Eignarréttur og afnotaréttur fasteigna

Mánudaginn 10. mars 1997, kl. 15:13:52 (4227)

1997-03-10 15:13:52# 121. lþ. 86.4 fundur 218. mál: #A eignarréttur og afnotaréttur fasteigna# (EES-reglur) frv., Frsm. SP
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur

[15:13]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 696 frá allshn. sem hefur fjallað um 218. mál þingsins, frv. til laga um breyting á lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19/1996. Fékk nefndin á sinn fund vegna málsins Benedikt Bogason frá dóms- og kirkjumrn.

Frv. þetta leiðir af samþykkt samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, en lögunum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna var breytt á árinu 1993 í þeim tilgangi að aðlaga þau að ákvæðum samningsins. Frv. þetta felur í sér enn frekari aðlögun að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið þannig að ákvæði 2. tölul. 4. mgr. 1. gr. laganna um að ekki þurfi að afla leyfis dómsmrh. til réttinda yfir fasteign taki til þeirra sem njóta réttar samkvæmt reglum samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga auk reglna um frjálsa fólksflutninga, staðfesturétt og þjónustustarfsemi.

[15:15]

Á 120. löggjafarþingi voru gerðar breytingar á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri með það fyrir augum að rýmka reglur um fjárfestingu erlendra aðila innan Evrópska efnahagssvæðisins til samræmis við ákvæði EES-samningsins.

Í 4. gr. þeirra laga er vísað til laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna og segir að erlendum aðilum sé heimilt að öðlast eignarrétt og afnotarétt yfir fasteign til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni samkvæmt ákvæðum þeirra laga. Ákvæðum laganna um eignarrétt og afnotarétt fasteigna var hins vegar ekki breytt samtímis og er þetta frv. því fyrir þinginu nú.

Allshn. mælir með samþykkt frv. með einni breytingu en hún snýr að leiðréttingu ártals í heiti frv. en það misritaðist í tölvuvinnslu. Undir nál. skrifa Sólveig Pétursdóttir, Jón Kristjánsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Árni R. Árnason, Svanhildur Kaaber, Kristján Pálsson og Guðný Guðbjörnsdóttir.