Grunnlínupunktar við Svalbarða

Miðvikudaginn 05. mars 1997, kl. 13:33:13 (4201)

1997-03-05 13:33:13# 121. lþ. 84.1 fundur 208. mál: #A grunnlínupunktar við Svalbarða# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur

[13:33]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Íslendingar hafa um árabil stundað veiðar á alþjóðlegu hafsvæði í Barentshafi sem við þekkjum öll sem Smuguna. Um það hafa vitaskuld staðið deilur en við Íslendingar höfum staðfastlega haldið því fram að við hefðum skilyrðislausan rétt til þess að veiða þarna, þarna væri alþjóðlegt hafsvæði, og veiðar okkar hafa fært milljarða í þjóðarbúið.

Á sl. sumri gerðist það hins vegar, herra forseti, að norska strandgæslan tók að reka burt íslensk skip sem voru að veiðum í norðausturhorni Smugunnar. Þegar skipin skirrtust við að hlíta fyrirskipun Norðmanna var þeim einfaldlega tilkynnt að þessi hluti veiðisvæðisins væri utan Smugunnar. Þeim var sagt að samkvæmt hafréttarsáttmálanum ættu Norðmenn rétt til þessa horns af Smugunni. Norðmenn ráku sem sagt burt íslensk skip af svæði sem allir höfðu áður álitið að væri alþjóðlegt svæði. Bæði skipstjórar og viðkomandi útgerðir kvörtuðu undan þessu við utanrrn. sem gegnum sendiherrann í Ósló sendi fyrirspurn um þetta til Norðmanna. Svarið sem barst Íslendingum 3. október fól alls ekki í sér nægilega afdráttarlausa skýringu á þessari breytingu. Þar var að vísu vísað í ákveðnar greinar hafréttarsáttmálans, en aðallega var vísað í tvö sjókort sem þá höfðu nýlega verið gefin út. Það voru engar aðrar skýringar en þessi kort gefin á framferði Norðmanna.

Samkvæmt kortunum er alveg ljóst að Norðmenn hafa breytt viðmiðunarpunktum sínum þannig að núna reikna þeir lögsögðuna út frá algerlega óbyggðu svæði, Abeley á Kóngs Karls landi á Svalbarða. Það út af fyrir sig er athyglisvert út frá ýmsum greinum sáttmálans, sérstaklega 3. tölul. 121. gr. þar sem er talað um að klettar sem ekki geta borið mannabyggð né eigið efnahagslíf skuli ekki hafa nokkra sérefnahagslögsögu eða landgrunn.

Það er líka athyglisvert að rökstuðningur Norðmanna fyrir hinni breyttu landhelgi eins og hún er færð út á kortunum er fólgin í dómi norska hæstaréttarins frá 7. maí sama ár yfir tveimur íslenskum skipum. En hvort sem breytingar Norðmanna á grunnlínupunktunum styðjast við alþjóðlegan rétt eða ekki, þá er ljóst að þeir tilkynntu aldrei Íslendingum né íslenskum skipum um þessar breytingar. Samt er ljóst að í Noregi gilda lög um birtingu slíkra reglna. Þau gilda reyndar líka hér á landi og má geta þess að það eru hæstaréttardómar hér á Íslandi sem sýkna skipstjóra sem hafa verið teknir innan lokaðra svæða af því að framkvæmdarvaldið forsómaði að birta reglurnar.

Í ljósi þessara staðreynda hef ég spurt hæstv. utanrrh. um viðbrögð Íslendinga við þessu athæfi:

1. Hefur utanrrn. mótmælt breytingum Norðmanna á grunnlínupunktum við Svalbarða?

2. Til hvaða aðgerða hyggst ráðuneytið grípa vegna málsins?

3. Hve mikið minnkar alþjóðlega hafsvæðið í Barentshafi vegna þessa?

4. Telur hæstv. ráðherra miðað við kynningu málsins að Norðmenn hafi getað rekið íslensk skip af þessu svæði?

5. Telur hæstv. utanrrh. að þjóðarréttur heimili Norðmönnum að helga sér þennan umrædda hluta Smugunnar?