Sala afla á fiskmörkuðum

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 17:34:52 (4133)

1997-03-03 17:34:52# 121. lþ. 82.12 fundur 202. mál: #A sala afla á fiskmörkuðum# þál., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[17:34]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Það er stutt andsvar. Ég get afar vel skilið það að menn sem eiga hagsmuna að gæta sem stjórnarformenn í fyrirtækjum telji óbreytt kerfi hagsmunum fyrirtækis síns hugsanlega í hag. Það getur vel verið að út frá því sjónarmiði telji menn þetta hagkvæmt. En ef hv. þm. meinar eitthvað með kjörorði sínu ,,látum markaðinn ráða`` þá erum við alveg hjartanlega sammála. Það er nákvæmlega það sem þessi tillaga fjallar um. Hún er um það að láta markaðinn ráða þannig að allir sitji við sama borð og við látum af þeirri mismunum sem við finnum víða í kerfinu núna og ég færði rök fyrir áðan.

Að því er varðar þá athugasemd hans að hann telji það svona í hugmyndafræðiumræðunni einhvern vísi að sósíalisma eða ríkisrekstri --- hugmyndir manna um veiðileyfagjald --- þá er því einu til að svara: Það er nú einu sinni svo að það er ríkisvaldið og löggjafinn sem hefur takmarkað aðgang manna að auðlindinni og þannig tryggt að veiðiheimildirnar eru orðnar að fémæti og þær ganga kaupum og sölum og þær eru leigðar eins og hv. þm. veit. Og það þýðir að þetta veiðigjald er komið á en það eina sem er að er það að fulltrúar almannavaldsins í landinu, almenningur í landinu, sem er lögformlegur eigandi auðlindarinnar, fær ekkert fyrir sinn snúð.