Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 04. mars 1997, kl. 14:30:44 (4168)

1997-03-04 14:30:44# 121. lþ. 83.5 fundur 381. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (félagsmálanefndir, ráðgjöf, fjárhagsaðstoð o.fl.) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur

[14:30]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þetta voru athyglisverðar en jafnframt alvarlegar upplýsingar sem hæstv. ráðherra gaf hér síðast, þar sem hann greindi frá niðurstöðum úr spurningavagni varðandi t.d. menntun barna. Þetta eru mjög alvarlegar upplýsingar sem hér koma fram, að það séu um 8--9% aðspurðra sem segjast hafa þurft að hætta námi vegna fátæktar foreldra eða framfærenda ef ég skil málið rétt.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvað hann ætli að gera með slíkar upplýsingar. Þetta er mjög alvarlegt þannig að ég tel nauðsynlegt þegar svona liggur fyrir að á þessu máli verði tekið. Auðvitað hefur maður vitað að það væri eitthvað um þetta en þetta eru nokkuð háar tölur og kemur vissulega inn á mál sem hér er á dagskrá á eftir um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem fjallar um að einstæðir foreldrar geti nýtt sér ónýttan persónuafslátt barna sinna einmitt til þess að styrkja þau börn að því er varðar möguleika á menntun. En ég held að það sé nauðsynlegar þegar svona upplýsingar liggja fyrir, að fá betur fram hjá ráðherranum hvað hann ætli að gera með upplýsingarnar.

Ég vil þakka ráðherranum fyrir svörin. Ég skil það sem ráðherrann segir um greiðslu fjárhagsaðstoðar aftur í tímann svo að þarna geti bæði verið um að ræða skertan rétt hjá sumum íbúum sveitarfélaga sem hafa staðið vel að máli og eins sé kannski verið að rýmka réttinn og þá um leið samræma hann gagnvart íbúum sveitarfélaga sem standa sig illa varðandi fjárhagsaðstoðina. En ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki rétt að miða við sömu afturvirkni og er hjá Tryggingastofnun, þ.e. tvö ár. Ég sé ekki eðlismuninn á því af hverju það eigi að vera hægt að fá bætur afturvirkt hjá Tryggingastofnun í tvö ár en einungis fjóra mánuði ef um er að ræða bætur eða fjarhagsaðstoð hjá sveitarfélögunum. Ég get tekið undir með ráðherra að rétt sé að samræma innbyrðis afturvirkni í greiðslu fjárhagsaðstoðar hjá sveitarfélögunum, en það er efi í mínum huga að það sé rétt að miða við fjóra mánuði.

Ég fagna því að ráðherrann ætli að fara að undirbúa stækkun barnaverndarumdæmanna. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það verði gert sem fyrst og vænti þess að frv. um það geti fljótlega séð dagsins ljós hér á Alþingi vegna þess að ég hygg að það þurfi að breyta lögum til þess.

Varðandi það að koma á samræmdum reglum um upphæð fjárhagsaðstoðar þá fannst mér ráðherrann kannski ekki taka vel í það að öðru leyti en því að hann vísaði þessu til heildarendurskoðunar, en það getur tekið einhvern tíma að undirbúa frv. um slíkt og leggja fyrir Alþingi. Mér finnst alveg nægjanlegar upplýsingar liggja fyrir sem ráðherrann sjálfur lét hinu háa Alþingi í té þar sem fram kom að hvað þessi fjárhagsaðstoð væri mismunandi þannig að mér finnst allar forsendur vera fyrir því, virðulegi forseti, að samræma og setja gólf í því hver fjárhagsaðstoðin á að vera. En það má vel vera að ráðherrann vilji fyrst knýja öll sveitarfelögin til þess að skila inn sínum reglum og ætli síðan kannski að vinna út frá því.

Varðandi húsaleigubæturnar sem ráðherrann gerði nokkuð að umtalsefni. Ég alveg sannfærð um að fyrir íbúa þeirra sveitarfélaga sem veita húsaleigubætur er þetta ein besta kjarabótin sem láglaunafólk hefur fengið í háa herrans tíð og þess vegna er mjög slæmt að ekki skuli öll sveitarfélög veita þessa aðstoð og greiða húsaleigubætur. Við þekkjum rökin fyrir því af hverju þessi leið var farin. Þetta var raunverulega skilyrði af hálfu Sambands sveitarfélaga til þess að þeir féllust á frv. um húsaleigubætur á sínum tíma. Virðulegi forseti, sveitarfélögin báru alltaf fyrir sig að framkvæmdarerfiðleikar yrðu í þessu. Nú er komin fram skýrsla sem segir að alls engir framkvæmdaerfiðleikar séu, að þetta hafi gengið mjög vel fyrir sig. Þess vegna skil ég ekki að fleiri sveitarfélög hafi ekki tekið þetta upp vegna þess að það voru fyrst og fremst framkvæmdaerfiðleikarnir sem sveitarfélögin báru fyrir sig. Öll sveitarfélög sem hafa tekið upp húsaleigubætur viðurkenna að framkvæmdin hefur gengið mjög vel. Þess vegna tel ég að það þurfi að flýta því að setja löggjöf sem skyldi sveitarfelögin öll að taka upp húsaleigubætur. Það er ekki sama hvort fólk leigir á almennum markaði í Reykjavík þar sem það fær húsaleigubætur eða hérna í næsta nágrannasveitarfélagi eins og Kópavogi þar sem engar húsaleigubætur eru greiddar. Það getur kannski munað 15 þús. kr. fyrir þá sem eru á leigumarkaðnum hvort þeir búa í Kópavogi eða Reykjavík þannig að þetta eru miklir annmarkar á þessari löggjöf og væri fróðlegt að vita hvort við eigum von á því á þessu þingi að fram komi frv. um breytingar á húsaleigubótunum sem feli í sér skyldu allra sveitarfélaga til þess að taka upp húsaleigubætur.