Sala afla á fiskmörkuðum

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 17:39:47 (4137)

1997-03-03 17:39:47# 121. lþ. 82.12 fundur 202. mál: #A sala afla á fiskmörkuðum# þál., Flm. SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[17:39]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að koma hér upp og víkja að því hvað fiskverkafólk hefur haft um þessi mál að segja fyrst hv. síðasti ræðumaður taldi ástæðu til þess að vitna í eina fiskvinnslukonu. Ég er hér með fyrir framan mig ályktanir Alþýðusambands Austurlands frá nóvember síðastliðnum þar sem þess er krafist að allur afli sem seldur er til vinnslu innan lands verði seldur um fiskmarkað. Þarna talar verkafólk eða hvað? Þarna talar sú forusta sem það hefur treyst fyrir sínum málum. Ég er líka með ályktun frá Alþýðusambandi Vestfjarða frá nóvember síðastliðnum. En þar stendur, með leyfi forseta: ,,Stefnt skal að því að allur afli fari á markað þannig að komið verði í veg fyrir kvótabrask og fiskvinnslan í landi hafi greiðari aðgang að hráefninu.`` Hér sýnist mér að verkafólk hafi talað þannig að óyggjandi sé. Síðan vildi ég segja, herra forseti, vegna umræðunnar um ,,ef markaðurinn er svo hagkvæmur o.s.frv. ... mun þetta þá ekki allt gerast af sjálfu sér``, að ég varpaði fram þeirri spurningu hér áðan af hverju útgerðarmenn og sjómenn ættu ekki samleið í því að reyna að fá sem hæst verð fyrir þann afla sem komið er með að landi. Ég spurði hvort það gæti verið rétt hjá sjómönnum sem þeir halda fram að sú hagkvæmni sem orðin er í útgerð sé e.t.v. fyrst og fremst þannig til komin að þeir hafi getað braskað með kvóta og látið sjómenn greiða svo og svo mikið af þeim hagnaði --- allan, vilja þeir nú segja. Skyldi ekki svarið við spurningu hv. þm. liggja einhvers staðar þarna? Útgerðarmenn virðast hafa aðra hagsmuni í þessu máli og það væri þá gott ef þeir gætu verið ræddir.