Stækkun járnblendiverksmiðjunnar

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 15:40:11 (4103)

1997-03-03 15:40:11# 121. lþ. 82.1 fundur 223#B stækkun járnblendiverksmiðjunnar# (óundirbúin fsp.), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[15:40]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það var efnahagslegt áfall að ekki skyldi takast að ná samkomulagi við samstarfsaðila okkar í Noregi um stækkun járnblendiverksmiðjunnar. Þrátt fyrir það að við Íslendingar séum með 55% eignaraðild í fyrirtækinu, þá er sú eignaraðild okkur því miður lítils virði vegna þess að minnihlutaréttindi eru svo tryggð í samstarfssamningi milli eignaraðila að þeir sem minni eru og fara með minnihlutaréttindin geta í mjög mörgum tilfellum algjörlega ráðið fyrirtækinu.

Til þess að selja eignarhlut í fyrirtækinu þá var það fyrstu 15 árin algjörlega háð samþykki allra eignaraðila. Ef gera á breytingu á markaðssamningi milli eignaraðila þá er það háð samþykki allra aðila. Til þess að auka hlutafé í fyrirtækinu þarf samþykki 2/3 hluta eignaraðila og til þess að taka lán til að fjármagna fjárfestingu eins og þriðji ofninn væri, þá þarf líka samþykki 2/3 hluta allra eignaraðila.

Það er rétt að með því að eignarhluti Íslands og Sumitomo samanlagt er 70% þá gætum við við fyrstu sýn haldið að hægt væri að ná fram ákvörðun þessara tveggja aðila um stækkun fyrirtækisins, en það hefur komið skýrt fram hjá Sumitomo að ákvörðun af þessu tagi komi ekki til greina nema þeir fái breytingu á sínum markaðssamningi sem þeir hafa við fyrirtækið. Til þess að fá honum breytt þarf samþykki allra eignaraðilanna í fyrirtækinu þannig að okkur er býsna mikill vandi á höndum hvað þetta snertir.