Minning Eyjólfs Konráðs Jónssonar

Mánudaginn 10. mars 1997, kl. 15:08:16 (4221)

1997-03-10 15:08:16# 121. lþ. 86.1 fundur 231#B minnst látins fyrrverandi alþingismanns#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur

[15:08]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Nú verður minnst látins fyrrverandi alþingismanns.

Eyjólfur Konráð Jónsson, lögfræðingur og fyrrverandi alþingismaður, andaðist fimmtudaginn 6. mars. Hann var 68 ára að aldri.

Eyjólfur Konráð Jónsson var fæddur í Stykkishólmi 13. júní 1928. Foreldrar hans voru hjónin Jón Eyjólfsson kaupmaður þar og síðar í Reykjavík og Sesselja Konráðsdóttir, húsmóðir og skólastjóri. Hann lauk stúdentsprófi í Verslunarskóla Íslands 1949 og lögfræðiprófi í Háskóla Íslands 1955. Héraðsdómslögmaður varð hann 1956 og hæstaréttarlögmaður 1962.

Eyjólfur Konráð Jónsson var einn af frumkvöðlum að stofnun Almenna bókafélagsins og hlutafélagsins Stuðla árið 1955, var fyrsti framkvæmdastjóri þeirra og jafnframt ritstjóri Fréttabréfs Almenna bókafélagsins. Árið 1960 lét hann af störfum hjá Almenna bókafélaginu og varð einn af fjórum ritstjórum Morgunblaðsins. Því starfi gegndi hann til ársloka 1974. Við alþingiskosningarnar 1967 og 1971 var hann í kjöri á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi vestra og tók 18 sinnum varamannssæti á Alþingi þau kjörtímabil, ýmist í stað þingmanna kjördæmisins eða landskjörinna þingmanna flokksins. Árið 1974 hlaut hann kosningu í kjördæminu, var þingmaður Norðurlands vestra 1974--79 og 1983--87 og landskjörinn þingmaður 1979--83. Síðan var hann þingmaður Reykvíkinga 1987--95, sat á 31 þingi alls. Jafnframt þeim störfum, sem hér hafa verið talin, rak hann árum saman með öðrum lögfræðingum málflutningsskrifstofu í Reykjavík frá árinu 1956.

Eyjólfur Konráð Jónsson hóf ungur að árum afskipti af stjórnmálum. Hann var flugmælskur og vel ritfær, barðist af eldmóði fyrir stefnumálum flokks síns og eigin hugðarmálum í ræðu og riti, meðal annars í fjölda blaðagreina. Hann var ötull talsmaður einkaframtaks í atvinnurekstri og stofnunar opinna almenningshlutafélaga. Lengi var hann stjórnarformaður umsvifamikils fiskeldisfyrirtækis. Hann fjallaði um efnahagsmál, var um tíma formaður fjárhagsnefndar efri deildar. Utanríkismál voru eitt af helstu áhugasviðum hans og var hann um nokkur ár formaður utanríkismálanefndar. Hann var kosinn í Evrópustefnunefnd 1988, var formaður hennar frá 1989. Í þingmannanefnd Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, var hann 1991--95 og í þingmannanefnd Evrópska efnahagssvæðisins 1994--95. Afskipti hafði hann af hafréttarmálum, átti sæti á hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á árunum 1976--1982. Hann sótti fast að Íslendingar gættu fyllsta réttar síns til hafsvæðanna á landgrunninu. Hann var stefnufastur stjórnmálamaður og drenglyndur hugsjónamaður.

Ég bið háttvirta alþingismenn að minnast Eyjólfs Konráðs Jónssonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]