Sala afla á fiskmörkuðum

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 17:18:32 (4131)

1997-03-03 17:18:32# 121. lþ. 82.12 fundur 202. mál: #A sala afla á fiskmörkuðum# þál., JBH
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[17:18]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það var fróðlegt að heyra þessar umræður. En það þarf býsna ófyrirleitna þrætubókarlist til að reyna að gagnrýna þessa einföldu tillögu um markaðsviðskipti með fisk á þeim forsendum að það feli í sér mismunun og miðstýringaráráttu. Er það kannski svo að engin mismunun sé í því kerfi sem við búum við? Sitja útgerðarmenn allir við sama borð? Sitja sjómenn við sama borð? Situr fiskvinnslan við sama borð? Gilda almennar reglur þar sem menn sitja við sama borð eins og á að gilda, og það er þá alla vega grundvallaratriðið, um markaðsviðskipti? Um leið og spurninganna er spurt vita menn að svo er ekki. Það er kjarni þess fiskveiðistjórnarkerfis sem við höfum, þ.e. úthlutun veiðiheimilda ókeypis með framsali, að útgerðaraðilar sitja ekki við sama borð. Sumir fá þessar veiðiheimildir ókeypis og nýta þær, aðrir fá þær en nýta þær ekki. Þeir ýmist leigja innan árs eða selja en alla vega er það svo að sá aðili sem kemur nýr að útgerð situr ekki við sama borð. Hann verður að kaupa sig inn í greinina og honum er þess vegna mismunað í samanburði við þá sem fyrir eru. Sjómennirnir búa við hlutaskiptakerfi og hafa kjarasamninga um að útgerðaraðilum sé skylt að leita hæsta verðs fyrir fiskinn. Sitja þeir við sama borð? Nei, að sjálfsögðu ekki. Nú eru menn ekki að tala um einyrkja sem róa einir á bát og með eigin útgerð, eins og ein útúrsnúningatilraunin var. Þeir sitja ekki við sama borð vegna þess að eitt megindeilumálið í þjóðfélaginu í dag, og búið að reyna á það í alvarlegum verkföllum, er að reyna að koma með frjálsum samningum upp samstarfsnefndum eða úrskurðarnefndum milli útgerðaraðila og sjómanna til að koma í veg fyrir að einmitt framsalskerfið leiði til þess að sjómönnum sé mismunað að því er varðar hlutaskiptakerfið. Sumir eru, þó það sé lögbrot, þvingaðir til þátttöku í kaupum á kvótum en aðrir sleppa við það. Þannig er mönnum mismunað. Ein afleiðingin af þessu kerfi er hins vegar sú að kvótabraskið sem er að sumu leyti kveikja þessarar tillögu, veldur því m.a. af því að það fer auðvitað inn í fiskverðið, að aðfangaverð fiskvinnslunnar í landinu er hærra en það ella væri og bitnar þar af leiðandi á kjörum fiskvinnslufólks. Við búum með öðrum orðum við kerfi þar sem fólki er mismunað í bak og fyrir.

Þessi tillaga er afar einföld og auðvitað er hægt að reyna að gera hana hlægilega með einhverjum útúrsnúningum t.d. hvað eigi að gera við trillukarla sem vilja hengja upp eða segja: ja, þetta er náttúrlega ekki tillaga um almennar reglur vegna þess að frystitogarar sem selja sínar afurðir beint á erlendum mörkuðum og sæta þar lögmálum markaðskerfisins, sem þeir búa við þar, eru ekki með. Það er hægt að gagnrýna þetta fyrir að vera þáltill. en ekki lagafrv. sem er svona ámóta gáfulegt og að gagnrýna sagnfræðirit fyrir að vera ekki skáldsaga.

