Sala afla á fiskmörkuðum

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 16:56:37 (4125)

1997-03-03 16:56:37# 121. lþ. 82.12 fundur 202. mál: #A sala afla á fiskmörkuðum# þál., TIO
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[16:56]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu um þáltill. hefur verið leitt fram í dagsljósið að ekki er verið að leggja til að allur sjávarafli verði seldur á fiskmörkuðum. Það er aðeins hluti af sjávaraflanum sem mun fara á fiskmarkaðina og það mun leiða til þess að útgerðum verður mismunað. Það er alveg ljóst að landvinnslan, frystihúsin í landinu sem byggja vinnslu sína að talsverðu leyti á afla ísfisktogara, mun, ef þetta nær fram að ganga, eiga erfiðara í samkeppninni við frystiskipin. Frystiskipin munu ekki verða háð þeirri takmörkun sem hér er verið að setja fram hugmyndir um. Það munu hins vegar frystihúsin í landi verða. Þau munu ekki geta tryggt á sama hátt það gæðaferli sem frystiskipin geta tryggt sér. Þau munu ekki geta tryggt það á sambærilegan hátt. Þannig er þetta grundvallaratriði sem hefur verið leitt fram í umræðunni að ekki er verið að tryggja að allur fiskur verði seldur á fiskmörkuðum, heldur er verið að tryggja það að fyrirtækjum verður mismunað eftir því hvers konar fiskverkun þau stunda. Þetta er athyglisvert ekki síst með tilliti til þess að fiskvinnslan í frystihúsunum á nokkuð undir högg að sækja. Það er ljóst að þeir sem í fiskvinnslunni starfa telja að það sé afar mikilvægt að frystihúsin fjárfesti í bættri vinnslutækni og bættri gæðastjórnun og fjárfesti í þróunarstarfi. Þar eru raunar taldir vera talsverðir möguleikar í frystihúsunum. Þetta kom fram á ráðstefnu sem haldin var um stöðu landvinnslunnar á Akureyri nú fyrir stuttu. Það var talið að ef menn hefðu á annað borð svigrúm til þess að stunda þróunarstarf og bæta nýtingu hráefnisins þá væru möguleikarnir að vissu leyti meiri í frystihúsunum heldur en á frystitogurunum, meira svigrúm sögðu menn. En það byggðist að sjálfsögðu á því að menn gætu fylgst með vörunni frá upphafi til enda og tryggt alla þætti gæðastjórnunarinnar. Ég sé því ekki betur en að sú þáltill. sem hér til umræðu í dag gangi nokkuð þvert á hugmyndir þeirra sem ætla sér að leysa vanda landvinnslunnar með þróunarstarfi og gæðaeftirliti.

[17:00]

Hér hefur verið sagt að stöðugleikinn í fiskvinnslunni byggist á uppboðsmörkuðunum. Þetta er rangt. Uppboðsmarkaðir eru hluti af því sem tryggir stöðu fiskvinnslunnar og sjávarútvegsins í dag og er ágætur hluti af þessu starfsumhverfi. En það er ekki þar með sagt að menn eigi að einblína á fiskmarkaðina og segja: Við lögbjóðum uppboðsmarkað á fiski. Það verður að teljast raunar mjög sérstakt að menn þrengi þannig viðskiptaumhverfið. Ég hefði gjarnan viljað að menn veltu því fyrir sér hvar á öðrum sviðum viðskiptalífsins menn væru reiðubúnir til að ganga svona langt --- að lögbjóða uppboðsmarkaði. Það er nokkuð sérkennilegt. Það er kannski ekki hægt að segja að verið sé með þessum hætti að hafa viðskiptafrelsið í hávegum heldur þvert á móti er verið að takmarka viðskiptafrelsið. Þannig að það er afskaplega sérkennileg skoðun sem kom fram áðan að í því að lögbjóða mönnum að þeir geti ekki selt fisk öðruvísi en á uppboðsmarkaði felist ekki takmörkun á viðskiptafrelsi. Að sjálfsögðu er veruleg takmörkun á viðskiptafrelsi fólgin í því. Uppboðsmarkaðir á öllum stigum atvinnulífsins eru aðeins ein tegund af viðskiptum. Í tilfelli sjávarútvegsins hefur sú viðskiptategund komið sér mjög vel. Ég endurtek það hér að uppboðsmarkaðirnir gegna mjög mikilvægu hlutverki í íslenskum sjávarútvegi í dag og fiskvinnslu og eiga fullan rétt á sér og hafa orðið til góðs. Þar með er ekki sagt að menn eigi að útiloka aðra viðskiptahætti.

Hér hefur komið fram að sjómenn krefjist þessa. Það er rétt að sjómenn telja sínum hagsmunum vel borgið á fiskmörkuðunum. Ég er hins vegar ekki viss um að fiskvinnslufólk alls staðar á landinu sé mjög hrifið af þessum hugmyndum. Komum við þar að stöðu landvinnslunnar. Þessi sjónarmið hafa komið fram hjá landverkafólki en ekki alls staðar. Ég hef sjálfur rætt óformlega við forustumenn launþega í mínu kjördæmi og það er ljóst að þeir hafa nokkrar áhyggjur af þessum tillögum vegna þess að þeim finnst að þær tryggi ekki sérstaklega hagsmuni landverkafólks. Þar er það ekki síst sú þróun í gæðaeftirliti og eftirliti með vörunni frá upphafi til enda sem tryggir best stöðu landverkafólksins.

Þetta held ég að sé ástæða til að benda á í umræðunni --- að ekki er hægt að leggja þetta mál fram undir merki frjáls markaðar. Það er fullkominn misskilningur hjá hv. flm. ef þeir halda að svo sé. Það er verið að leggja þetta mál fram undir flaggi takmarkana á markaðsmálum.