Sala afla á fiskmörkuðum

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 17:14:06 (4128)

1997-03-03 17:14:06# 121. lþ. 82.12 fundur 202. mál: #A sala afla á fiskmörkuðum# þál., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[17:14]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég átta mig nú ekki alveg á röksemdafærslunni hjá hv. þm. því hér er verið að tala um að lögbinda það að frjáls markaðsviðskipti skuli fara fram á þeim markaði sem skapaður hefur verið fyrir slík viðskipti. Það er það sem verið er að gera. En þetta er bara alveg í samræmi við það sem áður hefur komið fram hjá formælendum þess flokks sem hv. þm. tilheyrir. Hann svaraði ekki spurningu minni þegar ég spurði hann hvort hann teldi þá ekki rétt, til að koma í veg fyrir að hin frjálsu markaðsviðskipti sköpuðu ójafnvægi milli aðila eins og hann gagnrýndi helst áðan, að snúa til baka til þess kerfis sem eitt getur tryggt að allir sitji við sama borð, sömu fiskverðsákvörðunar sem tekin er við sama borð á sömu stundu fyrir alla. Það er eina aðferðin til að gulltryggja að engin mismunun sé á milli aðila því að markaðurinn getur mismunað aðilum. Þar sem þetta vóg svo þungt í röksemdafærslu hv. þm., af hverju leggur hann þá ekki til að allri mismunun verði útrýmt með því að gamla kerfið um eitt verð fyrir alla verði tekið upp á ný?