Orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis

Miðvikudaginn 05. mars 1997, kl. 14:37:41 (4212)

1997-03-05 14:37:41# 121. lþ. 85.8 fundur 340. mál: #A orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis# skýrsl, ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur

[14:37]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að vekja máls á máli þessu og þakka þá skýrslu sem lögð hefur verið fram og þeirri nefnd sem skipuð var til þess að vinna að skýrslunni. Skýrslan er reyndar ekkert gleðiefni en vekur okkur til umhugsunar um hve alvarlegt mál er hér á ferðinni og vonandi getur skýrslan orðið hornsteinn að tilraun okkar til þess að uppræta heimilisofbeldi sem er ekkert annað en gróft mannréttindabrot. Það er í raun merkilegt að í fyrsta skipti árið 1982 skuli vera gerð rannsókn hér á landi um ofbeldi í íslenskum fjölskyldum, en rannsóknina unnu þær Hildigunnur Ólafsdóttir, Sigrún Júlíusdóttir og Þorgerður Benediktsdóttir. Enn merkilegra er að Ísland og Danmörk hafa ein Norðurlandanna gert slíka rannsókn og íslenska rannsóknin er greinilega vel unnin og fjöltæk og í raun einstæð vegna þess að hún nær til allra þjóðfélagshópa.

Í skýrslunni kemur fram að fjölmargar konur eru beittar líkamlegu ofbeldi á heimilum sínum hér á landi eða samtals á milli 1.000 og 1.100 á ársgrundvelli. Oftast eru gerendur nákomnir einstaklingar. Það kemur einnig fram í skýrslunni að u.þ.b. 650 karlar eru beittir ofbeldi og það kemur einnig fram að oft á tíðum er um ókunnuga að ræða í þessum efnum. Það er erfitt að merkja andlegt ofbeldi sem að sjálfsögðu fer einnig fram á heimilum sem er líka mjög alvarlegt mannréttindabrot og það er auðvitað mannréttindabrot þar sem brotið er á körlun, konum og börnum.

Það er líka mjög erfitt að henda reiður á ástæðum ofbeldis og það er engin ein ástæða fyrir ofbeldinu, en það má benda á nokkur atriði svo sem fjárhagslegt og félagslegt öryggisleysi. Það má benda á valdabaráttu kynjanna og yfirráð einstaklinganna. Það má nefna áfengis- og fíkniefnaneyslu og það má einnig nefna streitu í þjóðfélaginu. Ég tel reyndar að ofbeldisfullar kvikmyndir og ofbeldisfullir tölvuleikir séu oft hvati að ofbeldi og geti leitt til þess að fólki þyki hreinlega eðlilegt að beita ofbeldi, jafnfráleitt sem þetta nú er. Við getum líka nefnt gildismat okkar í þjóðfélaginu. Við erum ginnkeypt fyrir dýrum og dauðum hlutum sem í raun skipta afar litlu máli þegar upp er staðið.

Við getum einnig velt því fyrir okkur hvernig við getum brugðist við ofbeldi á heimilum. Það er afar brýnt að efla forvarnir, efla fræðslu og eftirlit. Það er lán í óláni að konur leita nú gjarnan aðstoðar þegar þær verða fyrir ofbeldi og það er líka mjög brýnt fyrir okkur að kynna þessi mál í skólum landsins og bregðast við á viðeigandi hátt. Við þurfum að skapa umhverfi þar sem að einstaklingurinn finnur sig í námi og starfi.

Íslenskt þjóðfélag er um margt gott þjóðfélag en við verðum að kappkosta að uppræta heimilisofbeldi og koma þannig í veg fyrir þessi alvarlegu mannréttindabrot.