Sala afla á fiskmörkuðum

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 17:26:36 (4132)

1997-03-03 17:26:36# 121. lþ. 82.12 fundur 202. mál: #A sala afla á fiskmörkuðum# þál., JGS
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[17:26]

Jóhannes Geir Sigurgeirsson:

Virðulegur forseti. Eftir því sem ég hef fylgst með umræðunni ber hún nokkurn keim af þeirri umræðu sem er í þjóðfélaginu um sjávarútvegsmál í dag sem mér finnst að sé meira og minna á röngum forsendum. Það kom berlega í ljós hjá síðasta ræðumanni sem um leið var kominn í umræðu um fiskveiðistjórnarkerfið sem í grundvallaratriðum byggir á því að við erum með takmarkaða auðlind og verðum að takmarka aðgang að henni. Það er eins og það sé allt í einu orðið aðalatriðið. Það er dálítið gaman að heyra það frá þingmönnum sem í öðru orðinu tala eins og þeir séu hinir einu og sjálfskipuðu sérfræðingar í markaðsmálum. Ég er sammála að það sem skiptir máli fyrir íslenskan sjávarútveg eru númer eitt markaðsmál. Það er aðgangur að markaði, ekki innlendum fiskmarkaði, heldur erlendum neytendamarkaði fyrir vöruna sem við erum að framleiða. Númer tvö er aðgangur að tækniþekkingu til að geta unnið þessa vöru og komið henni á markað og verið fullkomlega samkeppnishæf við það besta sem gerist annars staðar í því. Númer þrjú er kannski til að geta fullnægt þessu aðgangur að fjármagni. Sá aðili sem getur fullnægt þessum skilyrðum, haft aðgang að erlendum neytendamarkaði fyrir vörurnar, átt aðgang að þeirri tækni sem þarf til að koma vörunni á framfæri og aðgang að því fjármagni sem þarf til að gera þetta hvort tveggja, getur gert hvað sem hann vill í sjávarútvegi alveg burt séð frá því hvaða kerfi er í gangi á hverjum tíma til að stjórna aðgenginu að auðlindinni. Hann hefur einfaldlega yfirburðarstöðu.

Virðulegur forseti. Þó það sé kannski aðeins út fyrir umræðuefni þessarar tillögu þá tekur nú alveg steininn úr þegar sömu markaðssinnar í orði fara að tala um að nýjar leiðir vanti til að koma arðinum í sjávarútvegi út til fólksins og eru búnir að finna þá leið í gegnum ríkiskassann, samanber umræðuna um að taka hugsanlega allt að 30 milljarða af 100 milljarða veltu sjávarútvegsins og velta þeim í gegnum ríkiskassann. Svo koma þessir sömu aðilar hér og berja sér á brjóst og segjast vera talsmenn hins eina sanna einkaframtaks og markaðsmála en sem eru kannski þeir einu sem enn eru að tala fyrir hreinum og ómenguðum sósíalisma í okkar þjóðfélagi. (SvanJ: Þú gleymir ritstjóra Morgunblaðsins. ... hann í þessu samhengi.) Já, virðulegur forseti, ég er greinilega ekki ritstjóri Morgunblaðsins í þessu samhengi.

[17:30]

Ég var á ráðstefnu um sjávarútvegsmál sem Stafnbúi, þ.e. nemendur í sjávarútvegsdeild Háskólans á Akureyri, hélt um síðustu helgi norður á Akureyri. Þar kom fram fulltrúi fiskvinnslunnar, ekki fyrirtækjanna heldur fiskverkafólksins, fiskverkakona ofan af Akranesi. (Gripið fram í: Þessi fræga?) Já, þessi fræga, en ég held að það hefði verið hollt fyrir frammíkallanda að hlusta á rök hennar. Hún sagði einfaldlega að fiskverkafólkið væri á móti kröfunni um allan fisk á markað vegna þess, sagði hún, ,,... við viljum ekki þurfa að taka 5% umsýslugjald ofan á allan aflann sem auðvitað bætist ofan á hráefnisverðið fyrir vinnsluna``. En að sjálfsögðu er ég ekki að tala á móti fiskmörkuðum. Fiskmarkaðir eru komnir til að vera og þar hlýtur að fara í gegn verulegur hluti af aflanum.

En hins vegar, virðulegi forseti, svo ég komi aftur að markaðsmálunum, íslenskur sjávarúvegur og sjávarútvegsfyrirtæki eru orðin mjög vel meðvituð um að þau verða að vinna að markaðsmálum og þau verða að komast í beina tengingu við hinn erlenda neytendamarkað. Sá markaður er kröfuharður. Hann gerir kröfur um mikil gæði og til þess að uppfylla þær þá verða fiskvinnslufyrirtækin að geta haft með gæðastjórnun að gera á öllum ferlinum. Allt frá vinnslu og til hins endanlega neytendamarkaðar. Og ég sé ekki hvað það bætir okkur ef það á að lögskipa það að bætt verði einum millilið við allt kerfið sem eðli sínu samkvæmt kostar eitthvað, sem er að taka 5% fyrir þá umsýslu. Það kerfi sem er í dag kemur á engan hátt í veg fyrir sérhæfingu. Það kemur á engan hátt í veg fyrir að stærri fyrirtæki sem stunda bæði útgerð og vinnslu setji hluta af sínum afla á markað. Og þau gera það. Þau setja þann afla sem ekki passar inn í vinnslumunstur þeirra á markað og þess njóta þá þeir sem eru sérhæfðir á því sviði. Þannig að það er ekkert nýtt að slíkt gerist. Menn eru ekki að gera neinar byltingar á því sviði með þeirri tillögu sem hér liggur frammi. Fiskmarkaðir eru staðreynd.

Það er líka staðreynd að hluti fyrirtækja hefur kosið að ráða bæði yfir veiðunum og vinnslunni en varðandi kjör sjómanna í slíkum fyrirtækjum þá er samið um þau sérstaklega og m.a. tekið mið af þeim hluta sams konar afla sem tekur verð á markaði. Þannig að það er ekki rétt að það sé slitið úr samhengi við laun sjómanna í slíkum tilfellum. Slíkir samningar eru í gangi, a.m.k. í þeim fyrirtækjum sem ég þekki sem stunda bæði veiðar og vinnslu. Það eina rétta í þessu er því að láta markaði ráða. Láta markaðinn ráða hvort aflinn fer á hverjum tíma í gegnum fiskmarkaðina eða hvort hinn endanlegi erlendi markaður gefur okkur best verð með því að hann fari í gegnum fyrirtæki sem stunda bæði veiðar og vinnslu. Mér fyndist það svo ég noti nú, virðulegi forseti, þekktan frasa, ,,alveg arfavitlaust`` að fara að banna með lögum að sama fyrirtækið geti stundað bæði veiðar og vinnslu án afskipta þriðja aðila, milliliðs, sem tæki einhverja prósentu af hinni endanlegu afkomu, sem kæmi væntanlega bæði niður á sjómönnum og landverkafólki.