Veiðiþol beitukóngs

Þriðjudaginn 04. mars 1997, kl. 16:40:34 (4189)

1997-03-04 16:40:34# 121. lþ. 83.9 fundur 343. mál: #A Veiðiþol beitukóngs# þál., HG
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur

[16:40]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég held að hér sé gott mál á ferðinni sem er till. til þál. um könnun á veiðiþoli beitukóngs. Það er fyllsta ástæða til þess að átta sig á þeim lífverum sem lifa í hafinu við Ísland og leita þar nýrra fanga og umfram allt að gæta að því að afla upplýsinga sem bestra með rannsóknum á lífsháttum og um leið nýtingarþoli þeirra lífvera sem eru í sjónum í kringum landið og sú tillaga sem hér er flutt af nokkrum hv. þm. er viðleitni í þessa átt. Þar er tekin fyrir aðeins ein tegund. Það er auðvitað alltaf álitaefni hversu vítt er farið yfir sviðið en ég held að það þurfi að setja mál sem þetta inn í almennt samhengi þar sem beitukóngurinn er að sjálfsögðu ekki einn á ferð heldur hluti af vistkerfi botndýra við landið og það þarf að gæta þess að afla sem fyllstra upplýsinga um þetta vistkerfi sem beitukóngurinn er hluti af.

Vegna þessa máls vil ég geta þess að það hefur verið fjallað um það eins og frsm. mun hafa nefnt í upphafi síns máls. Um það hefur verið fjallað um á fyrri þingum. Ég flutti tillögu og fékk samþykkta þál. ásamt öðrum þingmönnum Alþb. á þinginu 1986--1987. Það er nú svo með blessuð þingskjölin á þeim tíma að það var ekki haft fyrir því að prenta ártal í þingskjölum þannig að fái maður ljósrit af þingskjölum fyrri áratugar þá kemur ekki fram á hvaða þingi viðkomandi mál var flutt en úr þessu var bætt þannig að það er auðséð nú. En hér er um að ræða þáltill., sem var 6. mál á 109. þingi 1986--1987, um rannsóknir á botnlægum tegundum á grunnsævi. Mér sýnist allur þáverandi þingflokkur Alþb. hafa staðið að þessu með mér sem hafði á hendi undirbúning málsins. Tillagan var samþykkt og ég ætla að leyfa mér að lesa hana eins og hún var samþykkt þann 24. febr. 1987:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir að fram fari skipulegar rannsóknir á botnlægum tegundum á grunnslóð og kortlagning slíkra miða til að auðvelda veiðar, ekki síst innfjarða. Jafnframt verði athuguð hagkvæmni á veiði botnlægra tegunda.

Gerð verði áætlun um þetta verkefni með það í huga að ljúka því á næstu fimm árum og til þess verði veitt sérstakt fjármagn úr ríkissjóði.``

Þetta var efni tillögunnar. Með tillögunni var fskj. sem ég fékk frá Hrafnkeli Eiríkssyni, sérfræðingi á Hafrannsóknastofnun, sem lét mér í té greinargerð um rannsóknir á botnlægum hryggleysingjum í fjörðum og flóum hérlendis og þar eru taldar upp margar tegundir sem koma við sögu. Flestar hafa verið nytjaðar með einhverjum hætti á fyrri tíð og sumar enn þann dag í dag. Það má nefna hörpudisk, rækju, trjónukrabba, beitukóng, kúfskel, krækling, öðu, sandskel, báruskeljar, þar á meðal hjartaskel sem er þekkt sem markaðsvara. Þetta eru dæmi um tegundir sem er gerð grein fyrir í þessu fskj.

Síðan gekk ég á eftir því á 116. löggjafarþingi hvað hefði verið aðhafst af framkvæmdarvaldinu á grundvelli þessarar tillögu og á 116. þingi á að vera að finna á þskj. 294 svar sjútvrh. við fyrirspurn minni um rannsóknir á botnlægum tegundum.

Þar kemur fram að sjútvrn. hafi falið Hafrannsóknastofnun þann 3. mars 1987, það er þá mjög fljótlega eftir samþykkt tillögunnar á Alþingi, að gera fimm ára áætlun um skipulagðar rannsóknir á botnlægum tegundum á grunnslóð og kortlagningu slíkra miða ásamt kostnaðaráætlun þar um. Síðan er gerð grein fyrir þessu. Og með þessu svari fylgir skjal frá Hafrannsóknastofnun sem er þessi rannsóknaáætlun sem stofnunin hafði gengist fyrir.

Ég óttast hins vegar að ekki hafi verið framfylgt sem skyldi því sem þál. gerði ráð fyrir í rannsóknum, hef þó vissulega í huga að Hafrannsóknstofnun hefur lagt til slíkra rannsókna á undanförnum árum og hefur yfir ágætum sérfræðingum að ráða sem vinna að þeim og þessi rannsóknaáætlun er, held ég, þess virði að það sé kannað og ég hvet til þess um leið og ég mæli með því að þessi þáltill. um beitukónginn fái eðlilega þinglega meðferð og sé ekkert á móti því að hún verði samþykkt sem slík af því að þetta er ágætt mál. En ég tel rétt að þingnefnd sem um málið fjallar fari yfir allt sem áður var samþykkt á Alþingi og gangi eftir upplýsingum frá sjútvrn. og Hafrannsóknastofnun um þær rannsóknir í krafti þeirrar áætlunar sem Hafrannsóknastofnun tók saman fyrir sjútvrn. á sínum tíma. Þannig held ég að sé mjög nauðsynlegt að vinna að málum og þyrfti auðvitað að kortleggja skipulega lífsstöðvar þessara nytjadýra á hafsbotni við landið og ráðleggja um hugsanlega nýtingu þeirra í hófi þannig að ekki verði um ofnýtingu að ræða.

Herra forseti. Um leið og ég lýk máli mínu vil ég segja að það eru mörg vítin að varast í þessu. Eitt það nýjasta varðar ígulkerin við landið þar sem menn fóru í nýtingu í allverulegum mæli án þess að sjómenn hefðu þær upplýsingar sem eðlilegt væri í sambandi við veiðarnar (Forseti hringir.) og þar af leiðandi hafa þær ekki orðið jafnskipulegar og uppskeran kannski ekki sú sem skyldi og vitneskja um veiðiþolið er óljós fyrir utan markaðsmálin sem hafa sett þessum veiðum sín takmörk og það sem upp úr var að hafa. (Forseti hringir.)

Þetta vildi ég nefnt hafa, virðulegur forseti, um leið og ég þakka þolinmæði forseta.