Grunnlínupunktar við Svalbarða

Miðvikudaginn 05. mars 1997, kl. 13:42:58 (4204)

1997-03-05 13:42:58# 121. lþ. 84.1 fundur 208. mál: #A grunnlínupunktar við Svalbarða# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur

[13:42]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég hef aðeins lýst staðreyndum þessa máls og staðreyndirnar eru þær, hvort sem hv. þm. líkar betur eða verr, að það er fyrst á þessum tíma sem Norðmenn gefa út opinber sjókort af þessu svæði. Það var ekki búið að ákveða neinar viðmiðunarlínur af þeirra hálfu og þau sjókort sem kunna að vera til fyrir þann tíma eru væntanlega teiknuð upp af skipstjórnarmönnum eða öðrum aðilum.

Ég tók það fram í mínu svari að hvorki Íslendingar né aðrar þjóðir, þar með talið Kanadamenn því þeir hafa ekki staðfest þann samning sem þeir gerðu við Norðmenn og eftir mínum upplýsingum stendur það ekki til, hafa viðurkennt breytingu Noregs á fiskverndarlögsögu við Svalbarða. Þessi fyrirvari okkar gildir enn í þessu máli og það ætti að vera nóg. Ég er á engan hátt að taka undir með sjónarmiðum Norðmanna hvað svo sem hv. þm. segir í þeim efnum. En ef hann þarf einhverjar frekari upplýsingar í þessu máli fyndist mér eðlilegt að hann leitaði eftir þeim á vettvangi utanrmn.