Sala afla á fiskmörkuðum

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 17:46:18 (4140)

1997-03-03 17:46:18# 121. lþ. 82.12 fundur 202. mál: #A sala afla á fiskmörkuðum# þál., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[17:46]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Þessi umræða hefur verið um margt athygli verð. Að mínu mati byggir hún á eða hefur að stórum hluta byggst á því gamla viðhorfi að greina sjávarútveginn upp, annars vegar í veiðar og hins vegar í vinnslu. Frá mínum bæjardyrum séð er það úrelt og gamalt sjónarmið. Við eigum að líta á sjávarútveginn sem eina heild. Hann er sjávarútvegur og við eigum að reyna að setja þær almennu reglur sem þjóna atvinnugreininni í heild en ekki að byggja alltaf allar úrlausnir á þessari gömlu, úreltu tvískiptingu milli veiða og vinnslu.

Það er síðan athygli vert að í þessari tillögu er ekki verið að leggja til að allur afli af Íslandsmiðum sé seldur á markaði. Það á að selja stóran hluta en ekki allan afla á markaði. Með öðrum orðum, það er skýrt tekið fram af hálfu flutningsmanna að afla frystitogara og fullvinnsluskipa eigi ekki að selja á markaði. Þeir selja aflann til útlanda eins og hv. 9. þm. Reykv. sagði hér áðan. Og af því að þeir gera beina samninga án þess að nokkur uppboðsmarkaður sé þar í milli, þeir gera beina samninga í flestum tilvikum við fyrirtæki í útlöndum, þá heitir það fullkominn markaður. En ef sama fyrirtæki selur fisk í beinum samningum hér innan lands, þá er það einhver gamaldags íhaldsaðferð, eins og þeir orðuðu það, við að selja fisk. En ef það er selt til erlendra fyrirtækja með sama hætti þá er það markaður.

Hv. flm. komast ekki hjá því að tillagan felur í sér að það á að selja suman fisk á markaði en ekki allan. Í sumum tilvikum viðurkenna þeir að bein viðskipti, beinir samningar, séu bara eðlileg markaðsstarfsemi og ekkert annað, hluti af markaðskerfinu. Það sem ég fæ ekki skilið er hvers vegna þeir viðurkenna það ekki í öllum tilvikum, hvers vegna það er bara í viðskiptum við útlend fyrirtæki sem þeir viðurkenna beina samninga sem hluta af markaðskerfinu en ekki í viðskiptum hér innan lands. Á öllum öðrum sviðum í viðskiptum eru beinir samningar hluti af markaðskerfi. Flutningsmönnum þessa máls hefur aldrei dottið í hug að leggja til að kex skuli selt á uppboðsmarkaði, að mjólk skuli seld á uppboðsmarkaði eða öll málverk skuli seld á uppboði. Uppboð getur verið ágætt og sjálfsagt hentað bæði í kexsölu og öðru. En það hefur engum dottið í hug að segja að það skuli gerast á uppboði vegna þess að það eru fleiri leiðir til þess að láta markaði vinna. Það er einmitt það sem við þurfum að hafa í huga í sjávarútveginum að við megum ekki stíga þau skref að minni hyggju að takmarka þá möguleika sem markaðurinn býður upp á. Uppboð á fiski er ein leið til þess að láta markaðsöflin virka á þessu sviði en frjálsir samningar eru líka ein leið til þess. Og í þeim tilvikum þar sem útgerð og vinnsla er á sömu hendi fara þeir samningar fram að því er sjómennina varðar á þann veg að það er gerður formlegur samningur á milli útvegsmannsins eða fiskkaupandans og sjómanna, þannig að þar er það engan veginn á þann veg að það sé einhliða ákvörðun útgerðaraðilans.

Þess vegna komast flutningsmenn ekki hjá því að tillagan felur að þessu leyti í sér tvenns konar mismunun, að öðru leyti að það er bara hluti af fiskinum sem á að selja á markaði en ekki allur fiskurinn og að hinu leytinu að það er verið að takmarka þá möguleika sem markaðskerfið býður upp á í því hvernig vara er seld.

Sjávarútvegurinn á Íslandi hefur verið að ganga í gegnum miklar breytingar og á eftir að gera á næstu árum. Það er enginn vafi á að stærstu vaxtarmöguleikarnir í sjávarútvegi felast m.a. í því að auka vöruþróun og markaðsstarfsemi. Það eru margir aðilar í sjávarútveginum sem telja að þeir muni ná mestum árangri með því að geta unnið afla af eigin skipum, skipulagt veiðarnar með tilliti til hagsmuna vinnslunnar og hagað vinnslunni með tilliti til kröfu markaðarins. Ef atvinnugreinin sjálf telur að hún geti best náð árangri með slíku skipulagi, hvers vegna á að banna það, þegar allar aðrar aðferðir eru opnar um leið? Fiskmarkaður er góð aðferð, en það er ekki endilega víst að hún þjóni hagsmunum allra. Hvers vegna mega ekki þeir sem telja sig ná meiri árangri og meiri verðmætasköpun með heildarskipulagningu af þessu tagi, stunda sína atvinnustarfsemi á þann veg? Hvers vegna á að takmarka hana? Fyrir því vantar öll rök. Flutningsmenn hafa ekki fært nein rök fyrir því að þetta eigi að gilda á öðrum sviðum atvinnulífsins, á öðrum sviðum iðnaðar eða viðskiptalífs, að takmarka eigi möguleika atvinnufyrirtækja að velja þær leiðir sem markaðskerfið býður upp á. Og ég held að það væri mjög varasamt fyrir okkur að stíga slíkt skref í dag vegna þess að við eigum mjög mikið undir því að fyrirtækin í sjávarútveginum sýni frumkvæði og nýti alla þessa möguleika og þá megum við ekki sem löggjafarvald takmarka möguleika þeirra. Ef þeir kjósa að fara með þetta á fiskmarkaði eins og þeir gera í stórum stíl, þá er það ágætt. Ef þeir kjósa að gera það í beinum samningum og ná árangri þannig, þá er það líka gott. Það er bara hluti af markaðskerfinu og væri óeðlilegt að löggjafarsamkoman setti þar á takmarkanir. Þess vegna held ég að tillaga þessi sé varasöm, hún geti í raun heft framþróun og takmarki um of þá möguleika sem frjálst markaðskerfi býður upp á. Hitt er svo allt annað mál, sá vandi sem hefur verið fyrir hendi vegna þess að í einhverjum tilvikum hafa sjómenn verið látnir taka þátt í kvótakaupum. Við þurfum að taka á þeim vanda. Þar er um að ræða brot á lögum og brot á kjarasamningum og við þurfum að finna lausn á því, en við gerum það ekki með því að takmarka möguleika markaðarins til þess að vinna og skerða þá markaðsmöguleika sem atvinnufyrirtækin hafa.