Orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis

Miðvikudaginn 05. mars 1997, kl. 14:06:23 (4209)

1997-03-05 14:06:23# 121. lþ. 85.8 fundur 340. mál: #A orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis# skýrsl, dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur

[14:06]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir skýrslu um orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis og annars ofbeldis gegn konum og börnum. Skýrslan liggur fyrir á þskj. 612.

Aðdragandi þessa máls er sá að árinu 1993 var lögð fram hér á Alþingi till. til þál. um rannsóknir á ástæðum og afleiðingum ofbeldis gegn konum á Íslandi. Með tillögunni var dómsmálaráðherra falið að skipa nefnd er hefði það hlutverk að undirbúa og hafa umsjón með rannsóknum á ástæðum, afleiðingum og umfangi heimilisofbeldis, svo og annars ofbeldis gegn konum og börnum. Í samræmi við framangreinda tillögu skipaði ég hinn 13. febrúar 1995 nefnd í þessum tilgangi. Hefur hún nú lokið störfum. Það er skýrsla hennar sem liggur hér fyrir og kemur nú til umræðu.

Í samræmi við skipunarbréf sitt ákvað nefndin að standa að rannsókn á heimilisofbeldi. Var hún framkvæmd í aprílmánuði 1996. Niðurstöður hennar liggja fyrir í skýrslunni. Ekki er fært að gera grein fyrir öllum atriðum hennar hér, en ég vil þó draga fram nokkur meginatriði.

Niðurstöðurnar sýna eftirfarandi:

Í fyrsta lagi að heimilisofbeldi er ekki algengara hér á landi en annars staðar.

Í öðru lagi að ef konur hafa verið beittar ofbeldi er algengara að þær hafi verið beittar því oftar en einu sinni á síðustu 12 mánuðum en að um einstakan atburð hafi verið að ræða. Þessar niðurstöður sýna að ofbeldi er sjaldnast einstakur atburður. Þær sýna jafnframt að í tæpum helmingi tilfella er ofbeldið gróft.

Í þriðja lagi kemur fram að 1,3% kvenna og 0,8% karla hafa orðið fyrir ofbeldi af völdum maka á síðastliðnum 12 mánuðum. Um 54% af þeim konum sem hafa verið beittar ofbeldi hafa verið beittar grófu ofbeldi á móti um 38% af körlunum. Þetta sýnir að tíðnin var ekki aðeins hærri meðal kvenna heldur höfðu þær einnig oftar orðið fyrir grófu ofbeldi.

Í fjórða lagi kemur fram að samtals hafa á bilinu 1.000 til 1.100 konur mátt þola ofbeldi af hendi núverandi eða fyrrverandi eiginmanns eða sambýlismanns á síðasta ári. Af þeim hafa um 750 konur mátt þola ofbeldi oftar en einu sinni, á meðan tæplega 350 konur hafa mátt þola það í eitt einstakt sinn. Hins vegar hafa um 650 karlar verið beittir ofbeldi af hálfu núverandi eða fyrrverandi maka.

Í fimmta lagi að ofbeldi á sér stað í öllum stéttum samfélagsins og háar tekjur breyta litlu eða engu um niðurstöðurnar. Tveir hópar eru líklegri en aðrir til að vera beittir ofbeldi. Annars vegar fráskildar konur og hins vegar konur á aldrinum 35 til 44 ára.

Í sjötta lagi kemur fram að ofbeldi gegn körlum fyrirfinnst í öllum hópum þjóðfélagsins. Þeir eru oftast beittir því af hálfu ókunnugra, á meðan konur eru beittar ofbeldi af hálfu aðila sem þær þekkja. Jafnframt að fleiri karlar en konur verða fyrir ofbeldi af völdum fleiri en eins aðila. Það á við um 10% karla.

Í sjöunda lagi kemur fram að afleiðingar heimilisofbeldis birtast m.a. í langtímaáhrifum og að þær konur sem beittar eru ofbeldi þjást oft af sektarkennd, þær skammast sín og í kjölfar þess minnkar sjálfstraust þeirra. Jafnframt kemur fram að ofbeldi gegn konum leiðir oft til þess að þær fá kvíðaköst og þær hætta að geta tekið sjálfstæðar og raunhæfar ákvarðanir. Margar konur sem beittar eru ofbeldi bera þess merki sem koma m.a. fram í lamandi ótta sem stigmagnast vegna stöðugrar hræðslu við að ofbeldið verði endurtekið. Þá sýna niðurstöðurnar einnig að um skammtímaáhrif getur verið um að ræða. Þau lýsa sér í reiði og ótta, hvort sem konurnar eru hræddar um sjálfa sig eða börn sín. Svefntruflanir koma oft í kjölfar áfalla sem þessara, en þær geta líka tengst þunglyndi og depurð. Loks sýna niðurstöðurnar að þær konur sem hafa orðið fyrir heimilisofbeldi hafa einnig upplifað öryggisleysi. Þær verða varkárari og eiga í erfiðleikum með og jafnvel varast að tengjast öðrum tilfinningaböndum. Það er því ljóst af þessum niðurstöðum að afleiðingar heimilisofbeldis eru mjög alvarlegar og hafa mjög víðtæk áhrif á þá sem fyrir því verða.

