Íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra

Þriðjudaginn 04. mars 1997, kl. 16:17:04 (4186)

1997-03-04 16:17:04# 121. lþ. 83.8 fundur 313. mál: #A íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra# þál., Flm. SvG
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur

[16:17]

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. samþingmönnum mínum úr Reykjavíkurkjördæmi fyrir góðar undirtektir við þessa tillögu og tek undir allt það sem þau sögðu, líka þær athugasemdir við tillöguna sem komu fram frá þeim. Mér finnst það réttmætt sem þau benda á í þeim efnum. Það er alveg rétt hjá hv. 15. þm. Reykv. að það er ekki einfalt að setja þetta mál í lög vegna þess að það er gagnslaust að setja það í lög nema peningar séu í dæminu. Það er málið. Auðvitað mætti hugsa sér að byrja peningamegin á málinu en ég hugsa að það yrði flóknara fyrir þingið eins og það er og það er mín reynsla af því. Þess vegna ákvað ég að prófa þessa leið til að koma málinu hér á dagskrá.

Ég tel að þessi mál liggi þannig að í fyrsta lagi eigi lögin að undirstrika stjórnarskrárákvæðin, þ.e. að taka undir þau ákvæði sem eru í stjórnarskránni um mannréttindi en í annan stað eigi lögin að kveða á um almenn réttindi heyrnarlausra og heyrnarskertra. Þá er ég að tala um þá alla. Í fyrsta lagi við venjulegar og hversdagslegar kringumstæður þeirra, það fæðast eitt til tvö heyrnarlaus börn á ári, og þá þarf að skapa aðstæður til þess að foreldrar þeirra geti talað við þau á táknmáli þegar fram í sækir. Það er mál sem þarf að huga að í fyrsta lagi. Í annan stað þarf að huga að möguleikum þessara barna þegar þau komast á skólaaldur --- á leikskólaaldur og grunnskólaaldur. Til þess þarf táknmálstúlkun í leikskólum og í grunnskólum og síðan í framhaldsskólum. Táknmálstúlkana og táknmálskennarana þarf síðan að mennta í framhaldsskólum og í háskólum, eins og reyndar hefur þegar verið gert og rakið er í grg. með tillögunni. Hér er því um allmikið réttindakerfi að ræða sem ég held að verði að lögbinda. Síðan eru það rannsóknirnar líka sem eru kapítuli út af fyrir sig.

En þá kemur þessi spurning sem mér finnst vefjast dálítið fyrir okkur: Hver á að tryggja þetta? Hvernig á að halda á því? Ég hallast helst að því, herra forseti, að þetta eigi að vera almenn lagaákvæði sem geri það að verkum að þegar atvinnulaus maður, t.d. heyrnarlaus, þarf á þjónustu vinnumiðlunar að halda þá fái hann túlk tafarlaust og það sé gert ráð fyrir því í fjárhagsáætlunum vinnumiðlana og síðan sjúkrahúsa ef um sjúkan er að ræða að þetta sé borgað þannig að þessar stofnanir lendi ekki í því að ,,þurfa að henda reikningum sín á milli`` sem bitnar fyrst og fremst á þessu fólki þegar upp er staðið.

Það vill svo til, þó það sé ólíku saman að jafna, að í morgun hitti ég nokkra aðstandendur fanga sem sögðu mér ótrúlegar sögur af því hvernig þessir einstaklingar, fangar, eru sviptir mannréttindum vegna þess að það eru svo harðar deilur um það á milli ríkisstofnana hver á að borga reikningana, og það endar með því að þetta fólk fær ekki einu sinni almennilega heilbrigðisþjónustu.

Mér virðist að það dæmi, sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir nefndi í gær og aftur í dag, sýni að þetta fólk, sem síst skyldi, sé að lenda á milli stofnana af því menn eru að pexa um það hver eigi að borga reikningana. Þetta gengur ekki. Það mundi vera sterkara fyrir þetta fólk og aðra að geta veifað lagasetningu og sagt: Það stendur í lögum að ég eigi að fá þetta og eigi rétt á því að fá þessa þjónustu þó ég sé heyrnarlaus eða heyrnarskertur. Því hefði ég talið að skynsamlegast væri að túlkarnir sem fólk kallaði til, hvort sem það væri til vinnumiðlana eða annarra slíkra stofnana, sjúkrahúsa eða hvað það nú er, væru kannski staðsettir meira og minna á einum stað eða í tengslum við einn stað. Orðið samskiptamiðstöð var hugsað svona vegna þess að gert var ráð fyrir því að þessi miðstöð gæti stuðlað að samskiptum heyrnarlausra og heyrnarskertra við umhverfi sitt og þá hugsanlega með því að á hennar vegum væru þessir aðilar að einhverju leyti sem væru þá í ýmsum verkum, stundum að sinna einhverjum í skóla, stundum að sinna einhverjum á heilbrigðisstofnun, stundum hér og stundum þar.

Að öðru leyti vil ég leyfa mér að þakka fyrir góðar undirtektir undir tillöguna og nefna að lokum að ég mun fara fram á það við hv. menntmn. að hv. heilbrn. og hv. félmn. fái þetta mál einnig til skoðunar og að það verði sent út sem víðast til umsagnar þannig að hægt verði að átta sig á frekari flutningi mála af þessu tagi næsta haust ef svo ólíklega skyldi vilja til að hæstv. menntmrh. hafi ekki lagt fram frv. um málið.