Strand flutningaskipsins Víkartinds

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 13:11:07 (4241)

1997-03-11 13:11:07# 121. lþ. 87.95 fundur 234#B strand flutningaskipsins Víkartinds# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[13:11]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Landhelgisgæslan fékk tilkynningu um hádegi umræddan dag sem hv. fyrirspyrjandi nefndi um vanda skipsins Víkartinds vegna vélarbilunar. Skipið var þá statt um 6 sjómílur út af Þjórsárósi. Varðskipið Ægir var þegar sent á vettvang og kom að skipinu kl. 14.15.

Landhelgisgæslan bauð ítrekað fram hjálp sína en skipstjóri Víkartinds afþakkaði alla hjálp. Ekki var í þeim umræðum vikið að þóknun til Landhelgisgæslunnar vegna björgunar. Starfsmenn Eimskipafélags Íslands spurðust aftur á móti fyrir um það hjá forstjóra Gæslunnar hvaða reglur giltu um samninga fyrir veitta hjálp í slíkum tilvikum. Upplýsingar voru veittar um það og voru ekki gerðar athugasemdir við þær.

Um kl. 18.30 var skipstjóranum bent á af skipstjóra varðskipsins að myrkur væri að skella á sem mundi gera varðskipinu erfitt fyrir. Var honum boðin aðstoð og jafnframt boðið að þyrla mundi koma til að ná í hluta áhafnarinnar. Tíu mínútum síðar hafnaði hann enn og aftur aðstoð varðskipsins og taldi ekki þörf á þyrlu Landhelgisgæslunnar. Það var síðan klukkutíma síðar sem skipstjórinn þáði aðstoð en þá var ekki unnt að koma við björgun eins og mönnum er kunnugt um. Þyrla Landhelgisgæslunnar bjargaði skipverjunum giftusamlega síðar um kvöldið eftir að skipið hafði strandað í fjörunni.

Þau ráð sem Landhelgisgæslan hafði tiltæk til þess að grípa inn í atburðarás voru ekki önnur en þau að bjóða ítrekað fram aðstoð sína, enda á valdi og ábyrgð skipstjóra viðkomandi skips að meta hættuástand og þörf á björgunaraðgerðum eða hjálp. Skýrar heimildir til að grípa inn í og hefja björgunaraðgerðir þegar boði um slíkt er hafnað eða þegar skipstjóri viðkomandi skips telur ekki þörf á slíku eru ekki til staðar.

Varðandi spurningu tvö, um möguleika yfirvalda til íhlutunar ef skipstjórar hafa aðra skoðun, vil ég segja að siglingar eru alþjóðleg starfsgrein. Um langa hríð hefur gætt alþjóðlegrar samræmingar varðandi siglingalöggjöf og verið stofnað til fjölmargra þjóðréttarlegra sáttmála á því sviði. Siglingalög, nr. 34/1985, taka mið af þessu auk þess sem höfð hefur verið hliðsjón af siglingalögum annars staðar á Norðurlöndunum en þau hafa um langt skeið haft með sér samstarf um löggjöf þessa.

Siglingalögin byggja á þeirri grundvallarreglu að skipstjóri hefur ákvörðun og boðvald á sínu skipi. Það tekur einnig til þess hvort óskað verði aðstoðar vegna sjávarháska. Þetta er í samræmi við aldagömul og alþjóðleg viðhorf varðandi siglingar.

Í 1. málsl. 11. gr. siglingalaga segir að skipstjóra sé skylt að gera allt sem hann má til bjargar mönnum, skipi, farmi og öðrum fjármunum sem á skipi eru og leita sér til þess hjálpar sem nauðsyn krefur ef skip kemst í sjávarháska. Vanræki skipstjóri þessa skyldu og stefni með því lífi og limum manna í hættu getur á grundvelli sjónarmiða um neyðarrétt verið réttlætanlegt að taka stjórn úr hans hendi. Mat í þeim efnum er þó vandasamt og verður ekki gripið til þess úrræðis nema öldungis megi vera ljóst að stórkostleg hætta sé á ferðum sem skipstjóri sinni ekki með viðeigandi úrræðum eftir atvikum með beiðni um viðeigandi aðstoð. Þess ber þó að gæta að ekki er ávallt unnt að grípa fram fyrir hendur skipstjóra þótt vilji stæði til þess.

Til að unnt yrði að taka fram fyrir hendur skipstjóra umfram það sem hér hefur verið rakið væri nauðsynlegt að gera viðeigandi breytingar á siglingalögum. Á því eru hins vegar þau tormerki að gæta verður alþjóðlegra skuldbindinga Íslands og viðhorfa á þessu sviði. Standa þau í vegi þess að gerðar verði umtalsverðar breytingar hvað þetta varðar.

