1997-03-04 13:43:19# 121. lþ. 83.95 fundur 229#B stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og breytingar á eignaraðild að henni# (umræður utan dagskrár), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur

[13:43]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Afstaða ríkisstjórnarinnar til stækkunar járnblendifélagsins hefur legið fyrir í mjög langan tíma. Það hefur verið eindreginn vilji ríkisstjórnarinnar að í þessa framkvæmd yrði ráðist og það byggjum við á eftirfarandi:

1. Það mun bæta afkomu fyrirtækisins mjög og tryggja stöðu fyrirtækisins til lengri tíma litið.

2. Það mun treysta samkeppnisstöðu fyrirtækisins.

3. Það mun tryggja atvinnuöryggi þess starfsfólks sem nú er starfandi hjá fyrirtækinu.

4. Það mun auka útflutningsverðmæti fyrirtækisins og útflutningsverðmæti þjóðarbúsins í heild og leggja þannig grunn að efnahagslegum framförum í landinu.

5. Störfum mun fjölga og það mun draga úr atvinnuleysi. Þetta eru þau markmið sem ríkisstjórnin hefur sett sér í atvinnumálum.

Afstaða Sumitomo og Elkem hefur líka legið fyrir í nokkuð langan tíma. Elkem hefur lagt höfuðáherslu á að eignast meiri hluta í fyrirtækinu og á mjög lágu verði. Sumitomo hefur hins vegar sett það sem algera forsendu fyrir því að þeir væru tilbúnir til að taka þátt í þessum breytingum að gerð yrði breyting á þeim markaðssamningi sem Sumitomo hefur við fyrirtækið. Til að reyna að fá mat á því hvers virði fyrirtæki væri leituðum við bæði til innlendra og erlendra aðila í þeim efnum og þá var gengið út frá í því mati að tekið yrði tillit til þess hver hagkvæmni fyrirtækisins væri eftir að búið væri að stækka verksmiðjuna um einn ofn. Niðurstaða þessara þriggja aðila sem þarna voru fengnir til, þ.e. innlendu og erlendu aðilanna, var að heildarvirði fyrirtækisins væri á bilinu 2,2 milljarðar til 2,9 milljarðar íslenskra króna. En án þriðja ofnsins væri verðmæti fyrirtækisins mun minna.

Það hefur hins vegar ekki náðst samkomulag milli eignaraðilanna um þetta verðmætamat sem liggur fyrir og um það hefur m.a. verið deilt í þessum samningum.

Í aðalsamningi, markaðssamningi og samstarfssamningi milli aðilanna, eru samstarfsaðilum settar mjög þröngar skorður og með þessum 55% eignarhlut Íslendinga er í raun og veru alls ekki um að ræða virk yfirráð í fyrirtækinu. Það lýsir sér í því að til að ná fram breytingu á markaðssamningi innan fyrirtækisins milli eignaraðila þarf samkomulag allra aðila til að slíkt geti orðið. Til að auka hlutaféð í fyrirtækinu og til að taka lán varðandi þriðja ofninn þarf aukinn meiri hluta eigenda eða í kringum 2/3 hluta eigenda fyrirtækisins. Með samanlögðum eignarhlut Sumitomo og okkar Íslendinga náum við 70% eignarhlut í fyrirtækinu þannig að á grundvelli þess væri hægt að taka ákvörðun um hlutafjáraukningu og lántöku til að fara í þriðja ofninn. En þrátt fyrir 70% eignarhlut þessara tveggja aðila í fyrirtækinu getur að sá aðili sem á 30% getur sagt nei við að breyta markaðssamningnum og forsendan fyrir því að Sumitomo taki þátt í stækkuninni er að fá markasamningnum breytt. Að þessu leyti til erum við í sjálfheldu og komnir í nokkurt öngstræti.

Með þessum orðum er ég einfaldlega að segja að meirihlutaeign okkar Íslendinga upp á 55% er einskis virði við þessar kringumstæður. Hún er einskis virði og þannig var gengið frá á sínum tíma að það var ekkert annað en sýndarmennska þegar menn voru að halda því fram að með 55% eignarhlut Íslendinga í þessu fyrirtæki væri um virk yfirráð að ræða og kemur best í ljós þegar á þetta samstarf reynir núna til ákvarðanatöku að 55% meirihlutaeign eru okkur því miður einskis virði.

Varðandi þær spurningar sem hv. þm. lagði fyrir, og ég vil þakka hv. þm. fyrir að leggja fyrir mig spurningarnar strax í gær, þá er því til að svara í fyrsta lagi að ég get staðfest að það var tiltölulega mjög lítið sem bar í milli eignaraðila sl. föstudag þegar menn horfa á málið út frá heildarhagsmunum hvort sem það er Elkems eða íslenska ríkisins. Deilan stóð m.a. um það hvert væri verðmæti fyrirtækisins og hvort hægt væri að komast að samkomulagi um verðmæti fyrirtækisins og þá um leið með hvaða hætti Elkem gæti eignast meiri hluta í fyrirtækinu.

Í öðru lagi varðandi (Forseti hringir.) þann ávinning sem íslenska ríkið og járnblendifélagið hefði af þessari stækkun, þá höfum við ekki nákvæmlega metið það, en út frá samanlögðum ávinningi íslenska þjóðarbúsins á byggingu álvers á Grundartanga og stækkuninni hjá Íslenska járnblendifélaginu þá er ljóst að heildarfjárfestingin er í kringum 36,2 milljarðar. 51% aukning frá 1996--1997, 22 milljarðar í raforkuvirkjum, 14 milljarðar í stóriðjuverum.

(Forseti (ÓE): Nú er ræðutíminn liðinn og hæstv. ráðherra er rétt að byrja að svara fyrirspurnunum.)

Nei, það er nú ekki rétt, herra forseti.

(Forseti (ÓE): Það voru 30 sekúndur eftir.)

Ég hef ekki lokið við að svara því miður en ég fæ tækifæri í seinni umferð til að svara þeim nánar.