Kynslóðareikningar

Mánudaginn 10. mars 1997, kl. 16:37:53 (4236)

1997-03-10 16:37:53# 121. lþ. 86.9 fundur 299. mál: #A kynslóðareikningar# þál., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur

[16:37]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um kynslóðareikninga sem flutt er af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og Ögmundi Jónassyni. Ég vil byrja á að láta í ljós ánægju mína, eins og aðrir sem hér hafa talað, með þessa tillögu. Um leið vil ég gera nokkrar athugasemdir og beina fyrirspurnum til 1. flm.

Það hefur komið fram í máli flestra sem hér hafa talað að íslensk stjórnmál einkennast ekki síst af því hve oft er litið til skamms tíma. Ég man eftir því að fyrir nokkrum árum flutti ég fyrirspurn um það hér í þinginu hvort ekki væri hægt að gera fjárlög til þriggja ára og það fundust auðvitað ýmsir annmarkar á því en ég fagna því ef það er hugmyndin að fara að gera í meira mæli rammafjárlög til lengri tíma. Það má segja, eins og kom fram áðan í máli hv. þm. Sturlu Böðvarssonar, um ástandið í Bandaríkjunum að það er mjög mikilvægt að Alþingi komi að svona máli, það sé ekki bara framkvæmdarvaldið. Því ef ástandið er þannig í Bandaríkjunum, eins og fram kom í máli hv. þm., að útlit sé fyrir að komandi kynslóðir í Bandaríkjunum eigi ekki möguleika á sömu lífskjörum og núverandi kynslóðir vegna fjárlagahalla o.s.frv., má velta því fyrir sér hvort það séu hagsmunir framkvæmdarvaldsins að uppfræða fólk um það. Ég held að það sé alveg ljóst að það verða að vera einhverjir aðrir aðilar en þeir sem eru við völd hverju sinni sem sjá um að uppfræða fólk og veita ríkisstjórnum aðhald í þessum efnum. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að Alþingi komi að svona máli og það verði falið óháðri stofnun, t.d. Þjóðhagsstofnun sem auðvitað er ekki alveg óháð stofnun eða einhverri annarri óháðri framkvæmdarvaldinu hverju sinni sem bæði gerir svona útreikninga og uppfræðir almenning um stöðu mála.

Ég vil gera annað atriði að umtalsefni. Ég skil þessa tillögu þannig að fyrst og fremst sé verið að beina athyglinni að efnahagsmálum og sköttum í víðri merkingu, samanber ræðu hv. síðasta ræðumanns. Ég vil þó minna á að það má auðvitað hugsa sér að mun fleiri málaflokkar kæmu þarna undir, samanber hugtakið sjálfbær þróun sem skírskotar til þess að þjóðir skili náttúruauðlindum og landi í því horfi til komandi kynslóða að það verði ekki í verra ástandi en hjá núverandi kynslóðum. Ég held t.d. að það sé til lítils að vera að hafa áhyggjur af því árið 2040 að sú kynslóð sem þá er að vaxa úr grasi geti ekki haft það efnahagslega nógu gott ef við erum búin að eyðileggja andrúmsloftið með koltvísýringsmengun og höfum ekki hugleitt hvort loftið á jörðinni verði lífvænlegt. Það er augljóslega svo margt fleira en skatta- og efnahagsmál sem skipta þarna máli, ekki síst náttúruauðlindirnar, mengunarmálin og menntamálin. Ég held að það væri mjög æskilegt að svona áætlanir væru gerðar fyrir komandi kynslóðir á mun fleiri sviðum þó ég sé um leið fús að viðurkenna að það sé mjög erfitt að spá fram í tímann. Það liggja t.d. fyrir alþjóðasamningar í sambandi við útblástur á koltvísýringi. Við erum ekki alveg á línunni varðandi þær skuldbindingar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að stjórnvöld á hverjum tíma fái aðhald á sem flestum sviðum, ekki bara á efnahagssviðinu að þessu leyti.

Ég vil taka undir þessa tillögu, hæstv. forseti, og spyrja um leið hvort það sé réttur skilningur hjá mér að þetta sé einskorðað við reikninga er varða efnahags- og skattamál því að vissulega þurfi að huga að þessum málum á mun fleiri sviðum.