Varðandi aðstöðu björgunarsveitar er þetta að segja: Björgunarsveitir og einstakir björgunarmenn vinna þýðingarmikið starf í landi okkar við leit og björgun og við almannavarnir, starf sem seint verður ofmetið. Starf björgunarsveitanna er að meginhluta til sjálfboðaliðastarf sem ekki er tekið gjald fyrir. Ef til þess kemur að greiða eigi laun mun það aðeins gerast að undangengnum viðræðum við heildarsamtök björgunarsveita. Þess í stað veitir þjóðin björgunarsveitunum framlag með ýmsum hætti, með beinum framlögum einstaklinga, með dánargjöfum, með kaupum á happdrættismiðum eða kaupum á vörum, svo sem flugeldum sem sveitirnar selja í fjáröflunarskyni. Mörg sveitarfélög leggja björgunarsveitum til fjárframlög eða styðja starfsemi þeirra með öðrum hætti. Það gerir ríkið einnig beint og óbeint. Stuðningur ríkisvaldsins við björgunarsveitir hefur einkum fólginn í eftirgjöf gjalda, aðflutningsgjalda og skatta við innflutning bíla og tækja til sveitanna. Er þar um að ræða nokkuð háar fjárhæðir á hverju ári, um 30 millj. kr. Þar að auki fá Slysavarnafélag Íslands og Landsbjörg bein framlög á yfirstandandi ári, yfir 30 millj. kr. Þá hefur það lagt björgunarsveitum í landinu til voldugan tekjustofn með lögum um safnakassa, en bæði Slysavarnafélag Íslands og Landsbjörg standa að rekstri þeirra ásamt Rauða krossinum og SÁÁ.

[13:15]

Björgun mannslífa verður ekki metin til fjár og enginn gerir ráð fyrir að fá þóknun af því tilefni. Um björgun eigna gegnir öðru máli. Þar geta þeir sem að björgun standa átt rétt á björgunarlaunum. Í siglingalögum eru sérstök ákvæði um björgun skipa sem hafa farist eða eru í hættu stödd og verðmæta sem í því eru og björgunarlaun í því sambandi. Sama er um björgun loftfara. Þessi lög hafa þá sérreglu að gengið er út frá því að ekki skuli greiða björgunarlaun þeim sem tekur þátt í björgun gegn beru og réttmætu banni þess sem hefur stjórn skips með höndum. Í því sambandi er byggt á þeirri meginreglu að eigandi eða vörslumaður hafi ráðstöfunarrétt yfir því verðmæti sem kann að vera í hættu statt á hafi úti.

Rétt er að taka fram að björgunarsveit getur með framlagi sínu unnið til björgunarlauna eins og hver annar. Um björgun fjárverðmæta sem ekki fellur undir ákvæða siglingalaga og loftferðalaga gilda hins vegar almennar reglur, þar á meðal ákvæði laga um skipströnd og vogrek. Fyrir slíkt mundu menn eiga rétt á endurgjaldi. Sama er um hverja aðra aðstoð sem veitt er.

Þess skal getið að dóms- og kirkjumrh. hefur fyrir skömmu óskað eftir tilnefningum í nefnd sem ætlað er að semja drög að frv. til laga um réttindi og skyldur björgunarsveita og félagsmanna þeirra, en sú nefnd mun verða skipuð fulltrúum Slysavarnafélagsins, Landsbjargar, heilbr.- og trmrn., samgrn., fjmrn., auk fulltrúa dóms- og kirkjumrn.

Varðandi það hvort hætta stafi af siglingum flutningaskipa nærri landi þannig að of lítið svigrúm sé til aðgerða ef þau rekur að landi er þetta segja: Almennt er frelsi skipa til siglinga mjög víðtækt og íhlutun íslenskra stjórnvalda utan hafnasvæða orkar alltaf tvímælis. Siglingum fylgir því miður ávallt hætta hvort sem siglt er nærri landi eða á úthafinu. Gildir þar einu þótt settar verði reglur um fjarlægð siglingaleiða frá landi og jafnt hvort sem um er að ræða flutningaskip, ferjur eða fiskiskip. Áhrifamesta leiðin til þess að draga úr þessari hættu er að allur búnaður sé í lagi og skipstjórnarmönnum sé ljós ábyrgð sín og fylgi þeirri reglu sem kallast góð sjómennska. Í því felst að meta aðstæður rétt og taka ekki óþarfa áhættu. Skipstjóri hefur í öllum efnum æðsta vald á skipi sínu og þar af leiðandi vald til að taka sjálfstæða ákvörðun um aðgerð til bjargar skipi, skipshöfn og farmi.

Er ástæða til að setja reglur eða gefa leiðbeinandi tilmæli um siglingaleiðir flutningaskipa sem sigla með ströndum fram? --- Hingað til hefur ekki verið talin nauðsyn á slíkum reglum.

