Strand flutningaskipsins Víkartinds

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 13:54:36 (4252)

1997-03-11 13:54:36# 121. lþ. 87.95 fundur 234#B strand flutningaskipsins Víkartinds# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[13:54]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir samúðarkveðjur til allra þeirra sem um sárt eiga að binda eftir þessi hörmulegu sjóslys sem orðið hafa við Íslandsstrendur. Sjóslys síðustu daga og umræður um öryggismál skipa hafa vakið þjóðina til meðvitundar um hve stutt er á milli lífs og dauða þegar ógnarkraftur hafsins er annars vegar. Þá sjá menn hversu lífsnauðsynlegt það er að ákvarðanir skipstjórnarmanna séu réttar og öll öryggisatriði í lagi.

Björgunarafrek þyrlumanna síðustu daga eru óumdeild og þar fara sannkallaðar hetjur. Ekki má heldur gleyma þeim þætti að það var ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sem tók ákvörðun um kaup á þyrlunni Líf og fór þar að ráðum okkar færustu sérfræðinga í þessum málum, þ.e. flugstjóra þyrlunnar, Benónýs Ásgrímssonar og Páls Halldórssonar.

Einnig hefur vakið verðskuldaða athygli góður árangur kennslu sjómanna í björgunarskóla sjómanna. Áfallahjálp sem veitt var skipbrotsmönnum af Dísarfelli og fjölskyldum þeirra var einnig til fyrirmyndar og þakkarverð en það skilja ekki aðrir en þeir sem það hafa reynt hvílíkt áfall það er að lenda í sjónum og dvelja þar jafnvel um langan tíma. Þar hangir líf og heilsa á bláþræði og fyrsta hjálp getur verið vendipunktur í þeirri endurhæfingu sem oft er nauðsynleg þegar skipbrotsmenn koma til lands.

Hvernig bregðast á við dómgreindarleysi skipstjórnarmanna eins og á Víkartindi er aftur á móti vandaverk án þess að ábyrgð og skaði lendi á íslenskum stjórnvöldum. Ég tel því nauðsynlegt að ríkisstjórnin skipi nefnd sérfróðra manna í siglingarétti, sjórétti og tryggingamálum svo hægt sé að átta sig á því hvað hægt er að gera til að auka öryggi sjómanna og þeirra sem verða fyrir skaða af strandi skipa og af sokknum skipum.

Það sem snýr að strandi Víkartinds í dag eru afleiðingar þess og að skipið hefur legið á strandstað í heila viku án þess að nokkuð hafi verið gert til að hefta fok á alls kyns varningi. Þar er rusl að dreifast um allar sveitir sem og sandfjörur við Þjórsárósa. Það er mikill skaði hversu seint er gripið inn í þetta umhverfisslys. Það er ekki verjandi.