Strand flutningaskipsins Víkartinds

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 13:56:42 (4253)

1997-03-11 13:56:42# 121. lþ. 87.95 fundur 234#B strand flutningaskipsins Víkartinds# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[13:56]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Í öðrum löndum í kringum okkur sem við miðum okkur gjarnan við mundu viðbrögð við slysum af þessu tagi verða þau að þjóðþingin kysu rannsóknarnefndir og nefndir sem jafnframt gerðu tillögur til úrbóta. Ég held í rauninni að þau mál sem við stöndum frammi fyrir séu þess eðlis að skynsamlegast væri að Alþingi Íslendinga kysi sérstaka nefnd til að fjalla um mál af því tagi sem hér er uppi og gera tillögur til úrbóta.

Því miður hafa menn kosið að fara aðrar leiðir yfirleitt hér á landi og sú leið sem menn mundu sennilega fara væri að skipa nefndir á vegum framkvæmdarvaldsins. Ef það verður niðurstaðan, þá er það út af fyrir sig gott og blessað. Það hefur oft verið gert og ég vil þá láta það koma fram sem mína skoðun að ég teldi að slík nefnd og slík rannsókn og slík samstilling kraftanna á vegum framkvæmdarvaldsins ætti að fara fram undir forustu forsrn. Ég tel að þau mál sem hér er um að ræða snerti í rauninni öll ráðuneyti á einn eða annan hátt. Eðlilegt væri að tafarlaust yrði sett niður nefnd til að rannsaka aðdraganda mála, til að gera tillögur, til að skila þeim tillögum til Alþingis, til að tryggja að Alþingi geti tekið ákvarðanir um nauðsynlega fjármögnun á þeim aðgerðum sem á að grípa til. Menn eiga ekki að láta það gerast í málum, eins og þeim sem eru til umræðu, að þingið láti sitja við orðin tóm. Það á að grípa til athafna og það liggur fyrir hverjar þær þurfa að vera, herra forseti.