Sala afla á fiskmörkuðum

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 17:12:17 (4127)

1997-03-03 17:12:17# 121. lþ. 82.12 fundur 202. mál: #A sala afla á fiskmörkuðum# þál., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[17:12]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, sem hér talaði síðast, gekk nú ansi langt í útúrsnúningunum í sínum málflutningi. Í raun og veru virðist hann rugla saman frjálsu markaðskerfi og lögboðnu uppboðskerfi. Ég vænti þess að hv. þm. geri sér samt grein fyrir að talsverður munur er á þessu. Ef menn leiða í lög uppboðskerfi þá er verið að þrengja markaðsbúskap og markaðskerfi. Ég held að gott væri fyrir hv. þm. að reyna að gera sér grein fyrir hvernig það mundi þrengja viðskiptasviðið á ýmsum sviðum ef viðskipti, á hvaða sviði sem er, væru bönnuð nema þau færu fram á uppboðsmarkaði. Ég er hræddur um að það mundi hvína í mörgum helstu forvígismönnum frjálsra markaðsviðskipta ef svo væri gert. Frjáls markaðsviðskipti annars vegar og lögboðinn uppboðsmarkaður hins vegar eiga afskaplega lítið sameiginlegt. Það getur vel verið að hv. þm. vilji koma upp í ræðustólinn og slá sig til riddara og sem sérstakan varnarmann markaðsviðskipta með því að leggja til að uppboðsmarkaðir verði lögboðnir en ég er hræddur um að hann fái ekki marga til að veita sér medalíu fyrir þá framgöngu enda er bókstaflega ekkert samband þarna á milli.