Sala afla á fiskmörkuðum

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 17:03:33 (4126)

1997-03-03 17:03:33# 121. lþ. 82.12 fundur 202. mál: #A sala afla á fiskmörkuðum# þál., SighB
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[17:03]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegur forseti. Ég hef alltaf gaman af því þegar þingmenn Sjálfstfl. sem telja sig vera fylgjandi frjálsum markaðsbúskap koma hér upp á Alþingi til að mæla gegn honum. Það gera þeir í hverju málinu á fætur öðru og brjóta þannig sinn eigin boðskap meira en flestir aðrir menn gera. Ég hef gaman af því vegna þess að það voru nákvæmlega sömu rök og hv. þm., sem hér talaði áðan, færði gegn því að markaðurinn yrði látinn ákvarða fiskverð eins og á sínum tíma voru færð rök gegn því að löggjafinn afnæmi ákvæði um miðstýringu með aðild framkvæmdarvaldsins við fiskverðsákvörðun. Það voru nákvæmlega þessu sömu rök, herra forseti. Að ef það valdboð yrði afnumið, að ganga ætti frá fiskverðsákvörðun með tilstyrk opinbers oddamanns, þ.e. með opinberri miðstýringu, mundi það skapa skelfilega mismunun í sjávarútvegi. (Sjútvrh.: Hvers konar órétti?) Þetta voru rökin sem þá voru færð. (Sjútvrh.: Hverjir voru það?) Núna koma menn með tillögu um að markaðurinn verði látinn ráða verðinu í enn frekari mæli en gert hefur verið og þá eru enn sömu rökin um mismunun færð fram, þ.e. að verðákvörðun á markaði muni skapa óþolandi mismunun. Það eru formælendur Sjálfstfl. sem eru að skýra okkur frá því að markaðsverðsákvörðun muni skapa óþolandi mismunun. Ef svo er hlýtur náttúrlega sá frjálsi markaður sem er í dag að skapa óþolandi mismunun, eða hvað? Alla vega einhverja mismunun. Er þá ekki rétt að stíga skrefið til baka í það kerfi, herra forseti, sem enga mismunun skapaði? Kerfið þegar fulltrúi framkvæmdarvaldsins fór með oddaatkvæði í verðákvörðun á fiski. Það kerfi mun þá væntanlega ekki skapa neina mismunun vegna þess að þá gildir sama verðið fyrir alla. Er þá ekki sjálfsagt og eðlilegt að stíga skrefið til baka til þess jafnréttis allra fyrirtækja á sjó og á landi sem þá var viðhaft? (SvG: Og kalla oddamanninn heim.) Og kalla oddamanninn heim. Mann sem hefur góða og langa reynslu af því að skera úr um hvort fiskverð eigi að hækka eða lækka og svo sitja náttúrlega allir við sama borð því það er kosturinn, virðulegi forseti, þegar menn styðjast ekki við markaðsbúskap að þá er með miðstýrðum ákvörðunum hægt að tryggja að allir sitji við sama borð. Og það virðist vera það skelfilega í hugum þeirra sjálfstæðismanna ef ekki er hægt að tryggja slíkt. Þess vegna eru þeir á móti því að markaðurinn fái að ákvarða verð. Hafi verið knúið í gegn að hann fái að ákvarða verð að takmörkuðu leyti þá má hann alls ekki fá að ákvarða verð að öllu leyti því það er stórhættulegt. Ég hef alltaf gaman af því, virðulegur forseti, að hlusta á sjálfstæðismenn þegar þeir rökstyðja markaðshyggju sína.

Auðvitað er mismunur á milli landvinnslunnar og vinnslu um borð í fiskiskipum á hafi úti. Hver skyldi vera mesti mismunurinn á aðstöðu þeirra tveggja vinnslugreina eftir því hvort er á hafi úti eða í landi? Það er að sjálfsögðu launafyrirkomulagið sem viðhaft er við greiðslu verkalauna fyrir vinnu við að veiða fiskinn og verka hann vegna þess að það fyrirkomulag sem haft er um borð í vinnsluskipum er að þar fá menn greitt samkvæmt hlutaskiptareglum, ekki bara fyrir veiðarnar heldur fyrir vinnsluna líka, þ.e. þar eru launakjör viðkomandi starfsmanna tengd því verði sem þeir fá fyrir afurðirnar og launakjör sjómanna sem vinna fisk um borð eru ekki bara tengd fiskverðinu, ekki bara tengd verði á þeim fiski sem vinnslan um borð tekur síðan við heldur af skilaverðmætinu í heild. Þar er mismunurinn. Þannig að sjómennirnir um borð í frystiskipum fá laun í fullu samræmi við markaðsverðið á þeirri afurð sem þeir framleiða. Það fær landverkafólk hins vegar ekki. Ef ætti að tala um hið fullkomna jafnrétti í þessum efnum þá ættu menn að tala um að breyta annaðhvort kjörum landverkafólks til samræmis við það sem gerist um borð í frystiskipum eða að breyta kjörum þeirra sem afla vinna um borð í frystiskipum í hátt við það sem gerist í landi. Þar er mismununin. En ef það eru nokkrir aðilar sem að öllu leyti eru háðir markaðnum um afkomu sína --- að öllu leyti --- þá er það fólkið sem vinnur við veiðar og vinnslu afla á sjó.

Síðan spurði hv. þm. sem talaði hér síðast hvenær Alþingi hefði lögboðið markaðsviðskipti. Til dæmis þegar við afgreiddum hér hlutafélagavæðingu Pósts og síma. Það var gert á grundvelli þess að Alþingi hafði ákveðið og var raunar knúið til að ákveða það vegna áhrifa EES-samningsins að þarna skyldu verða frjáls markaðsviðskipti í sambandi við fjarskiptaþjónustu. Hv. þm. spyr: Hvenær hafa menn lögboðið uppboðsmarkað? Það hafa menn gert t.d. í lögum um fjarskipti þar sem ráðherra er veitt heimild til að bjóða út fjarskiptarásir með frjálsu útboði. (Gripið fram í: Þeir vita ekkert um ...) Það hafa menn líka gert í framkvæmdum á útboði á tollkvótum þar sem uppboðsviðskipti eru lögleidd. Þannig að ég spyr: Hvar hefur þessi hv. þm. verið? Við höfum verið að afgreiða hvert lagafrv. á fætur öðru á undanförnum missirum þar sem markaðsviðskipti eru lögleidd, beinlínis fyrirskipað í lögum að svo skuli vera. Ég bið hv. þm. að hugsa þá hugsun til enda hvort hv. þm. finnst það vera eðlileg viðskipti eða finnst honum það vera innherjaviðskipti ef einn aðili selur sjálfum sér afurð sem hann þarf að nota á lægra verði en aðrir þurfa að kaupa sambærilega afurð sem eru við hann í viðskiptum? Sumir mundu kalla það innherjaviðskipti og ekki telja það æskilegt. Enn óæskilegra er það, hv. þm., þegar laun fólks sem stundar framleiðsluna eru háð verðinu, eins og í þessu tilviki.

Um lögboð að ofan. Frjáls markaðsviðskipti með fisk voru lögboðin að ofan með því að afnema það lögboð að opinber verðákvörðun skyldi vera á fiski og markaðurinn (Forseti hringir.) skyldi opnaður í staðinn. Það voru fyrirmæli að ofan um að markaðsviðskiptin skyldu vera ríkjandi, (Forseti hringir.) sams konar lögmál eins og við höfum innleitt í stöðugt fleiri svið í íslensku efnahags- og viðskiptalífi og það er af hinu góða.