Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 19:03:06 (4155)

1997-03-03 19:03:06# 121. lþ. 82.13 fundur 219. mál: #A stjórn fiskveiða# (kvótaleiga) frv., 263. mál: #A stjórn fiskveiða# (undirmálsfiskur) frv., 341. mál: #A Stjórn fiskveiða# (veiðiskylda) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[19:03]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég vil gjarnan blanda mér í þessa umræðu fyrst og fremst um það frv. sem hér lýtur að undirmáli og brottkasti. Ég hjó eftir því þegar hæstv. ráðherra tók til máls hér áðan að hann vék að nefnd um umgengni um auðlindir sjávar held ég að hún hafi heitið einhvern tíma. Hún væri að fjalla um þessi mál og mér var það reyndar kunnugt, en ráðherra talaði rétt eins og nefndin væri um það bil að skila okkur einhverjum niðurstöðum, þ.e. innan skamms mættum við vænta þess að fyrir lægju tillögur um hvernig yrði tekið á þessum vanda.

Það væri mjög gott í þessari umræðu ef það væri mögulegt að ráðherrann reifaði örlítið betur innihald þeirra reglna sem þarna eru að fæðast. T.d. væri fróðlegt að vita hvort þarna er einungis tekið á undirmáli eða hvort tekið er einnig á aukfiski, hvort allur sá afli sem getur orðið frákast er þarna undir.

Ég er alveg sammála því mati sem hér hefur komið fram að það getur verið vandrataður meðalvegurinn í þessum efnum. Við viljum ekki setja upp kerfi sem virkar sem hvati á menn að veiða þær tegundir sem ekki falla innan eðlilegra veiðiheimilda skips, en í leiðinni viljum við tryggja að komið verði með allan mögulegan, nýtanlegan afla að landi. Hvar finnum við svo þennan meðalveg?

Fyrir nokkrum árum síðan flutti ég sem varaþm. hér á Alþingi tillögu sem var í þá veru að sjómennirnir ættu að eiga allan aukfisk sem kæmi um borð. Þetta fannst mér á þeim tíma mikill galdur og mundi þá virka þannig að sjómennirnir mundu leggja á sig að ganga vel frá þessum afla. Hann yrði síðan seldur á markaði þegar komið yrði með hann að landi. Útgerðin fengi hins vegar ekki neitt, enda væri það þá til þess að stuða skipstjórann og koma í veg fyrir að hann væri að renna sér yfir smáfiskasvæðið til þess að bjarga hlut útgerðarinnar. Síðan ætlaði ég að treysta á aðhald fjölmiðla hvað það varðaði að menn færu ekki að koma með óhæfilega mikið af smáfiski í land og átti hvort tveggja, andstyggð útgerðarinnar á því að sjómenn væru að vinna afla sem útgerðin fengi enga hlutdeild í og aðhald fjölmiðla vegna þess hversu mikil skömm væri að því að koma með smáfisk að landi, að koma í veg fyrir að menn freistuðust til þess að veiða smáfisk umfram það sem menn oft og tíðum komast ekki hjá að gera.

Við að velta þessu fyrir mér á þeim tíma þóttist ég sjá að þetta mál er langt frá því að vera einfalt. Ég geri svo sem ráð fyrir að þó að nefndin góða sé að koma með tillögur, þá munum við halda áfram að leita leiða til þess að þessir hlutir geti verið í sem bestum farvegi hjá okkur. En ég held að það sé mjög nauðsynlegt að við séum á öllum tímum tilbúin til þess að ræða allar þær leiðir sem hugsanlegar kunna að vera til þess að allur nýtanlegur afli komi að landi og geti orðið hráefni fyrir íslenska fiskvinnslu vegna þess að þó að okkur finnist slæmt að verið sé að veiða smáfisk, þá getur samt verið fyrir hann markaður í fiskvinnslunni og áframhaldandi jafnvel mikilvægur eða dýr markaður í útlöndum. Það er mjög mikilvægt að við reynum að ná einhverju landi í þessum málum. Ég held að það fyrirkomulag sem við búum við núna sé alveg óþolandi. Því ég endurtek spurningu mína til ráðherrans hvort hann getur sagt okkur nokkuð frekar af niðurstöðu þessarar nefndar eða þeim niðurstöðum sem þar eru að fæðast og hvort þar verður þá bæði tekið á undirmáli og öðrum svokölluðum aukfiski.