Sala afla á fiskmörkuðum

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 16:18:05 (4119)

1997-03-03 16:18:05# 121. lþ. 82.12 fundur 202. mál: #A sala afla á fiskmörkuðum# þál., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[16:18]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta voru afar merkilegar upplýsingar. Talsmaður flutningsmanna staðfestir að alls ekki sé ætlunin að selja á uppboðum allan fisk sem veiddur er heldur undanskilja hina veigamiklu veiði frystiskipa. Það hlýtur að vekja upp fjölmargar spurningar. Þeir sem vinna fiskinn sem þeir veiða um borð í sínum skipum mega gera það án þess að aflinn fari á uppboð en þeir sem vinna fiskinn af sínum eigin skipum í landi eru neyddir til þess að fara í gegnum þennan millilið sem hér er verið að mæla fyrir um. Hér er verið að búa til slíka mismunun sem mér sýnist að mundi alveg augljóslega ýta mönnum út í það að auka vinnslu um borð í frystiskipum. Alla vega er alveg ljóst að hér er verið að mismuna aðilum eftir því hvort þeir vinna aflann um borð í skipum eða í landi. Mér er mjög til efs að slík mismunun fái staðist.