Kynslóðareikningar

Mánudaginn 10. mars 1997, kl. 16:28:42 (4235)

1997-03-10 16:28:42# 121. lþ. 86.9 fundur 299. mál: #A kynslóðareikningar# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur

[16:28]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hér er hreyft góðu máli og ég vil þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir framsögu hans í málinu. Í öllum samfélögum eru í gildi ákveðin óskrifuð siðalögmál sem nefnd hefur verið kynslóðasamningur. Hann felst í því að ég el upp mín börn og el önn fyrir þeim en í staðinn lofa þau að ala önn fyrir mér þegar ég er orðinn gamall og óstarfhæfur. Þetta hefur verið nefnt kynslóðasamningurinn og í sinni frumstæðustu mynd sjáum við hann auðvitað hjá stórfjölskyldunni í vanþróuðum þjóðfélögum þar sem gamla fólkið fær pláss við eldstóna og gætt er að hagsmunum barnanna. Það er í reynd hinn vinnandi maður sem sér bæði um komandi og síðustu kynslóð.

Með iðnbyltingunni raskaðist stórfjölskyldan og menn urðu að leysa þessi mál öðruvísi, t.d. með alþýðutryggingum, með lífeyrissjóðum og með alls konar lögum og reglum til að gæta hagsmuna barna og hinna öldruðu.

[16:30]

Herra forseti. Þær skuldbindingar sem við lifum við í dag verða sífellt ógagnsærri. Það verður sífellt erfiðara og erfiðara að átta sig á skuldbindingum, réttindum og jafnvel eignum. Menn eiga eignir í hlutabréfum eða verðbréfum og menn eiga eignir í lífeyrissjóðum. Þetta er orðið ákaflega ógagnsætt og erfitt að átta sig á hvað er í rauninni skuldbinding, hvar eru eignir og hvar eru skuldir. Dæmi um þetta er halli ríkissjóðs, raunverulegur og sýndur. Við afgreiðum fjárlög hér á hverju ári en þau sýna ekki nema brot af vandanum. Þau hafa verið afgreidd með miklum halla án þess að menn risu upp til handa og fóta og segðu að þetta væri ekki hægt.

Halli ríkissjóðs er ekkert annað en skattar framtíðarinnar. Og skuldir ríkissjóðs, sem nú eru orðnar það miklar að vaxtagreiðslur vegna þeirra skulda eru orðnar jafnmiklar og allur tekjuskattur Íslendinga, er ekkert annað en halli undangenginna ára og þetta er bara sýndur halli. Við erum ekki búin að taka inn í dæmið t.d. lífeyrisskuldbindingar. Fyrir áramót afgreiddum við lög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem byggði á samkomulagi sem hæstv. fjmrh. gerði við opinbera starfsmenn. Þegar áfallnar skuldbindingar vegna lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna eru 4.000 millj. á ári í 40 ár. Þetta er þegar áfallið. Þetta er velferðarkerfi fortíðarinnar, ekki framtíðarinnar og ekki einu sinni nútíðarinnar. Þetta er velferðarkerfi fortíðarinnar sem á eftir að greiða. Þetta er ein af þessum duldu skuldbindingum sem menn hafa tekið á sig.

Ég lagði fram í þeirri umræðu brtt. um að reikna iðgjaldið. Það var kolfellt hér á hinu háa Alþingi. Ég held að hver einasti þingmaður hafi greitt atkvæði gegn því að reikna út þessa skuldbindingu. Brtt. fólst ekki í öðru en að reikna út hver skuldbindingin er orðin. Það mátti ekki. Það gleður mig því mjög að sjá þessa tillögu til þingsályktunar um að nú skuli fara að reikna alls konar svona skuldbindingar.

En það kemur fleira til. Inn í þessa mynd koma jákvæðir hlutir eins og eignir lífeyrissjóðanna sem eru 2 millj. kr. á hvern vinnandi mann. Það koma inn í þetta sameiginlegar eignir þjóðarinnar, t.d. Landsvirkjun, og fjöldinn allur af opinberum fyrirtækjum sem eru eignir sem þjóðin á sameiginlega. Það koma líka eignir einstaklinga sem komandi kynslóðir munu erfa og þær eru í síauknum mæli að erfa eignir. Það kemur margt fleira til, t.d. menntun. Menntun er fjárfesting til framtíðar og við höfum því miður, að mínu mati, vanrækt þá fjárfestingu. En hún er líka eign komandi kynslóða. Ný tækni mun bæta stöðu nýrra kynslóða og svo velferðarkerfið sem við höfum byggt upp og við verðum að standa vörð um.

