Sala afla á fiskmörkuðum

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 16:11:28 (4114)

1997-03-03 16:11:28# 121. lþ. 82.12 fundur 202. mál: #A sala afla á fiskmörkuðum# þál., Flm. SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[16:11]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Á hverjum degi fjallar hv. Alþingi um tillögur sem lúta að leikreglum fyrir þann markað sem við erum að vinna hér á. Þetta er ein slík. Þessi tillaga á að koma í veg fyrir þann mismun sem nú er í gangi á milli þeirra verkenda sem annars vegar hafa aðgang að veiðikvóta, eru hluti af fyrirtæki sem jafnframt er í veiðum og svo hinna sem ekki hafa slíkan aðgang.

Það kom fram í máli mínu að fyrirtækin hafa sérhæft sig í vinnslunni, mörg hver með því að versla enn stífar með óveiddan fisk en þörf hefur verið fyrir ef fiskur hefði verið boðinn upp á markaði. Þau fyrirtæki sem geta haft þann háttinn á eru e.t.v. sæmilega sett, en það hefur komið fram oftar en einu sinni að slík aðferð misbýður réttlætiskennd ýmissa, hún eykur framsal í kvótakerfinu og veikir það þar með og sjómenn hafa viljað meina að um óeðlilega þátttöku þeirra í slíku kerfi væri að ræða. Það er mikill mismunur á aðstöðu þessara aðila sem verkenda og hinna sem eiga allt sitt undir því að kaupa sitt hráefni á markaði. Og það eru merkileg skilaboð í rauninni að ef menn vilja fara í fiskverkun, ef menn eru með góða hugmynd að úrvinnslu á afla, ef menn eru jafnvel með góð viðskiptasambönd til að selja slíkt, þá skuli það nánast vera skilaboð frá Alþingi Íslendinga að menn verði þá einnig að eiga skip og kvóta.