Aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun

Mánudaginn 10. mars 1997, kl. 15:51:20 (4231)

1997-03-10 15:51:20# 121. lþ. 86.8 fundur 298. mál: #A aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun# þál., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur

[15:51]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun og framboði ofbeldisefnis. Ég vil þakka flutningsmönnum fyrir þessa tillögu og ekki síst fyrir fróðlega og ítarlega greinargerð þar sem m.a. er vitnað í skýrslu umboðsmanns barna um ofbeldi í sjónvarpi. Ýmsar fróðlegar upplýsingar komu þar fram, m.a. um kenningar um ofbeldi og ýmsar niðurstöður á rannsóknum á áhrifum ofbeldis í sjónvarpi á börn.

Ég er fylgjandi því að þessi tillaga fái hér framgang þó að það sé álitamál hvað boð og bönn geta haft mikil áhrif annars vegar og hins vegar að hve miklu leyti verður að höfða til fræðslu og sterkari siðferðiskenndar og meðvitundar foreldra og uppeldisaðila.

En það er einkum eitt sem ég sakna í þessari tillögu og vil þess vegna spyrja hv. flm. Sjónum virðist aðallega, herra forseti, vera beint að sjónvarpsefni og efni á interneti og öðru slíku, en þó er einnig talað um ofbeldisefni í bókum, blöðum og tímaritum. Það sem ég sakna helst er umræða um klám og kynferðisofbeldi sem mér finnst ekki vera tekið sérstaklega á í greinargerðinni, en þess má geta að undanfarna daga eða undanfarnar vikur hafa verið ákaflega fróðleg málþing í gangi í þjóðfélaginu um kynferðisofbeldi og m.a. um klám og hvernig orsakasamband er talið vera þar á milli. Samkvæmt íslenskum lögum er innflutningur og dreifing á klámi bannað. En klámrit eru seld hérna á öllum bensínstöðvum eins og hver önnur nauðsynjavara þannig að það virðist ljóst að þessi lög eru ekki virk og maður getur velt því fyrir sér hvers vegna sum lög eru virk í okkar þjóðfélagi og önnur ekki.

Þess vegna vil ég spyrja flutningsmenn hvort þeir skilji það ekki sem svo að klám sé hluti af ofbeldisefni og hafi náin tengsl við kynferðisofbeldi. Einnig er athyglisvert að velta fyrir sér í sambandi við klámið að það er hægt að kaupa og fá leigðar vídeóspólur og annað slíkt á annarri hverri vídeóleigu og það virðist eins og almenningur láti sig þetta engu varða, þetta bara viðgengst. Það hefur komið fram á áðurnefndum málþingum að úti í þjóðfélaginu virðist vera að eiga sér stað ákveðin hækkun á þröskuldi þess sem fólk þolir. Sumir nota hugtakið ,,normalísering`` yfir þá þróun. Það standa svo öflug hagsmunaöfl að baki hvort heldur er eiturlyfjamarkaðarins, vændismarkaðarins eða klámefnismarkaðarins að það er að verða viðtekið að þetta sé allt saman ,,normal`` og bara hluti af lífinu með þessum miðlum öllum. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að fólk sé á verði, ekki síst kennarar og uppalendur. Hinn almenni sjónvarpsnotandi láti þá sem stýra stöðvunum sjá að hann skrifar í blöðin, að hann kærir bóksala eftir því um hvað er að ræða. Þetta er orðið alveg óþolandi og það eru fjöldamargar rannsóknir sem sýna tengsl þarna á milli og eitthvað verður að gera.

Hæstv. forseti. Það er ekki mikið fleira sem ég ætla að segja hér vegna þess að greinargerðin er ítarleg og tillaga er mjög góð að mínu mati.

En vegna umræðunnar um internetið er minnt á að það er ekki lengra síðan en um tveir mánuðir að mig minnir að hegningarlögunum var breytt, en þá varð mjög mikil umræða um það hvort hægt væri að banna t.d. klám á internetinu og það var ekki talið vera tæknilega mögulegt þá. En núna virðist ýmislegt að gerast tæknilega, alla vega er hægt að biðja viðkomandi aðila sem sjá um tengingar inn á internetið að sleppa slíku efni, fyrir utan virkt eftirlit notendanna sjálfra, fara inn á heimasíður og benda á að svona efni viðgangist ekki. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög stutt í að Alþingi verði eitthvað að koma nálægt þessu máli með internetið á einn eða annan hátt.

Ég vil aðeins að lokum fagna þessari tillögu og um leið árétta og það verði athugað mjög vel að hve miklu leyti hægt sé að taka á þessu máli annars vegar með því að gera fólk meðvitað og notendur virka og gagnrýna eða hins vegar banna efni ofan frá.