Herra forseti. Sem dæmi um ógagnsæar skuldbindingar, sem erfitt er að henda reiður á, er ákvörðun ávöxtunarkröfu við útreikninga á stöðu lífeyrissjóða. Ef notaðir eru háir vextir eins og 7% þá mætti hækka lífeyri hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna t.d. um sennilega 50, 60 eða 100%. Það mætti hækka lífeyri til núverandi lífeyrisþega bara við það eitt að nota 7% ávöxtunarkröfu. Ef hins vegar væri notuð 1% ávöxtunarkrafa þyrfti að skerða þennan sama lífeyri. Þannig að ákvörðun um ávöxtunarkröfu í útreikningum getur orðið ásteytingarsteinn og bitbein kynslóða og mun væntanlega verða það í framtíðinni. Þetta er bara dæmi um hvað það er erfitt og ógagnsætt að reikna út þessar skuldbindingar.

Eins og kom fram hjá 2. þm. Vesturl., Sturlu Böðvarssyni, er þegar verið að vinna að slíkum kynslóðareikningum hjá ríkisstjórninni. Samband ungra sjálfstæðismanna hefur sömuleiðis ályktað um að slíkir útreikningar skuli framkvæmdir þannig að þetta mál er mjög víða í umræðunni.

Að sjálfsögðu eru slíkir útreikningar alltaf spá og byggja á ákveðnum forsendum sem menn verða að gefa sér. Þeir verða aldrei sterkari heldur en forsendurnar sem þeir byggja á. Hins vegar verða menn að horfa til þess, og það er rétt hjá hv. þm., framsögumanni þessarar tillögu, að það er mjög mikilvægt að horfa til þess hvernig við erum að skattleggja komandi kynslóðir með t.d. hallarekstri ríkissjóðs í dag. Hvað er þol skattgreiðenda til að borga síaukna skatta mikið? Hvenær segja þeir: Nei takk! Um leið og við pössum að fara ekki fram úr skattlagningarþoli komandi kynslóða erum við líka að standa vörð um að núverandi velferðarkerfi fái staðist. Þess vegna er mjög mikilvægt að slíkir útreikningar séu framkvæmdir. Ég tek heils hugar undir að þeir verði framkvæmdir til þess að gæta þess að kollkeyra ekki velferðarkerfið.

Það eru ekki bara skattar sem við þurfum að horfa á. Við þurfum líka að horfa á skuldir og greiðslur af skuldum. Það veldur óneitanlega miklum áhyggjum hvað skuldsetning heimilanna hefur farið hraðvaxandi undanfarin ár. Það eru peningar og fjármunir sem þarf að greiða til baka. Það kemur líka niður á næstu kynslóð. Það hangir saman við það, að mínu mati, að í skattalögunum er hreinlega hvatning til að skulda sem er vaxtabótakerfið. Það er hreinlega hvatning til ungs fólks og raunverulega til allra að skulda sem mest. Það er því ekki bara nóg að líta á skatta.

Það er mjög mikilvægt að gæta þess að ekki verði óeðlilegar tilbúnar sveiflur á högum kynslóðanna. Í því sambandi má nefna ,,verðbólgukynslóðina``. Þegar verðbólgan var sem mest og vextir neikvæðir voru fluttir óhemjumiklir fjármunir frá einni kynslóð til annarrar, frá sparifjáreigendum, gamla fólkinu, til þeirra sem skulduðu, þ.e. þeirra sem voru á virkum aldri, vinnandi, sem er akkúrat öfug tilfærsla við það sem hér er verið að tala um. Það er því mjög mikilvægt að reikna út væntanlegar skuldbindingar vegna skattlagningar og annars slíks. Ég tek sem sagt heils hugar undir þessa tillögu um að teknir verði upp kynslóðareikningar.