Sala afla á fiskmörkuðum

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 16:21:05 (4121)

1997-03-03 16:21:05# 121. lþ. 82.12 fundur 202. mál: #A sala afla á fiskmörkuðum# þál., KHG
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[16:21]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Sú tillaga sem hér liggur fyrir er út af fyrir sig allrar athygli verð en það er svo sem ekki verið að hreyfa neinni nýrri hugmynd. Menn hafa fengið þingmál af þessum toga áður hér inn á borð í þingsölum og fjallað um þessi málefni.

Ég vil fyrsta segja um þingmálið að það er tæknilega ekki rétt útfært því þrátt fyrir að tillagan yrði samþykkt þá mundi ekkert gerast. Það mundi ekki leiða til neinna þeirra breytinga sem samþykktin felur í sér af því breytingar á skipan mála verða ekki gerðar nema með breytingum á lögum og hér er aðeins lögð fram tillaga til þál. sem er pólitísk yfirlýsing. Og jafnvel þó hún yrði samþykkt þá mundu engar breytingar fylgja sjálfkrafa í kjölfarið. Í lok grg. er vísað til þess að samþykkt ályktunarinnar mundi leiða til þess að ríkisstjórnin ynni frv. og legði fyrir þingið. Það er ekkert víst að ríkisstjórnin geri það enda er henni ekki falið að gera það.

Það sem menn mega ekki, að mínu viti, flaska á er að gera ekki þá hluti sem þeim er ætlað að gera, þ.e. þeim sem sitja á löggjafarsamkomunni. Þeim er ætlað að setja lög. Til þess eru menn kosnir á Alþingi, að beita sér fyrir því að lög séu sett. Og vilji menn gera það þá flytja menn frv. Þetta er tiltölulega einfalt mál þannig að ég sé ekki annað en að það hefði verið mjög einfalt fyrir flm. að setja upp snoturt frv. sem fæli í sér þá meiningu sem lögð er til í þáltill. Þetta tel ég galla á málinu og velti því fyrir mér hvers vegna flm. velja þessa leið en ekki þá að flytja frv. Er eitthvert hik á þeim með að hrinda í framkvæmd þeirri meiningu sem þeir tala fyrir?

Þá vil ég aðeins velta fyrir mér efni tillögugreinarinnar. Það er ekki alveg ljóst hvernig ber að skilja hana. Þar segir að allur sjávarafli sem seldur er innan lands skuli seldur á fiskmörkuðum. Hvað með afla sem landað er en ekki er seldur? Er þá heimilt að verka hann? Geta útgerðarmenn eins og trillusjómenn komið með sinn fisk að landi, verkað sinn þorsk í saltfisk eða hengt hann upp á hjalla og verkað í harðfisk? Er það meiningin í tillögugreininni að það verði áfram heimilt að einhver hluti af lönduðum afla sé undanþeginn þeirri kvöð að vera seldur á fiskmarkaði? Mér heyrðist reyndar á framsöguræðunni að svo væri ekki. Þá kemur upp önnur spurning sem vefst mjög fyrir mér að átta mig á hvort sé framkvæmanlegt eða hvort það sé ekki það mikil breyting að erfitt sé að afla stuðnings við það hjá útgerðarmönnum --- geta menn ætlast til þess að fá stuðning smábátasjómanna við því að þeir megi ekki verka eigin fisk? Þeir megi ekki verka sinn fisk í saltfisk eins og margir gera hvort sem þeir veiða hann á handfæri eða línu? Eða þeir megi ekki verka hann í harðfisk? Hvers konar markaðskerfi er það sem takmarkar ráðstöfun eða möguleika útgerðarmanna til að gera verðmæti úr sínum afla? Því í þessum skilningi er ekki um að ræða tillögu til aukins frjálsræðis heldur er þetta tillaga til minna frjálsræðis en er í dag. Og hvernig má það vera ef fiskmarkaðskerfið er svona gott að það skuli ekki geta staðið sig í samkeppninni við fiskvinnslurnar í landinu án þess að fá lög sem kveða á um að þeir sem selja fisk verði að nota þetta form til að selja fiskinn? Það er greinilega ekki nógu gott kerfi. Og er það þá góð leið í markaðshagkerfinu að þvinga menn með lögum til að nota þá leið sem menn vilja helst ekki nota eða vilja ekki nota í nægilega miklum mæli? Ég er ekki alveg viss um að menn séu á réttu spori með þessari aðferðafræði.

Ef við höldum áfram með tillögugreinina þá segir hún það, eins og ég rakti áðan, þó það sé ekki meining flm., að menn gætu sjálfir verkað eigin afla. Menn gætu hengt upp sinn fisk og gert hann að harðfiski. Þýðir þá tillögugreinin að þegar fiskurinn er orðinn að harðfiski verði menn að selja harðfiskinn á fiskmarkaði? Eða selja saltfiskinn á fiskmarkaði? Þetta er það sem stendur í tillögugreininni en er, að ég tel, ekki meining flm. Þeir verða þá að umskrifa greinina til þess að hún feli í sér það sem þeir óska eftir.

Herra forseti. Vissulega er vandamálið þess eðlis að það ber að taka öllum tillögum til lausnar á því með velvilja og það vil ég gera. Það hefur verið verulegur áhugi á því innan míns stjórnmálaflokks að koma til móts við þessi sjónarmið sjómanna sem þeir hafa haldið fram, og oft að ég held með réttu, að þeir gætu fengið hærra verð fyrir fiskinn ef hann yrði seldur öðruvísi en í beinum viðskiptum, a.m.k. til skamms tíma litið. Hins vegar hefur ekki verið stuðningur fyrir því að gera það að lagakvöð að útgerðarmenn og sjómenn verði að selja fiskinn eftir þessari leið einni og megi ekki nota neina aðra leið. Það eru fleiri hagsmunir í þessu máli en bara hagsmunir sjómanna, og á það ber að horfa líka, og það eru líka lögmætir hagsmunir. Við skulum gefa okkur að það væri rétt, án þess að ég ætli að halda því fram, en við skulum gefa okkur að útgerðarmaður velji að selja frystihúsi í byggðarlaginu þar sem hann býr allan fisk af sínu skipi og hann fái fyrir hann eitthvað lægra verð en hann gæti vænst að fá á fiskmarkaði. En hann velur samt þessa leið. Eigum við þá að segja á Alþingi: Þetta er gegn hagsmunum sjómanna, þess vegna erum við á móti þessu og setjum lög sem banna þetta. Er það víst? Eigum við ekki að muna eftir því að það er fólk í landi sem vinnur í frystihúsunum sem hefur hagsmuni af því að frystihúsin fái fisk til vinnslu á verði sem þau ráða við að kaupa. Á Alþingi að segja: Við viljum ekki gæta hagsmuna fiskvinnslufólks í landi heldur bara hagsmuna sjómanna? Nei, auðvitað ekki. Menn verða að horfa á þessi mál í heild sinni og það eru fyllilega réttlætanlegir hagsmunir að mínu viti í því dæmi sem ég var að setja upp og búa til að gæta að hagsmunum fiskvinnslufólks í landi. Ef þessi tillaga yrði sett í lög mundi hún taka fyrir þá hagsmunagæslu. Ég er ekki tilbúinn til að ganga svo freklega á rétt fólks í landi að samþykkja þetta mál þó ég vilji sýna því allan skilning og velvild að öðru leyti.