Atvinnuleysistryggingar

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 15:44:21 (4105)

1997-03-03 15:44:21# 121. lþ. 82.2 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., KÁ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[15:44]

Frsm. minni hluta félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Með samþykkt þessa frv. til laga um atvinnuleysistryggingar er horfið aftur til gildandi laga að mestu leyti þar sem flestallar breytingar sem gera átti hafa verið kallaðar aftur og fyrirhugaður sparnaður upp á 128 millj. kr. er floginn út í veður og vind. Eftir stendur að þeir sem hafa verið atvinnulausir í fimm ár eða lengur missa bætur og fulltrúar Alþingis eru felldir út úr stjórn án þess að nokkur efnisleg umræða hafi farið fram um það meðal þingmanna hvar eðlilegt sé að fulltrúar Alþingis komi að eftirliti með framkvæmdarvaldinu með setu í stjórnum.

Þetta frv. er meingallað, hæstv. forseti, og hefði betur verið látið bíða nýrrar og framsækinnar endurskoðunar sem gengi út á að bæta hag hinna atvinnulausu í stað þess að skerða rétt þeirra. Á þessu verður ríkisstjórnin að bera ábyrgð og því greiði ég ekki atkvæði.