-03 15:35:45# 121. lþ. 82.1 fundur 222#B meirapróf ökutækja# (óundirbúin fsp.), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[15:35]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Samkvæmt ákvæðum í reglugerð er það svo að Umferðarráð eða sú deild hjá Umferðarráði sem sér um umferðarkennslu skal ákveða hvar próf fara fram. Ég geri ráð fyrir því að meginsjónarmiðin sem að baki liggja, eins og hv. fyrirspyrjandi reyndar vék að, séu fagleg atriði sem lúti að því að staðreynt sé að þeir sem þreyta prófin standist þau skilyrði sem sett eru. Það er ugglaust líka rétt að það væri æskilegt að próf gætu farið fram við sem ólíkastar aðstæður. Þeir sem aka bifreiðum, ekki síst stórum fólksflutningabifreiðum, þurfa að kunna skil á ýmsum aðstæðum, bæði í þéttbýli og ekkert síður við erfið skilyrði á vegum úti, en ég er reiðubúinn til þess að láta athugun fara fram á þessu. Hér er ekki um að ræða ákvörðun sem tekin hefur verið í ráðuneyti með reglugerð heldur af Umferðarráði og ég skal beita mér fyrir því að fram fari skoðun á þeim forsendum sem þarna liggja að baki með það í huga að veita sem allra besta þjónustu án þess að slaka á þeim efnislegu kröfum sem eðlilegt er að menn geri út frá umferðaröryggisástæðum við töku þessara prófa.