Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Þriðjudaginn 04. mars 1997, kl. 15:14:25 (4174)

1997-03-04 15:14:25# 121. lþ. 83.7 fundur 284. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur

[15:14]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst öll ræða hæstv. forsrh. ganga út á að hann væri á móti því að setja lög um starfsemi stjórnmálaflokkanna eða fjárreiður stjórnmálaflokkanna. Síðan kom niðurstaðan. Hann býst við að frv. verði lagt fram um það ef samstaða næst um það á næsta þingi. Það veldur mér vissulega vonbrigðum að þetta taki svo langan tíma, að enn þurfi að líða nokkrir mánuðir áður en þingið færi að fjalla um þetta mál.

Ég hafði vissulega gert mér vonir um það miðað við upplýsingar sem komu fram í nefndinni að frv. mundi koma fram á þessu þingi. Ég vil líka taka fram af því að hæstv. forsrh. sagði að allir stjórnmálaflokkar ættu aðild að þessari vinnu, að Þjóðvaki á ekki aðild að þessu samstarfi eða þessu starfi í nefndinni einfaldlega vegna þess að Þjóðvaki fékk ekki, þó eftir því væri gengið, þá skilgreiningu á verksviði þessarar nefndar sem hann óskaði eftir að fá. Þjóðvaki sem slíkur stendur því utan við þessa vinnu.

Hæstv. forsrh. hefur lýst skoðun sinni á ýmsu því sem ég hef hér sett fram og ég verð að segja að ýmislegt hefur valdið mér vonbrigðum. Þó að þetta væri fróðleg ræða á margan hátt hjá hæstv. ráðherra þá hefur afstaða hans til hinna ýmsu þátta eins og prófkjörs og þaks á fjárframlög í kosningabaráttu valdið mér vonbrigðum. Eitt hefur hann þó ekki nefnt sem er efnisatriði í þessu frv. Ég spurði hæstv. ráðherra hvort þessi frumvörp sem hann væri með á sínu borði væru í sama eða svipuðum dúr og hér er verið að ræða. Það er spurningin um að stjórnmálasamtökum sé heimilt að taka við fjárframlagi eða ígildi þess frá einstökum aðilum, þó þannig að fari framlög yfir ákveðna upphæð, hér er nefnt 300 þús., á hverju reikningsári þá eigi að birta nöfn styrktaraðila samhliða birtingu ársreikninga. Ég tel þetta mjög mikilvægt atriði og spyr hæstv. ráðherra um á skoðun hans á þessu ákveðna atriði.

En ég lýsi aftur vonbrigðum mínum með þann drátt sem verður á framlagningu frv. um fjárreiður stjórnmálaflokka.