Sala afla á fiskmörkuðum

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 18:05:23 (4147)

1997-03-03 18:05:23# 121. lþ. 82.12 fundur 202. mál: #A sala afla á fiskmörkuðum# þál., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[18:05]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Það gleður mitt gamla hjarta að hæstv. ráðherra rengir ekki góðan hug flutningsmanna. Sannleikurinn er sá að við erum alltaf að reyna að hjálpa honum út úr hvers kyns vandræðum á vandasamri vegferð hans við að stjórna þessari atvinnugrein sem er nú ekki heiglum hent. Við gerum það ekki bara með því að minna hann á að innherjaviðskipti eru ekki markaðsviðskipti. Við erum ekki að flytja tillögu um að takmarka markaðsviðskipti, við erum að flytja tillögu um að taka upp almennar reglur um markaðsviðskipti og binda endi á innherjaviðskipti og binda endi á ójafna samningsstöðu aðila þar sem annars vegar eru útgerðarmenn og hins vegar sjómenn.

Þar að auki erum við að flytja tillögu --- af því að, virðulegi forseti, talað var um það áðan að ræða ætti þetta allt í einu --- um að afnema mismunun í sjávarútveginum gagnvart framsalinu með því að sjálfsögðu að taka upp veiðileyfagjald. Við erum að flytja tillögur um að setja almennar reglur sem væru framkvæmanlegar varðandi brottkast fisks og sérstaklega undirmáls og við erum að flytja tillögur um nokkra takmörkun á framsali. Þessar tillögur allar í heild sinni hafa í raun eitt meginmarkmið: Það er að skapa starfsfrið í þessari grein, reyna að skapa sátt milli þeirra aðila sem helst togast á í hagsmunaárekstrum innan kerfisins án þess þó að ganga á snið við yfirlýst markmið um hagkvæmni greinarinnar sem við gerum okkur ljóst að við þurfum að halda til streitu vegna mikilvægis hennar í íslenskum þjóðarbúskap.

Virðulegi forseti. Það er dálítið erfitt að vera að flytja allar þessar tillögur til þess að hjálpa hæstv. ráðherra ef hann ekki grípur tækifærið til að þakka fyrir sig og taka undir þær og aðstoða við að koma þeim fram. En að sjálfsögðu metum við mikils góð orð hans um að þetta sé flutt af góðum hug.