Í áttunda lagi kemur fram í skýrslunni að konur sem beittar eru ofbeldi leita aðstoðar og stuðnings bæði hjá hinu opinbera sem og hjá sínum nánustu. Niðurstöðurnar sýna þannig að stuðningskerfi fjölskyldna og vina er mjög mikilvægt. Í ljósi þess verður að telja brýnt að fræðsla um ofbeldi gegn konum nái til alls almennings. Almennt er talið að fyrstu viðbrögð fjölskyldu og vina geti haft mikil áhrif á hvernig mál þróast í framhaldi af ofbeldisverki.

Í níunda lagi sýna niðurstöður þessarar könnunar að engar einfaldar skýringar virðast vera fyrir hendi á heimilisofbeldi. Fjárhagslegt og félagslegt öryggisleysi eru þættir sem vega þar þungt. Þá vekur athygli að oftast töldu konur þær sem könnunin náði til að orsaka ofbeldis væri að leita í áfengisneyslu og afbrýðisemi maka.

Herra forseti. Ég tel mikilvægt að niðurstöður þessarar rannsóknar verði nýttar til úrbóta á þessum vettvangi og hef því þegar lagt grunn að því á vettvangi dómsmrn. hvernig við verður brugðist. Heimilisofbeldi og vandamál sem tengjast því eru margslungin og afar erfið meðferðar. Ekki síst þar sem ofbeldi í fjölskyldum á sér stað á vettvangi sem hvað erfiðast er fyrir utanaðkomandi aðila að komast inn á til að hafa áhrif --- vettvangi sem þó er sá mikilvægasti í hverju samfélagi, heimilinu sjálfu.

Á grundvelli niðurstaðna þessarar skýrslu hef ég lagt drög að því að settur verði á fót vinnuhópur sérfræðinga á sviði löggæslu. Hann mun hafa það hlutverk að fara yfir það með hvaða hætti lögregluyfirvöld standa að meðferð þessara mála og með hvaða hætti unnt er að koma við endurbótum í því sambandi. Með sama hætti verður annar vinnuhópur sérfræðinga settur á fót, er kemur til með að hafa það hlutverk að huga að meðferð þessara mála í dómskerfinu.

Mikilvægt er að menn hugi á öllum sviðum að því hvernig best verður brugðist við í ljósi þeirra staðreynda sem hér liggja fyrir. Eins og fram hefur komið er mikilvægt að upplýsingar þar um komi fram til alls almennings því að fyrstu viðbrögð fjölskyldu og aðstandenda geta oft skipt mjög miklu um framhald mála. Ég er sannfærður um að unnt er að gera margt betur á þessu sviði en nú er gert og bind því vonir við að þeir tveir starfshópar á sviði löggæslu og dómstólameðferðar geti komið fram með hugmyndir og tillögur sem leiði til raunhæfra úrbóta og betri málsmeðferðar í þeim tilvikum sem þessi mál koma upp og koma fyrir löggæsluyfirvöld og dómstóla.

Herra forseti. Ég hef þá í aðalatriðum gert grein fyrir niðurstöðum þessarar skýrslu og þeim fyrstu viðbrögðum af hálfu dómsmrn. við þessum niðurstöðum, en auðvitað er ljóst að mjög mikilvægt er að mjög ítarleg umræða og umfjöllun fari fram um þær alvarlegu niðurstöður sem í skýrslunni liggja og menn skoði hvernig unnt er að bregðast við á öðrum sviðum í þjóðfélaginu þannig að við getum reynt að vinna gegn þeim vanda sem er fyrir hendi, en ekki aðeins miða að því að bæta úrræðin þar sem við tökum á afleiðingunum.

Ég vil í lokin ítreka þakklæti mitt til þeirra sem höfðu forgöngu um það bæði hér á Alþingi að þessu máli var hreyft á sínum tíma og eins þeirra aðila sem í nefndinni unnu að gerð þessarar skýrslu sem ég tel að sé mikilvægt framlag til umræðna um mjög alvarlegt mál í okkar þjóðfélagi.