Kjarni málsins er hins vegar mjög einfaldur og hann er þessi: Hér er lagt til að almennar reglur verði settar um viðskipti innan lands með fisk og að þær reglur verði markaðsviðskipti og horfið verði frá þeirri mismunun sem blasir við öllum aðilum sem að þessu koma á hverju þrepi og stigi. Það verði ein almenn regla. Það verði horfið frá mismunun og allir sitji við sama borð sem að þessum viðskiptum koma. Þá bregður svo við að þeir sem í orði kveðnu teljast vera helstu talsmenn markaðskerfis koma og finna þessu allt til foráttu sem þeir mögulega geta og telja þetta vera takmörkun á almennum viðskiptareglum, telja þetta vera miðstýringu og mismunum. Þeir beita með öðrum orðum þrætubókarlist og þeirri ófyrirleitni að snúa þessu alveg gjörsamlega öfugt. Snúa þessu öllu á haus.

Hverjir eru kostirnir við fiskmarkaði? Fyrst og fremst þeir að allir sitja við sama borð. Eftir því sem framboðið væri meira á fiskmarkaði væri verðið í meira jafnvægi sem hefur líka ákveðna kosti. Menn óttast gæðastjórnun og vöruþróun, segja þeir. Menn hafa þá ekki mikla trú á áhrifamætti markaðsviðskipta ef sú staðreynd að menn eru reiðubúnir að greiða hærra verð fyrir meiri gæði, betri afurð, mundi ekki að lokum skila sér í gegnum þann aga sem verðmyndun í markaðskerfi þýðir. Fyrir utan það að því er varðar vöruþróun að fiskmarkaðir eru auðvitað sérstaklega vel til þess fallnir að gefa fiskvinnslunni í landi kost á því að sérhæfa sig, að nýta betur bæði mannskap, tæki og hráefni, sérhæfa sig í hinni endanlegu vöru og standa betur að vöruþróun en ella er hægt.

Ég get alveg gert ráð fyrir því að hægt sé við nánari skoðun að segja að einhverjir annmarkar væru á þessu í framkvæmdinni en þeir eru þá aðrir en hér hafa komi fram í umræðunum. Og af því að menn hafa verið að spyrja hvenær löggjafarvaldið hafi beitt sér fyrir því að knýja menn til að lúta almennum reglum á markaði. Ja, frá því að sú ríkjandi heimspeki og stjórnunarspeki sem hefur nú verið ráðandi lengst af á þessari öld hjá forustumönnum Sjálfstfl. og Framsfl., sem er yfirleitt um ríkisforsjá og ríkisíhlutun, frá því að hún hefur orðið að láta undan síga á seinni árum hefur þó Alþingi Íslendinga verið að setja slíka löggjöf í hverju stórmálinu á fætur öðru. Mér er náttúrlega afskaplega ofarlega í minni að sú kenning var ráðandi hjá forustu Sjálfstfl. áratugum saman að frjáls verslun væri ágæt í innflutningi en gjörsamlega þjóðhættuleg í útflutningi. Það mál snerist um einkaleyfi Sambands ísl. fiskframleiðenda, þ.e. SÍF, á saltfiskmörkuðunum. Það tókst þrátt fyrir allt með miklum erfiðismunum en með akkúrat sams konar útúrsnúningum og íhaldssjónarmiðum sem hér hafa verið rakin. Það tókst að lokum að vinna bug á þeim og koma á almennu viðskiptafrelsi í útflutningi á saltfiski. Allar hrakspárnar urðu mönnum til skammar. Það kom á daginn að þetta var að sjálfsögðu mjög hagkvæmt fyrir útflytjendur ekki síður en innflytjendur og leiddi til bættrar afkomu þeirra og bættrar stöðu okkar á mörkuðunum.

Annað dæmi: Alþingi Íslendinga hefur sett almennar reglur um fjármagnsmarkaði. Hverjir væru viðskiptavakar á fjármagnsmarkaði og hvaða almennu reglur giltu um það. Hann er að vísu vanþróaður enn en samt sem áður var það löggjafinn sem setti almennar reglur um það, leikreglur til að reyna að tryggja að menn sætu við sama borð. Það er nákvæmlega það sem þessi tillaga snýst um. Ef það er svo að menn hafa svona mikla vantrú á því að almennar viðskiptareglur og almenn markaðslögmál leiði til hagkvæmustu niðurstöðu, þá eiga menn að segja það bara fullum fetum en ekki að vera með málamyndavífilengjur og útúrsnúninga sem sneiða algjörlega hjá kjarna málsins.