Strand flutningaskipsins Víkartinds

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 13:20:13 (4242)

1997-03-11 13:20:13# 121. lþ. 87.95 fundur 234#B strand flutningaskipsins Víkartinds# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[13:20]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Þessi umræða fer fram í skugga þriggja sjóslysa og í mínum huga er það umhugsunarefni að Alþingi Íslendinga skuli taka upp umræðu um þetta málefni áður en rannsókn er lokið, því sjóprófum í þessu máli hefur verið frestað. Mér finnst umhugsunarefni hvort ekki sé ástæða til þess að fresta henni a.m.k. þar til rannsókn á þessu máli lýkur.

Þingflokkur jafnaðarmanna vill votta þeim samúð sem misst hafa ástvini í þessum hörmulegu slysum, jafnframt því að þakka Landhelgisgæslunni framúrskarandi störf við björgun.

Virðulegi forseti. Það sem mér finnst standa upp úr í þessu er einkanlega tvennt. Mig langar að bera fram tvær fyrirspurnir, annars vegar til hæstv. dómsmrh. og hins vegar til hæstv. umhvrh. Það sem lýtur að hæstv. dómsmrh. eru fréttir sem birtust í Morgunblaðinu á laugardaginn um að skipstjórinn á Víkartindi hafi leitað eftir samningum við skipherrann á Ægi um björgunarlaun en verið hafnað. Og í Morgunblaðinu kemur fram að þeim hafi verið hafnað á þeim forsendum að skipstjóranum hafi ekki verið heimilt að semja um björgunarlaun þrátt fyrir ákvæði 167. gr. siglingalaga, en þar kemur fram að heimilt er að gera björgunarsamning. Þess vegna spyr ég hæstv. dómsmrh. hvort innan Landhelgisgæslunnar séu reglur sem kveða á um að slíkir samningar skuli ekki gerðir við aðstæður sem þessar.

Hins vegar vil ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. umhvrh. hver beri kostnaðinn af því rusli og því sem borist hefur núna um fjörur Suðurlands, en talið er að það sé u.þ.b. 55 km² svæði sem sé að einu eða öðru leyti þakið rusli. Jafnframt hefur komið fram í umfjöllun fjölmiðla um þetta mál að þýska tryggingafyrirtækið ætlar að fjarlægja skipið og bera kostnað af hreinsun á olíunni. Því vil ég beina því til hæstv. umhvrh. hvort hér sé á ferðinni einhvers konar meginregla sem færa megi yfir á önnur skipströnd sem hér hafa átt sér stað, og hvort umhvrn. muni í framhaldi af þessu ganga í það að þau íslensku tryggingafélög, sem hafa tryggt þau skip sem hafa strandað og liggja núna víða í fjörum landsins, sjái til þess að þau skipsflök verði fjarlægð.