Aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun

Mánudaginn 10. mars 1997, kl. 15:45:42 (4230)

1997-03-10 15:45:42# 121. lþ. 86.8 fundur 298. mál: #A aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun# þál., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur

[15:45]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Fjölmargar kannanir og rannsóknir hafa á undanförnum árum staðfest svo ekki verður lengur um villst að ofbeldi í þjóðfélaginu hefur aukist svo um munar. Vekja þar sérstaka athygli árásir ýmsar sem virðast vera algjörlega tilefnislausar þar sem t.d. er ráðist að fólki þar sem það gengur á götunni og því misþyrmt alvarlega og engin tengsl finnast á milli árásarmanna og fórnarlambs. Stundum er þarna um fullorðið fólk að ræða en það sem hefur vakið athygli okkar margra sem höfum lengi starfað við kennslu barna og ungmenna er hversu ofbeldi í samskiptum barna virðist hafa aukist.

Auðvitað hefur það alltaf tíðkast að krakkar væru að tuskast eitthvað, en okkur sem með þessu höfum fylgst hefur óað við hvernig þróunin hefur verið í þessum efnum. Þau virðast oft vera að herma eftir einhverjum áflogatilburðum sem þau sjá í sjónvarpi en þekkja ekki sín takmörk þannig að stundum endar þetta með umtalsverðum meiðslum. Oft verða þau börn sem lenda í svokölluðu einelti í alvarlegum vandræðum því innan hópsins virðist það vera smám saman viðtekin skoðun að þau eigi allt illt skilið.

Ég veit að margir skólar hafa reynt að bregðast við þessu hegðunarmynstri með því að verja tíma í að taka fyrir samskipti milli fólks og ræða málin frá grunni og telja sumir sig hafa náð nokkrum árangri. En þetta starf hefur yfirleitt ekki verið nógu markvisst og alls ekki náð til allra nemenda, enda er það ekki alltaf vinsælt að skólinn sé að taka tíma frá öðrum námsgreinum sem mörgum finnst mikilvægari, til slíkra hluta.

Það er ljóst að einhvers staðar verður að taka á þessu efni í kerfinu því að þróunin er vissulega uggvænleg. Ofbeldi í öllum hugsanlegum myndum flæðir yfir börn í sjónvarpi, úr myndbandstækjum, í tölvuleikjum, á internetinu og svo mætti lengi telja. Jafnvel þó margir foreldrar reyni að vernda börn sín eftir mætti gegn slíku efni þá er uppeldi barna okkar með þeim hætti í okkar önnum kafna þjóðfélagi að þau ganga oft ein og sjálfala stóran hluta dagsins og það er því miður allt of algengt að þau sem þannig er ástatt um safnist saman hvort heima hjá öðru þar sem enginn fullorðinn er til eftirlits og séu þar að skoða efni sem vægast sagt er ekki við hæfi barna af ýmsum ástæðum og þar á meðal er gróft ofbeldi.

Ofbeldisefni í sjónvarpi virðist ekki síst höfða til þeirra sem finnst þeir sjálfir standa höllum fæti og dreymir um að ná tökum á aðferðum sem gera þá sjálfa ósnertanlega.

Við Íslendingar erum síður en svo einir um að hafa áhyggjur af þessari þróun mála. Hún hefur orðið um allan heim og er vandséð með hvaða ráðum er hægt að koma í veg fyrir að þau börn og unglingar sem kannski síst mega við því komist í slíkt efni sem flýtur yfir allt. En við tillögumenn trúum því samt að hægt sé að draga úr þessu með samræmdum aðgerðum af hálfu yfirvalda og leggjum því til í tillögu okkar sex mikilvæg atriði sem mundu vissulega verða til úrbóta í þessum málum ef eftir væri farið.

Sjöundi liður í þessum tillögum er um fræðslustarf þar sem foreldrar jafnt og börn eru hvattir til að virða aldurstakmörk og þar sem hvatt er til fræðslu. Ég held að með því að gera foreldra meðvitaðri um hættuna sem börnum þeirra stafar af slíku efni og að byggja foreldra og kennara þannig upp að þeir geti jafnvel farið í gegnum slíkt myndband með börnum og sýnt þeim fram á hve fjarri slíkt efni er raunveruleikanum, hversu mikil fjarstæða það er að ofbeldi geti leitt af sér einhvers konar uppreisn einstaklingsins í samfélaginu og aflað honum virðingar sem hann hefur ekki öðlast á annan hátt. Ég tel að nú sé lag þegar verið er að endurskoða námskrár fyrir grunn- og framhaldsskóla að koma fyrir þeim mikilvæga þætti sem samskiptanámið er og ætla því stað í námsferlinu, útbúið verði vandað námsefni og kennarar verði þjálfaðir þannig að tryggt sé að allir nemendur fari í gegnum það í sínu skyldunámi með fólki sem er til þess hæft.

Það hefur raunar lengi verið eitt mikilvægasta hlutverk grunnskólans að byggja fólk upp svo það verði hæfara til að takast á við lífið og velja og hafna. Mikilvægi þess hlutverks hefur svo sannarlega vaxið á undanförnum árum og þótt margt sé þar vissulega vel gert þá er alltaf hægt að bæta um betur.