Orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis

Miðvikudaginn 05. mars 1997, kl. 15:02:27 (4216)

1997-03-05 15:02:27# 121. lþ. 85.8 fundur 340. mál: #A orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis# skýrsl, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur

[15:02]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Afnám ofbeldis gegn konum er mál sem kvennahreyfingar hafa komið á dagskrá í flestum löndum heims og á alþjóðavettvangi og Kvennalistinn hefur frá upphafi látið þessi mál til sín taka innan sem utan Alþingis.

Skýrslan um orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis sem hér er til umræðu er að flestu leyti vönduð enda unnin í kjölfar samþykkis Alþingis á þáltill. Fyrst vil ég því þakka flm. tillögunnar, þeim Svavari Gestssyni hv. þm. Alþb. og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fyrrv. þingkonu Kvennalistans, svo og hæstv. dómsmrh. fyrir skipan nefndarinnar. Nefndin hefur leyst starf sitt fagmannlega af hendi, þó að vissulega megi gagnrýna það eins og hér hefur komið fram að notuð var símakönnun um svona viðkvæm mál. Einnig má gagnrýna að ofbeldi gagnvart börnum fær mjög litla umfjöllun og er í raun sleppt enda er stuðst við þá skilgreiningu á heimilisofbeldi að það sé ofbeldi sem konur og karlar verða fyrir af hálfu núverandi eða fyrrverandi maka hvort sem þau eru hjón eða sambýlisfólk. Skilgreiningin tekur ekki til ofbeldis gegn börnum, kynferðislegrar misnotkunar á börnum eða annars konar ofbeldis sem getur átt sér stað inni á heimilum eða milli fjölskyldumeðlima. Niðurstöður skýrslunnar og rannsóknarinnar staðfesta það sem mörg okkar vissu áður og kom m.a. fram í könnun hér á Íslandi frá 1982 að heimilisofbeldi viðgengst á Íslandi sem víðar og virðist umfang þess vera svipað og í Danmörku. Niðurstöðurnar, sem byggðar eru á stóru úrtaki sem endurspeglar fólk af öllu landinu á aldrinum 18--65 ára, sýna að á síðastliðnu ári eins og hér hefur komið fram má gera ráð fyrir að 1.100 konur hafi mátt þola ofbeldi af hálfu maka eða fyrrverandi maka, þar af hafa 750 þeirra búið við endurtekið ofbeldi. Þá er athyglisvert að 650 karlar hafa verið beittir ofbeldi af hendi maka eða fyrrverandi maka á síðasta ári en síður kemur á óvart að karlar verða mun meira fyrir ofbeldi af hendi ókunnugra utan heimilis en konur. Þá vekur sú niðurstaða óhugnað að 4,5% kvenna höfðu orðið fyrir nauðgun og að einungis sjöunda til áttunda hver kona kærir verknaðinn til lögreglu enda þekktu þær ofbeldismanninn í 80% tilfella.

Virðulegi forseti. Á þeim stutta tíma sem hér er til umræðu er ekki hægt að fjölyrða um áhrif heimilisofbeldis á ofbeldisþolana hvort sem þeir eru börn eða fullorðnir. Samkvæmt þessari könnun eru algengustu viðbrögðin tortryggni í garð annarra, kvíðaköst, erfiðleikar við að tengjast öðrum, reiði, dvínandi sjálfstraust og svefntruflanir. Þá nefna um 15% kvenna að þær leiti í áfengi til að takast á við reynslu sína og önnur 15% nefnda lyfjanotkun.

Þær skýringar sem notaðar eru í skýrslunni má flokka í fjóra þætti. Í fyrsta lagi er nefnt ofbeldi sem afleiðing ofbeldis í æsku sem er auðvitað mjög umhugsunarvert og áréttar mikilvægi þess að koma í veg fyrir ofbeldi til að það endurtaki sig ekki í næstu kynslóð. Í öðru lagi ofbeldi sem afleiðing ölvunar. Í þriðja lagi ofbeldi sem afleiðing valdatogstreitu og sem tæki til yfirráða sem hv. þm. Kristín Halldórsdóttir gerði að sérstöku umræðuefni áðan en þar endurspeglast mjög mismunandi valdahlutföll kynjanna. Og í fjórða lagi þá er talað um ofbeldi sem afleiðingu fátæktar, atvinnuleysis og streitu. Konurnar sjálfar, í þessari könnun, skýra ofbeldið mest með áfengisnotkun, afbrýðisemi, skilnaði eða ágreiningi um fjármál og/eða börn.

Ein ánægjuleg niðurstaða er í þessari skýrslu og hún er sú hve margar konur leita sér aðstoðar, eða allar nema tólf. Þetta bendir til að konur sem á annað borð viðurkenna að hafa orðið fyrir ofbeldi reyna ekki lengur að fela það eins og margar eldri rannsóknir sýna. Og hér hefur komið fram að konurnar leita til mjög margra aðila en mesta ánægjan er með þá aðstoð sem þær fá í kvennaráðgjöfinni, Kvennaathvarfinu, á slysadeild og með stuðning vinanna. Það hefur komið fram að konurnar eru síst ánægðar með aðstoð lögreglu, lögfræðinga og félagsmálastofnunar sem bendir til að þessir aðilar þurfi að taka sig sérstaklega á. En tilgangur svona skýrslu hlýtur auðvitað fyrst og fremst að vera sá (Forseti hringir.) að koma með úrbætur. Í þeim tilgangi höfum við kvennalistakonur lagt fram tillögu sem er umfangsmikil og ég hef því miður ekki tíma til að gera grein fyrir nánar í þessari ræðu en það mun verða gert hér á eftir.