Aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun

Mánudaginn 10. mars 1997, kl. 15:57:39 (4232)

1997-03-10 15:57:39# 121. lþ. 86.8 fundur 298. mál: #A aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun# þál., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur

[15:57]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hefur orðið um tillöguna þó hún hefði mín vegna mátt vera meiri og t.d. hefði einhver fulltrúi tíu manna hæstv. ríkisstjórnar mátt vera viðstaddur í salnum. Það er svona heldur hvimleitt þrátt fyrir allt að það er að verða regla hér en ekki undantekning, herra forseti, að hæstv. ráðherrar spýtast úr salnum um leið og þeir eru búnir að greiða atkvæði í upphafi fundar ef svo ber undir og spurning hvort ekki verður að fara að veita eitthvert aðhald í þeim efnum.

Ég vil aðeins segja vegna þess sem síðasti ræðumaður, Guðný Guðbjörnsdóttir hv. 19. þm. Reykv., gerði að umtalsefni, að tillagan gengur út frá þeirri skilgreiningu á hugtakinu ofbeldi að það sé nánast í sinni víðtækustu mynd og að sjálfsögðu falli þar með kynferðislegt ofbeldi gagnart börnum eða hverjum sem er undir ofbeldishugtakið í þessu efni. Það er einnig vísað í ákvæði í greinargerð, t.d. í ákvæði laganna um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum og það er vísað í ákvæði laga um vernd barna og ungmenna. Í framsöguræðu minnti ég á ákvæði samkeppnislaganna um auglýsingar og vernd barna og ungmenna fyrir óæskilegum áhrifum og innrætandi áhrifum í auglýsingum. Í öllum þessum lögum er ofbeldi, ef svo má að orði komast, lagt að jöfnu eða notað í mjög víðtækri merkingu. Það er ljóst. Ég held t.d. að enginn geti lesið 22. gr. samkeppnislaganna öðruvísi en þannig að hún taki til ofbeldis í sinni víðtækustu mynd í hvaða formi sem það er og til óæskilegra áhrifa af hvaða tagi sem er á börn og unglinga þar sem þau eru viðkvæm fyrir. Það er a.m.k. minn skilningur að að sjálfsögðu eigi að skoða þessi mál á þeim grunni.

Reyndar má segja að löggjöfin geri þó með vissum hætti eins og kunnugt er eftir talsverðar umræður hér á þingi í fyrra og aftur nú í vetur, nokkurn greinarmun þarna á þar sem hún er auðvitað sem eðlilegt er strangari að breyttu breytanda þegar í hlut á klám eða kynferðislegt ofbeldi.

[16:00]

Varðandi internetið í öðru lagi eða tölvuheiminn sem slíkan þá er það vissulega hárrétt hjá hv. þm. að miklar umræður hafa orðið um bæði tæknilega og e.t.v. pólitíska eða viðskiptalega möguleika á því að setja þar einhverjar reglur. Þeirri skoðun hefur oft verið haldið fram að þetta sé heimur þess eðlis að þar þýði hvorki né eigi að vera að hugsa um eða ræða að setja nein bönn eða yfirleitt neinar leikreglur, því verði ekki við komið. En ég hygg að þar séu vindar nokkuð að snúast. Mikil umræða er núna í sumum nágrannalöndunum, þó að lítið fari fyrir henni hér enn þá, um að það sé að verða sjálfu netinu og öllum þessum samskiptum fyrir bestu að menn snúi við blaðinu og fari að setja skýrar leikreglur, ósköp einfaldlega vegna þess að það ber orðið svo mikið á misnotkun á netinu sem saklaus fórnarlömb verða fyrir við núverandi leikreglur, eða núverandi frelsi ef svo má að orði komast. Fleiri og fleiri eru farnir að hafa mikinn fyrirvara á um notkun sína á netinu eða þátttöku inni á því vegna dæma um að saklausir aðilar verða fyrir því að nafn þeirra er ranglega notað eða bendlað við hluti sem þeir kæra sig ekkert um og því draga þeir sig þar með út úr viðskiptum á þessu sviði. Á því hafa rekstraraðilarnir, sölumennirnir, að sjálfsögðu ekki áhuga þannig að meðal þeirra er nú komin af stað umræða um að sjálfri framtíð netsins sé það fyrir bestu að farið verði að breyta um stefnu og beita takmörkunum.

Ég heyrði nýlega í Finnlandi allsvakaleg dæmi um það hvernig jafnsaklausir aðilar og almenningsbókasafn í Svíþjóð hefðu orðið fyrir því að nafn þeirra var misnotað og efni sent út í þeirra nafni eða þeir tengdir við efni af verstu sort, sem þeir höfðu að sjálfsögðu hina megnustu skömm á og kærðu sig ekki um. Það leiddi til þess að í viðkomandi fylki var tekin ákvörðun um að draga þessa aðila út af netinu til þess að fyrirbyggja að slíkir hlutir gerðust oftar.

Auðvitað má ræða alla þessa hluti, hvort boð og bönn, eða það sem sumir kalla nú og hrópa ritskoðun, um leið og rætt er um svo mikið sem að setja einhverjar reglur um þessa hluti, séu líkleg til árangurs, eða hvað er árangursríkast í þessum efnum. Ég get tekið undir það sem hér kom fram hjá þeim sem töluðu að fræðsla, upplýsingar og umræður um þessi mál eru ákaflega mikilvæg og kannski árangursríkasta aðferðin til þess að vekja þá meðvitund um hlutina sem við þurfum fyrst og fremst á að halda. En reglur getum við sett okkur af ýmsum toga, sem ættu að vera til bóta þó að við gerum okkur kannski ekki miklar vonir um að við Íslendingar einir og sér getum haft mikil áhrif á hvaða stefnu þessi mál taka í heiminum. En þó er það alveg augljóst mál að leikreglur á þessu sviði verða til umræðu á alþjóðavettvangi á komandi árum og eru það nú þegar. Þar eigum við ekki að vera skoðanalaus, eða hvað? Ég tel að við eigum öll, Íslendingar sem þjóð og við sem þingmenn og hvar sem við komumst að þessum málum, að reyna að hafa einhverja meðvitaða og uppbyggilega skoðun fram að færa og reyna að leggja okkar lóð á réttar vogarskálar í þessum efnum. Við höfum mjög víða tækifæri til þess að láta í okkur heyra. Ég nefni sem dæmi norrænt samstarf og Norðurlandaráð og alla þá samvinnu. Þar er mikil umræða um þetta og þetta bar á góma á nýafstaðinni menningarráðstefnu Norðurlandaráðs í Ósló þar sem ýmsir tengdu saman tæknibyltinguna, upplýsingabyltinguna, stöðu málsins, menningarinnar og ástandið í samfélögunum, þar á meðal ofbeldi og ýmsa slíka hluti.

Það var auðvitað mjög fróðlegt, herra forseti, að heyra mat reyndra kennara á því hvernig þessi mál hafa verið að þróast innan grunnskólans. Ég held að það liggi í hlutarins eðli að þessi mál snúa ekki síst að börnunum og uppeldisstarfinu, bæði vegna þess sem þar fer fram og líka vegna þess að þar er framtíðin að myndast. Það hlýtur að vera keppikefli okkar að reyna að vinna á þeim vettvangi þannig að samfélagið í framtíðinni geti orðið manneskjulegt og ánægjulegt að búa í.

Ég ítreka þakkir mínar, herra forseti, fyrir þær undirtektir sem tillagan hefur fengið.