Strand flutningaskipsins Víkartinds

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 13:32:20 (4245)

1997-03-11 13:32:20# 121. lþ. 87.95 fundur 234#B strand flutningaskipsins Víkartinds# (umræður utan dagskrár), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[13:32]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þessarar umræðu af minni hálfu votta öllum þeim sem um sárt eiga að binda vegna þessara áfalla undanfarna sólarhringa samúð og þakka fyrir frækileg björgunarafrek þeirra sem hafa staðið í eldlínunni við það verkefni. Þeir eiga sannarlega heiður skilinn. Um leið ítreka ég samúðarkveðjur mínar og fyrir hönd Framsfl. til þeirra sem um sárt eiga að binda.

Eins og fram kom í svari hæstv. forsrh. áðan held ég að fullyrða megi að hvorki landslög né aðrar fjárhagslegar aðgerðir eða hagsmunir hafi staðið í vegi fyrir því að aðgerðir til þess að bregðast við þeim vanda sem þarna er á strandstað hafi ekki hafist fyrr. Aðstæður eru afar erfiðar. Það veit ég að þeir hafa séð sem hafa komið á staðinn. Ég fór þangað á sunnudaginn og fór um svæðið með mönnum sem eru að vinna þar að björgunaraðgerðum og voru að undirbúa þær. Það hlýtur að vera öllum ljóst sem sjá þetta að það þarf að fara með gát að hlutunum, skipulega og á vel undirbúinn og hugsaðan hátt. Ég vil því leyfa mér að fullyrða að þarna er staðið rétt að málum. Okkur finnst umhverfið þarna vera afar illa útlítandi og auðvitað fannst mér það líka þá þegar eins og öllum öðrum. Við sjáum fréttamyndir og vitum að það hefur ekki batnað. Rusl er fjúkandi þarna um svæðið allt. Það kann að vera að hægt væri að hefja hreinsunaraðgerðir á úrganginum þegar eða fyrr en allir voru sammála um að það bæri auðvitað fyrst og fremst að gæta að því að það yrði ekki enn hættulegri mengun eins og af olíu og hættulegum efnum sem vitað var að væru um borð í skipinu og fyrstu aðgerðir miðuðust við það.

Vegna spurninga sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir beindi til mín áðan og síðan Kristín Halldórsdóttir um nefnd sem skipuð hafði verið eftir fyrri mengunarslys er rétt að taka fram að þeirri nefnd er ekki ætlað að vera viðbúnaðaraðili eða aðili til þess að taka á málum eða bregðast við í svona tilvikum heldur var hún skipuð eftir mengunarvandamálið sem kom upp á Ströndum til þess að koma með hugmyndir um það hvernig mætti bregðast við og það hefur sú nefnd þegar gert. Hún hefur skilað ráðuneytinu ítarlegri skýrslu bæði um það mál sérstaklega og önnur mál og síðan er hugsað að hún geti verið ráðuneytinu til aðstoðar við mat eftir slys eða áföll sem hafa orðið eins og það sem hér ber nú að garði. En stjórn mála, að minnsta kosti hvað varðar öll hættulegu efnin og olíuna, er í höndum Hollustuverndar ríkisins. Það er Hollustuvernd ríkisins sem hefur haft það mál með höndum að þessu sinni. Ég tel að það hafi verið staðið rétt að málum. Og eins og kom fram hjá hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur þá er hreinsun á rusli og öðrum óskaðlegum efnum málefni sveitarfélaganna.

Rétt er að segja síðan frá því að eftir fund sem getið hefur verið um og haldinn var í umhvrn. í gær þar sem rætt var við málsaðila hefur komið fram hjá þeim viljayfirlýsing sem við báðum um. Auðvitað á enn eftir að ganga nánar frá ýmsum þáttum og sérstaklega um endanlegar kostnaðargreiðslur. En þar kemur fram í viljayfirlýsingu aðila að þeir fallast á að fjarlægja allan hættulegan farm af strandstað, að fjárlægja olíu í samræmi við fyrirmæli yfirvalda, að sinna skyldum til að fjarlægja flak skipsins í samræmi við íslensk lög og að hefja og stjórna hreinsun hættulauss góss af strandstað. Varðandi þann þáttinn er rétt að segja frá því að um það er fjallað nú á fundi með heimamönnum í dag.

Virðulegur forseti. Aðeins að lokum vegna spurningar um önnur skipsflök. Því verður að svara til að það er mál sem mér er ekki kunnugt um persónulega. Ég ímynda mér að a.m.k. eitthvað af slíkum málum verði ekki leyst héðan af heldur að búið sé að fjalla um þau svo sem hægt er og bregðast við. En ef eitthvað kann að koma í ljós eftir þetta mál sem gefur tilefni til að takast á við þau mál sérstaklega þá mun ráðuneytið auðvitað skoða það.