Veiðiþol beitukóngs

Þriðjudaginn 04. mars 1997, kl. 16:49:30 (4190)

1997-03-04 16:49:30# 121. lþ. 83.9 fundur 343. mál: #A Veiðiþol beitukóngs# þál., Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur

[16:49]

Flm. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins í örfáum orðum þakka undirtektir þeirra tveggja þingmanna sem hafa talað í þessu máli. Ég gat ekki sérstaklega í upphafi máls míns um frumkvæði hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar en ég gat þess hins vegar að tveir af fyrrverandi félögum hans í þingflokki Alþb. hefðu haldið fram þeirri stefnu að það ætti að reyna að skjóta styrkari stoðum undir smábátaútgerð í landinu og nefndi þá sérstaklega Grímseyjarkommúnistana tvo, Stefán Jónsson og Jónas Árnason, og taldi mig þriðja Grímseyjarkommúnistann í þeim hópi. Þessi tillaga, eins og hv. þm. veit því hann hefur lesið hana, miðar m.a. að því að reyna að færa aðeins út möguleika smábáta til þess að lifa af hafinu. Það er þrengt að þeim á öllum sviðum, en líkast til mundu smáir bátar henta afar vel til að vinna þessa tegund.

Ég nefni það líka, herra forseti, að sjómenn við Ísafjarðardjúp sem komu að máli við mig eftir að ég lagði fram þessa tillögu sögðu mér það að þeir teldu að á smáum bátum, 8 tonna bátum, væri hægt að ná 15--20 milljarða kr. aflaverðmæti á ári. Auðvitað skiptir það gríðarlega miklu máli. En það er lítið vitað um útbreiðslu tegundarinnar og það er nákvæmlega eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði að við höfum ákveðin víti fyrir okkur sem við þurfum að varast. Við vitum ekki um stofnstærð þessarar tegundar. Við vitum ekki heldur hvernig stofnarnir eru uppbyggðir, hvort þeir eru einn eða mjög margir eins og ég tel nú líklegra. Við vitum ekki hvað er hægt að bjóða einstökum veiðistöðum. Ég ímynda mér að á stöðum eins og Ísafjarðardjúpi og á Breiðafirði sé að finna mikið magn af þessum tegundum, en við vitum það ekki og það er óvarlegt að ráðast í nýtingu á þeim án þess að hafa a.m.k. pata af því hvernig líklegt er að veiðarnar kæmu við þessa stofna.

Ég tek heils hugar undir með hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að það er löngu tímabært að veita fjármagn í það að kortleggja ýmsar botnlægar tegundir við Ísland sem án efa gætu skapað mjög mikil verðmæti, mjög mörg störf og leitt til uppbyggingar vítt um landið, gætu skotið traustum hnyðjum undir ýmis smábyggðarlög sem eru í hættu. Sú tillaga sem liggur hérna fyrir varðar bara eina þeirra sem er beitukóngurinn. En hún er m.a. lögð til þess að undirstrika þessa möguleika vegna þess að aðstæðurnar eru sérstakar núna. Aðstæðurnar eru sérstakar að því leyti til að tvennt hefur gerst. Það hafa opnast nýir markaðir í Austur-Asíu þar sem Japanar hafa í vaxandi mæli farið að nota þetta í sína frægu sushi-rétti. Þeir þurfa þar af leiðandi einhvers staðar frá að fá þessa tegund. Þeir veiða hana eiginlega ekkert sjálfir. Kóreumenn eru líka farnir að óska eftir þessu dýri. Þeir fengu þessa tegund áður frá Rússlandi þar sem veiðunum er ekki sinnt lengur.

Hins vegar hefur það líka gerst að helsta veiðiþjóðin og reyndar neysluþjóðin í Evrópu, Frakkar, hefur þurft að þola hrun í veiðunum, algjört hrun. Veiðarnar hafa hrunið úr 8--10 þús. tonnum á ári niður fyrir þúsund tonn og það er þetta sem gerir það að verkum að markaðurinn er reiðubúinn til þess að greiða hærra verð fyrir beitukónginn. Þess vegna er lag fyrir hann einmitt núna. En það líka beinir kastljósinu á stöðu rannsókna á botndýrum almennt. Hv. þm. gat um ígulkerin hérna áðan og það er hægt að nefna fleiri botnlægar tegundir sem líklegt er að við gætum unnið verðmæti úr. En við vitum svo lítið um það og það þarf að rannsaka í miklu meiri mæli heldur en áður.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gat þess að það væri fróðlegt að þingið gengi eftir því við framkvæmdarvaldið hversu fram hefur undið þeim rannsóknum sem samþykktar voru með þáltill. hans og félaga hans úr Alþb. 1987. Það er hárrétt, það væri fróðlegt. En ég veit hvernig því hefur undið fram. Það hefur nánast ekkert verið gert. Sú tillaga sem nú liggur fyrir á að vissu leyti rætur sínar að rekja inn á Hafrannsóknastofnun þar sem menn hafa veikum burðum verið að sinna rannsóknum á þessari tegund, þeir tveir menn sem ég nefndi sérstaklega, Karl Gunnarsson, sem er þörungafræðingur, og Sólmundur T. Einarsson sem hefur sinnt allt öðrum rannsóknum. Þeir hafa meðfram öðru verið að kanna þetta og verið að reyna að kría út fjármagn í það en gengið illa. En ef það tækist að fá þessar tillögur samþykktar, þá mundi það auðvitað treysta þeirra vinnu. En ég viðurkenni það alveg fúslega að miklu glaðari yrði ég ef hægt væri í meðförum nefndarinnar að ná samkomulagi um það að freista þess að fá fjármagn til almennra rannsókna á þessum tegundum. Það er það sem skiptir miklu máli. Það er ljóst að þarna eru ónýttir möguleikar og við verðum á einhvern hátt að sjá til þess að þeir séu kannaðir.

Ástæðan fyrir því að ekki er ráðist í það er að þetta eru dreifðir stofnar og þeir eru okkur framandi, bæði í veiðum og vinnslu, og það eru engin stór og traust fyrirtæki sem hafa beinan hag strax af því að því að nýta þetta. En það er eins og með svo margt annað sem hefur orðið okkur að uppsprettu verðmæta hér á Íslandi að oft er það þannig að það eru fræðimenn sem koma auga á eitthvað, þætta það saman við gamla reynslu og fá einhverja menn á einhverjum stöðum sem hafa kannski báta og tæki aflögu til þess að reyna að kanna möguleikana á veiðum nýrra tegunda og upp úr því hafa oft komið mjög mikilvæg tækifæri sem hafa stutt byggðina í landinu.

Ég held að það væri afskaplega gott ef Alþingi gæti falið ríkisstjórninni að fara út í allsherjarkortlagningu á þessum tegundum. Það væri kannski farsælasta niðurstaðan í þessu máli að hin háa sjútvn. féllist á eitthvað slíkt. Ég vísa því þá til þeirra sjávarútvegsnefndarmanna sem hér eru staddir eða lesa þessar umræður að beita sér fyrir því ef áhugi er á því í nefndinni.