Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 19:00:19 (4154)

1997-03-03 19:00:19# 121. lþ. 82.13 fundur 219. mál: #A stjórn fiskveiða# (kvótaleiga) frv., 263. mál: #A stjórn fiskveiða# (undirmálsfiskur) frv., 341. mál: #A Stjórn fiskveiða# (veiðiskylda) frv., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[19:00]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég skildi hæstv. ráðherra þannig varðandi fyrra frv., um hækkun á hlutfalli, að það væri álitaefni hvort ekki væri rétt að fara einhverja þessa leið. Hann gat réttilega um að hann hefði sjálfur rætt um að þetta væri þáttur sem yrði að reyna að skoða í núverandi kerfi.

Það að geyma kvóta, sá ágalli á löggjöfinni sem ég gerði að umtalsefni og ráðherra tók undir, held ég að sé einmitt mál sem yrði að skoða vandlega í sjútvn. og hvernig menn kæmu í veg fyrir það. Hægt væri að hugsa sér að setja aftur í lög þá gömlu reglu að ekki mætti taka til skips meira heldur en það gæti veitt. Það var í lögum og stundum er talað um að setja hana í lög aftur. Menn hafa líka séð á því annmarka. Þá voru menn að reyna að koma í veg fyrir að svona hlutir gætu gerst, að verið væri að geyma kvóta. Kannski er ekki erfitt að komast hjá því heldur er þetta bara þáttur sem þarf að skoða betur. En ég held alla vega að í þessu frv., og mér finnst það á undirtektum, sé þó aðferðafræði sem vel er hægt að framkvæma og ég þakka undirtektir undir það mál.

Varðandi undirmálsfiskinn sem hér var líka gerður að umtalsefni og ráðherra tók undir að nokkru leyti þá tel ég hins vegar að það þurfi ekki að vera þannig að það sé hvati að veiða undirmál. Það er reynt einmitt að setja þetta þannig upp að það sé fyrst og fremst verið að koma í veg fyrir að undirmáli sé hent, ekki að það sé veitt. Það þarf þá bara að skoða hvaða prósentur menn setja inn. Hér er gert ráð fyrir 10%.

Ég lít þannig á að undirmáls- og brottkastsumræða eigi að vera fyrst og fremst þannig að við eigum að finna öll þau verkfæri sem tiltæk eru. Smáfiskaskilja er eitt verkfæri. Lokun smáfiskasvæða sem hæstv. ráðherra nefndi er annað og ég tek mjög undir það því að ég veit að lokun smáfiskasvæða hefur reynst mjög vel. Ég lít svo á að þetta frv. mundi líka hjálpa til að koma í veg fyrir brottkast á fiski. Ég tel þannig, herra forseti, að við þurfum að beita öllum tiltækum ráðum og sú tækniþróun sem er í gangi hjálpar okkur líka við þetta. Þetta er efni sem menn þurfa ekki að skiptast í einhverjar pólitískar fylkingar út af heldur reyna einfaldlega að finna lausn sem er framkvæmanleg og horfir til framtíðar.