1997-03-04 13:57:17# 121. lþ. 83.95 fundur 229#B stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og breytingar á eignaraðild að henni# (umræður utan dagskrár), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur

[13:57]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það er fáum hv. þm. jafntamt að rangtúlka hlutina og hv. þm. Svavari Gestssyni. Það kom fram í fyrri ræðu minni að verðmætamat fyrirtækisins væri 2,3--2,9 milljarðar kr. Og koma síðan hér í ræðustól á eftir og segja að verðmætamatið sé einskis virði. (SvG: Sagði ráðherrann.) Það sem ég sagði, hv. þm., var þetta, að yfirráð okkar í fyrirtækinu sem ráðandi afl með 55% eignarhlut væri einskis virði vegna þess að minnihlutaréttindin væru svo tryggð og menn þurfa að hafa það, og hv. þm. líka, rétt eftir.

Til að svara spurningum hv. þm. er það svo að heildarfjárfesting tengd þessum virkjunum og byggingu fyrirtækjanna er 36,2 milljarðar kr. Það skapar um 1.600 ársverk á framkvæmdatímanum. Það er 5%--8% aukning á ársverkum í byggingarstarfsemi. Til lengri tíma litið þýðir þetta að hagvöxtur mun aukast hefði þetta gengið eftir. Það bætir viðskiptajöfnuðinn til lengri tíma og það eykur verðmætasköpunina innan fyrirtækisins og í útflutningsverðmætunum. Ef samningar ganga ekki eftir er þetta okkur efnahagslegt áfall, því miður.

Varðandi þriðju spurninguna um kostnaðinn, þá er ljóst að áætlaður fjárfestingarkostnaður er í kringum 2,7 milljarðar við byggingu þriðja ofns. Hlutafé þar yrði um 900 millj. Íslenska ríkið þyrfti í óbreyttum eignarhlutföllum að greiða inn 495 millj. Erum við tilbúin til að bæta þessum 500 millj. tæpum við þá 4 milljarða sem við höfum nú þegar sett inn í fyrirtækið og taka það af skattpeningunum? Nei, segi ég. Þess vegna er sú leið ekki fær. Við eigum að breyta eignarhlutföllunum og fá Norðmennina til að bera hitann og þungann af stækkuninni.

Um sölu á hlut ríkisins til Elkem vil ég taka fram að rætt var um verulega sölu á hlutabréfum til Elkem, ekki beina sölu heldur með því að auka hlutafé gæti Elkem eignast (Forseti hringir.) meiri hluta í fyrirtækinu.

Að lokum, um tímafrest í málinu, þá mun málið verða rætt milli stjórnarmanna á næstu dögum. Ég vil engu spá um það á þessari stundu hvort af því getur orðið að breytingar á afstöðu einstakra eignarhluta í málinu verði eða ekki.

Herra forseti. Fréttir af viðræðuslitum Norðmanna (Forseti hringir.) vegna stækkunar járnblendiverksmiðjunnar hafa orðið vatn á myllu afturhaldsaflanna í þjóðfélaginu, þeirra sem vilja ekki stækkun, (Forseti hringir.) draga úr útflutningsverðmætunum, vilja atvinnuleysi í staðinn fyrir atvinnu, versnandi kjör frekar en aukinn kaupmátt. Það voru þessi öfl sem fengu byr undir báða vængi þegar fréttir bárust af því að ekki yrði sennilega af samningum milli íslenska ríkisins og járnblendifélagsins.