Eiga slíkar reglur að gilda sérstaklega þegar fluttur er hættulegur farmur, einkanlega olía og eiturefni? --- Þessi mál voru í sérstakri athugun í vinnuhópi á vegum Siglingamálastofnunar ríkisins sem var skipaður fulltrúum hagsmunaaðila, Hafrannsóknastofnunar og Landhelgisgæslu ríkisins. Starfshópurinn náði ekki samkomulagi um niðurstöðu og verður starfið tekið upp að nýju.

Ættu slíkar reglur að taka mið af hrygningarstöðvum fiskstofna? --- Það álitaefni var tekið upp í starfshópnum og er meðal þess sem hlýtur að koma til athugunar. Við afmörkun á þeim svæðum við strendur landsins sem viðkvæm teljast er rétt að taka mið af klak- og hrygningarslóðum helstu nytjafiska í hafinu og stórum fuglabjörgum og öðrum friðlýstum svæðum við strendur landsins.

Hafa landslög eða hagsmunir erlenda skipaeigandans svo og tryggingafélaga tafið eða hindrað aðgerðir til mengunarvarna við strand Víkartinds? --- Hafa ber í huga að aðstæður á strandstað eru afar erfiðar til þess að fjarlægja úr skipinu þau hættulegu efni sem geta valdið mengun. Hér kemur til að skipið hallar um 40° í átt til sjávar. Þá hefur vont veður og vaxandi straumur frá því skipið strandaði valdið því að sjór hefur gengið yfir skipið. Við slíkar aðstæður þarf að vanda allar aðgerðir og hafa ber í huga að vanhugsaðar athafnir geta valdið stórum skaða. Sú bið sem orðið hefur frá því skipið strandaði þar til aðgerðir hófust við að draga úr hættu á mengun skýrist af því að þeir sem koma að þessum málum vildu vanda undirbúning sem mest og fá rétt tæki og mannafla sem þjálfaður er til þessara verka og koma á þann hátt í veg fyrir frekari skaða.

Er viðbúnaður íslenskra stjórnvalda nægur til þess að takast á við mengunarslys við strendur landsins, nánar tiltekið er nægur búnaður fyrir hendi? --- Segja má að viðbúnaður stjórnvalda til þess að mæta mengunaróhöppum þegar olía fer í sjó sé allgóður miðað við þá áhættu sem gera má ráð fyrir vegna siglinga skipa hér við land. Mikið er gert af hálfu Hollustuverndar til að vinna með þeim aðilum sem eiga að koma að slíkum málum og nýta þeim þannig fjármunina sem best. Hins vegar er ljóst að Íslendingar geta ekki mætt öllum slíkum óhöppum á eigin spýtur. Þeir hafa allgóða þekkingu á málunum en við meiri háttar mengunaróhöpp verður að treysta á aðstoð erlendis frá. Í því skyni höfum við gerst aðilar að svonefndu Kaupmannahafnarsamkomulagi um gagnkvæma aðstoð til að mæta stórum mengunaróhöppum.

Eru viðbragðsáætlanir öruggar? --- Til eru viðbragðs\-áætlanir yfir landið allt og einstakar hafnir. Þessar viðbragðsáætlanir eru að mati stjórnvalda taldar viðunandi.

Er þjálfun á mannskap næg? --- Lögð hefur verið rík áhersla á að þjálfa mannskap og hefur Hollustuvernd ríkisins séð um hana bæði fyrir hafnarstarfsmenn og starfsmenn Landhelgisgæslu. Auk þess hafa fulltrúar íslenskra stjórnvalda tekið þátt í sameiginlegum æfingum Norðurlandanna samkvæmt Kaupmannahafnarsamkomulaginu.

Eru nægir fjármunir til reksturs slíkra mengunarvarna? --- Það er að sjálfsögðu matsatriði hversu miklu fé eigi að verja til mengunarvarna á þessu sviði. Óraunhæft er að skipuleggja viðbúnað til að mæta öllum hugsanlegum mengunaróhöppum. Íslensk stjórnvöld hafa leitast við að hafa viðbúnað, þ.e. búnað og þjálfun mannafla, í því horfi að hægt sé að fást við stærstan hluta fyrirsjáanlegra óhappa.

Og loks: Gefa íslensk lög nægar heimildir til þess að grípa inn í (Forseti hringir.) ákvarðanir skipsstjórnarmanna ef þær gætu augljóslega leitt til stórkostlegra mengunarslysa o.s.frv.? --- Í lögum um varnir gegn mengun sjávar, nr. 32/1986, með síðari breytingum, eru ekki neinar heimildir til íhlutunar til að koma í veg fyrir hugsanlega mengun frá skipum meðan þau eru undir stjórn skipstjóra. Í alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að og varða varnir gegn mengun sjávar er heldur ekki að finna heimild til slíkrar íhlutunar. Ísland er aðili að alþjóðasamningi um íhlutun á úthafinu þegar óhöpp koma fyrir sem valdið geta olíumengun og er sá samningur frá 1969. Hann tekur einungis til íhlutunar á úthafinu en ekki í landhelginni.

Herra forseti. Þetta voru afar margar spurningar.