Strand flutningaskipsins Víkartinds

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 13:44:19 (4248)

1997-03-11 13:44:19# 121. lþ. 87.95 fundur 234#B strand flutningaskipsins Víkartinds# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[13:44]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Þjóðin er stolt af björgunarafrekum Landhelgisgæslunnar en hrærð yfir missi björgunarmanns og er alveg ljóst að ekki mátti tæpara standa þegar tilraun varðskipsins Ægis var gerð til að bjarga Víkartindi.

Oddviti Djúpárhrepps í Þykkvabæ sagði að fjaran væri að verða að stærsta ruslahaug í Evrópu eftir strandið. Nánast engin hreinsun hefur farið fram nema á spilliefnum en vel hefur verið staðið að þeirri söfnun af hálfu heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Enn hefur ekki verið tryggt að tryggingafélagið eða útgerð skipsins beri kostnað af hreinsun fjörunnar. Þess vegna hefur hreinsunin ekki farið í gang og er biðin óþolandi. Rusl hefur dreifst á stórt svæði allt austur undir Eyjafjöll og talið er að svæðið sé um 50 eða 70 km2. Brýn þörf er á að hreinsun hefjist sem allra fyrst og þá í samvinnu við heimamenn.

Heilmikið rusl hefur einnig grafist í sandinn og er ljóst að langan tíma tekur að hreinsa upp allt það sem frá skipinu hefur komið. Sá varningur sem Víkartindur flutti var hættulítill en spyrja má hvað hefði gerst ef um olíu eða önnur spilliefni hefði verið að ræða. Ekki verður séð hvað verður um talsvert magn af svartolíu sem er um borð en ljóst er að það tekur a.m.k. hálfan mánuð að ná þeirri olíu úr skipinu þegar dæling fer í gang en íslenskur búnaður er ekki til staðar og þess vegna þarf að flytja hann inn frá Hollandi.

Þáttur heimamanna í björgunar- og leitarstarfi vegna strands Víkartinds er stór en stærsti hlutinn er unninn í sjálfboðavinnu af vel skipuðum björgunarsveitum í Rangárvallasýslu. Vert er að benda á að verulegt eignatjón hefur orðið á björgunartækjum björgunarsveitanna og einnig á bílum einstaklinga vegna sandfoks, sjógangs og fleira. Björgunarsveitir eru ekki í stakk búnar að endurnýja tæki sem skemmst hafa og er óljóst hvernig eignatjón þeirra verður bætt en brýnt er að svo verði. Það er ljóst að hér er um sjóslys að ræða sem væntanlega hefði verið hægt að koma í veg fyrir.