Grunnlínupunktar við Svalbarða

Miðvikudaginn 05. mars 1997, kl. 13:40:39 (4203)

1997-03-05 13:40:39# 121. lþ. 84.1 fundur 208. mál: #A grunnlínupunktar við Svalbarða# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur

[13:40]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Það er óhætt að segja að þetta var í besta falli loðið. Það var erfitt að skilja það að öllu leyti en þó stendur eftirfarandi upp úr: Mörk þessa svæðis voru gefin út með reglugerð 1970--1977. Það er á grundvelli þessarar reglugerðar sem íslenskir skipstjórnarmenn og útgerðarmenn hafa hagað veiðum sínum og ég vænti þess að það hafi verið gert í samráði við utanrrn. á hverjum tíma.

Í sumar gerist það að þessum mörkum er breytt. Þeim er breytt með útgáfu tveggja sjókorta og þar kemur þessi breyting fram. Þegar Íslendingar inna eftir skýringum er vísað til hæstaréttardóms. Þetta skiptir máli. Það sem skiptir máli er auðvitað það að hæstv. utanrrh. kemur hingað og ég gat ekki skilið mál hans öðruvísi en svo að hann tæki undir með Norðmönnum um að þeir hefðu ekki breytt viðmiðunarpunktum sínum. Það setur þetta mál í talsvert annað ljós heldur en skein á það þegar ég hóf þessa fyrirspurn. Er hæstv. utanrrh. að taka undir með málstað Norðmanna í þessari valdbeitingu þeirra því það er ekki hægt að kalla það neitt annað? Gengur það einfaldlega í samskiptum tveggja þjóða að önnur þeirra færi út sína landhelgi og hún hafi ekki einu sinni fyrir því að tilkynna hinni þjóðinni um það? Það gengur ekki, herra forseti. Ég hlýt að skilja þetta svo að hæstv. utanrrh. telji að Norðmenn hafi getað rekið íslensk skip af þessu svæði. Hann telji að þjóðarréttur heimili Norðmönnum að helga sér þennan hluta Smugunnar sem við höfum litið svo á að væri á alþjóðlegu svæði þar sem íslensk skip hafa veitt undanfarin sumur.

Það sem mér finnst verst er að hæstv. utanrrh. stendur og horfir á þetta gerast og ég spurði: Hvað hefur utanrrn. gert til þess að mótmæla þessu? Svarið var: Ekkert. Þeir hafa ekkert gert. Þeir hafa farið eins og kurteisir drengir með húfuna í höndunum og beðið um skýringar og þeir hafa fengið skýringar, sem voru vondar skýringar, og þeir taka þær gildar. Þetta er óviðunandi, herra forseti.